Rekstur dagvistarstofnana fyrir börn á vegum sjúkrahúsa

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 19:01:00 (5596)


     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Vestf. velti því fyrir sér hver staða þessa máls væri. Ég vil segja það að mér finnst staða þessa máls vera býsna góð. Hér hafa talað í dag, auk okkar flm., fjórir þingmenn að ég hygg sem allir hafa lýst yfir miklum stuðningi við þetta mál. Ég verð að játa það að þessi mikla breiðfylking á bak við málið er auðvitað afar ánægjuleg, einkum og sér í lagi fyrir okkur tvo hv. flm. sem erum upphafsmenn þessa máls. ( Gripið fram í: Traust.) Já, þetta er traust fylking sem að baki okkar býr, það er alveg rétt, og forustumennirnir ekki síðri. Hitt er auðvitað alveg ljóst að þetta mál hefur fengið afskaplega eðlilega meðferð. Fyrst var það þannig að við hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson ásamt fleirum fengum upplýsingar um þetta mál í fjárln. Við kusum síðan að ljá þessu máli þinglegan styrk þannig að eftir væri tekið og málið fengi öruggt brautargengi með því að fara með það í gegnum Alþingi. Ég spyr: Er eitthvað óeðlilegt við það að þingmenn, þó stjórnarþingmenn séu, fari með mál í gegnum þjóðþingið? Er eitthvað óeðlilegt við það? Telja menn t.d. eðlilegra að öll mál sem stjórnarþingmenn vilja taka upp fari eingöngu fram í þingflokkum stjórnarflokkana? Vitaskuld ekki. Hitt er auðvitað athyglisvert sem hv. 5. þm. Vestf. kaus að þegja yfir og það var að þetta mál er auðvitað ekki nýtt af nálinni. Það er ekki í fyrsta skipti á þessu fjárlagaári sem verið er að greiða niður dagvistunarkostnað fyrir sveitarfélög í landinu með þessum hætti. Fjmrh. síðustu ríkisstjórnar, formaður Alþb., bar vitaskuld höfuðábyrgð á fjárlögum þar sem þessu var eins fyrir komið. Ég minni á það vegna þess að menn eru hér að tala sérstaklega um Reykjavíkurvaldið og að verið sé að greiða niður dagvistunarkostnað í fleiri sveitarfélögum. Hér er ekki og á ekki að vera að ræða sérstaklega um eitt sveitarfélag sem er Reykjavík, heldur þau önnur sem málið er skylt.