Lánasjóður íslenskra námsmanna

127. fundur
Mánudaginn 27. apríl 1992, kl. 13:49:00 (5608)


     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil staðfesta það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gagnrýndi hér áðan að það hafa ekki borist útreikningar sem óskað var eftir í byrjun apríl en það stafar eingöngu af því að þetta eru erfiðir og viðamiklir útreikningar sem hér er um að ræða og óskir um að fá þá seint fram komnar. Meiri hluti menntmn. setti sig ekki á móti óskum þingmannsins í þessu efni þó að við teldum raunar ekki að nein sérstök nauðsyn væri á því að fá þessa útreikninga. Þeir eru mjög erfiðir á þessu stigi, einkanlega þegar útlánareglurnar eru ekki tilbúnar og við getum kannski sagt að með þeim sé gerð tilraun til þess að spá inn í framtíðina. En það er hins vegar ljóst að umfjöllun um lánasjóðinn tekur lengri tíma en bara daginn í dag. Á morgun verður utandagskrárumræða um utanríkismál þannig að ég get ekki séð að það sé neitt á móti því að umræðan hefjist í dag og síðan svo áfram eftir morgundaginn.