Lánasjóður íslenskra námsmanna

127. fundur
Mánudaginn 27. apríl 1992, kl. 13:56:00 (5612)

     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta menntmn. um frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna á þskj. 776 og brtt. á þskj. 775.
    Menntmn. hefur fjallað ítarlega um frv. og kallað á sinn fund fjölmarga aðila til að veita upplýsingar og fjalla um málið. Einnig var frv. sent út til umsagnar og bárust um það margar umsagnir. Frv. er heildarfrv. um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það felur í sér veigamiklar breytingar frá núgildandi lögum og miða þær að því að bæta fjárhagsstöðu sjóðsins til frambúðar. Áhersla er lögð á að styðja við menntun í landinu og tryggja áfram tækifæri til náms án tillits til efnahags. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á frv.:
    1. Lagt er til að 1. gr. verði breytt þannig að hún kveði á um tækifæri til náms án tillits til efnahags.
    2. Lagt er til að fellt verði niður það skilyrði að námsmenn í sérnámi þurfi að fylla 20 ára aldur til þess að fá námslán.
    3. Lagt er til að 3. gr. mæli fyrir um að tekið verði tillit til fjölskyldustærðar og að sjóðstjórn sé heimilt að taka tillit til búsetu við mat á framfærslukostnaði.
    4. Lagðar eru til þrjár eftirtaldar breytingar á 6. gr.:
    Í fyrsta lagi er lagt til að ábyrgðarmaður á námsláni sé a.m.k. einn og að sjálfskuldarábyrgð hans nemi tiltekinni hámarksfjárhæð.
    Í öðru lagi er lagt til að sæki námsmaður um hærra námslán en ábyrgð er fyrir í skuldabréfi leggi hann fram nýtt skuldabréf með nýrri ábyrgðaryfirlýsingu.
    Í þriðja lagi er lögð til orðalagsbreyting í samræmi við þá brtt. sem gerð er um fjölda ábyrgðarmanna.
    5. Lagt er til að 7. gr. kveði á um að lánstími verði ótilgreindur og greitt verði af láni skv. 8. gr. þangað til lán er að fullu greitt. Endurgreiðsla hefjist tveimur árum eftir námslok í stað eins árs. Hundraðshluti vaxta af láni verði breytilegur, allt að 3%.
    6. Lögð er til sú breyting á 8. gr. að árleg endurgreiðsla verði annars vegar föst greiðsla að ákveðinni upphæð eins og kveðið er á um í núgildandi lögum um námslán. Hins vegar komi til viðbótar greiðsla sem miðast við ákveðinn hundraðshluta af útsvarsstofni skuldara, 5% fyrstu fimm árin og 7% eftir það. Útfærsla á endurgreiðslureglum er sú sama og í gildandi lögum.
    7. Lögð er til breyting á 9. gr. í samræmi við brtt. við 7. gr.
    8. Lögð er til sú breyting í 18. gr. að greiðslur af eldri námsskuldum frestist þar til lán samkvæmt frv. er að fullu greitt.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frv. með þessum breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj.
    Undir nál. rita Sigríður A. Þórðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Björn Bjarnason, Drífa Hjartardóttir og Árni R. Árnason.
    Virðulegi forseti. Frv. um lánasjóðinn fékk langa og ítarlega umfjöllun í þinginu þegar það kom til 1. umr. fyrr í vetur. Við þá uppfjöllun kom glögglega í ljós að þingmenn hafa skilning á þeim vanda sem við blasir en greinir hins vegar á um hvernig beri að leysa hann. Á undanförnum árum hafa fjármál Lánasjóðs ísl. námsmanna oft verið til umfjöllunar utan þings sem innan. Sú umræða hefur einkennst af því að sjóðinn hafi skort fé til að standa við þær skuldbindingar sem honum ber samkvæmt gildandi lögum. Ýmsar nefndir hafa skilað áliti um lánasjóðinn á undanförnum árum.
    Fyrrv. menntmrh., Svavar Gestsson, skipaði vinnuhóp til að fjalla um Lánasjóð ísl. námsmanna í nóvember 1988. Sá hópur skilaði áliti í febrúar 1989. Aftur var skipuð nefnd í október 1989 til að fjalla um framtíðarverkefni Lánasjóðs ísl. námsmanna og stöðu sjóðsins á því ári. Hún skilaði áliti í júlí 1990. Ríkisendurskoðun skilaði greinargerð um fjárhagsstöðu lánasjóðsins í apríl á síðasta ári. Í júni á síðasta ári skipaði síðan Ólafur G. Einarsson menntmrh. nefnd um endurskoðun námslánakerfis sem skilaði áliti í október 1991. Þeirri nefnd ásamt tveimur fulltrúum námsmanna sem skipaðir voru af ráðherra í nefndina var falið að semja það frv. sem hér er til umfjöllunar.
