Lánasjóður íslenskra námsmanna

127. fundur
Mánudaginn 27. apríl 1992, kl. 13:50:00 (5609)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (um þingsköp) :
    Herra forseti. Mér var ekki kunnugt um að þessir útreikningar hefðu ekki borist og átti satt að segja ekki von á að þeir mundu ráða úrslitum um það hvort menn næðu samkomulagi um að umræðan gæti hafist hér í dag. Ég verð að segja það eins og er að ég hef nokkrar áhyggjur ef umræðan frestast. Það kemur sér mjög illa að ekki sé hægt að skýra frá hverjar verði úthlutunarreglur og hvernig lögin verða sem farið verður eftir við úthlutun lána á haustdögum. Þetta kemur sér að sjálfsögðu mjög illa fyrir námsmenn.
    Ég vildi spyrja hvort hægt væri að ná samkomulagi um það ef málinu yrði frestað í dag hvort það mætti þá koma fyrir á morgun og utandagskrárumræðunni, sem var verið að boða, yrði þá frestað um einn dag. Við gætum þá rætt lánasjóðsmálið á morgun og utandagskrárumræða um EES gæti þá orðið á miðvikudag. Ég geri ekki ráð fyrir að menn séu tilbúnir í þá utandagskrárumræðu í dag með svo stuttum fyrirvara án þess að ég viti það þó, en vildi varpa þessu fram til samkomulags. Mér líst satt að segja ekki á að bíða með umræðuna alveg til miðvikudags. Þá er líka stuttur dagur eins og í dag, þá eru þingflokksfundir og ég svo sem veit ekki hvað menn ætla sér langan tíma í 2. umr. málsins. Ég hafði satt að segja ekki reiknað með að henni lyki í dag þar sem við höfum styttri tíma vegna þingflokksfundanna. En ég vildi varpa þessu fram til íhugunar hvort þetta gæti verið lausn í málinu.