Rekstur dagvistarstofnana fyrir börn á vegum sjúkrahúsa

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 19:11:00 (5601)


     Magnús Jónsson :
    Virðulegi forseti. Í sjálfu sér sé ég ekkert athugavert við að Alþingi taki afstöðu til þess hvort ekki sé ástæða fyrir ríkið að fara að lögum í svona málum. Hins vegar get ég ekki neitað því við lestur þessarar þáltill. að ýmsar áleitnar spurningar leita á mig. Af hverju er t.d. bara miðað við Reykjavík? Mér er kunnugt um að á fjórðungssjúkrahúsum úti á landi eru svipaðar reglur hafðar í sambandi við greiðslur á dagheimilum og barnaheimilum. Mér þykir það dálítið lituð meðferð á málinu að taka bara til þess sem dæmi kostnað við sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu. Raunar held ég að víða mundu koma í ljós ýmsir fiskar undan steinum ef þeim væri velt við og farið að skoða fleiri mál þar sem jafnvel er verið að taka af rekstrarfé sem ríkið stendur að verulegu leyti undir bæði hér í Reykjavík og úti á landi. Þá kæmi í ljós að ríkið stæði undir ýmsum kostnaði sem það ætti ekki að standa undir samkvæmt lögum um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélags. Þannig að mér finnst það veruleg einföldun á umræðunni sem slíkri og vil raunar ítreka það og spyrja þá flm. hvernig stendur á því að bara var tekið fyrir kostnaður við rekstur á dagheimilum í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu en ekki annars staðar?