    Af þessari upptalningu má ljóst vera að vandi lánasjóðsins er ekki ný bóla heldur hafa menn velt honum á undan sér árum saman án þess að gera tilraun til að leysa hann á raunhæfan máta fyrr en nú. Í grg. með frv. kemur fram að fulltrúar námsmanna standa ekki að frv. og skila séráliti, sbr. fskj. 4 og 6, en meiri hluti nefndarinnar telur sig hafa tekið tillit til sjónarmiða þeirra og tillagna, einkum varðandi tekjutengt þak á endurgreiðslur. Tilgangur þeirra breytinga sem felast í frv. er fyrst og fremst að treysta fjárhagslega stöðu lánasjóðsins til frambúðar og draga úr þeirri byrði sem ríkissjóður hefur af sjóðnum. Hinn mikilvægi stuðningur þjóðfélagisns við menntun verður áfram verulegur. Lánin verða hins vegar dýrari og greiðast fyrr upp en áður, enda verður framtíð sjóðsins ekki tryggð með öðrum hætti án aukinna ríkisframlaga.
    Það er mikilvægt að Lánasjóður ísl. námsmanna geti áfram auðveldað ungu fólki að afla sér menntunar með því að veita hagstæð lán jafnframt því sem lánareglur verða á þann veg að hvatt sé til ráðdeildar. Í núgildandi kerfi eru námsgjöld að hluta til styrkir vegna endurgreiðslureglna, vaxtaleysis og þess að því eru í raun engin takmörk sett hversu há námslán menn geta fengið. Þeir sem taka hæstu lánin fá í raun mestu styrkina. Dæmi eru til um það að einstaklingar skuldi lánasjóðnum 12--14 millj. kr. Við þá stöðu að upphæð lánsins skiptir engu máli varðandi greiðslubyrði af endurgreiðslum er lítill hvati fyrir námsmanninn að taka lágt lán, einkanlega ef hann skuldar þegar svo mikið að endurgreiðslur munu standa yfir áratugum saman.
    Fjárþörf Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur aukist verulega á undanförnum árum. Þetta hefur valdið bæði auknum lántökum sjóðsins og vaxandi ríkisframlagi. Ef áfram fer sem horfir vex eftirspurn eftir námslánum í næstu framtíð. Ýmsar skýringar eru á vaxandi fjárþörf sjóðsins og eru þessar helstar:
    1. Flest nám að loknum grunnskóla er nú talið lánshæft að einhverju leyti ef undan er skilið nám til stúdentsprófs.
    2. Nemendum á háskólastigi og framhaldsskólastigi hefur fjölgað umtalsvert.
    3. Við mat á lánsþörf er nú tekið tillit til fleiri atriða en áður, yfirleitt til hækkunar.
    4. Framfærslu- og námskostnaður almennt, þar með talin skólagjöld, hefur aukist verulega.
    5. Kostnaður sjóðsins vegna eigin lántöku hefur aukist vegna þess m.a. að ríkisframlag hefur ekki aukist til jafns við útlán.
    6. Lítill hvati er í núgildandi kerfi fyrir námsmann til að takmarka lántöku sína.
    Virðulegi forseti. Í greinargerð Ríkisendurskoðunar frá því í apríl á síðasta ári um fjárhagsstöðu Lánasjóðs ísl. námsmanna eru helstu niðurstöður m.a. þessar: ,,Lánþegar lánasjóðsins eru tæplega 24 þús. Útistandandi námslán nema um 25 milljörðum kr. en sú fjárhæð hefur verið færð niður um 3,9 milljarða kr. í ársreikningi vegna lána sem ekki munu innheimtast að fullu vegna þeirra takmarkana sem eru á endurgreiðslum námslána.`` Síðar segir: ,,Útlán sjóðsins dreifast þannig að um 60% lántakenda skulda innan við 1 millj. kr. Aðeins um 1% lántakenda skulda 5 millj. kr. eða meira.`` Enn fremur: ,,Ríkissjóður hefur lagt mikla fjármuni í lánasjóðinn á undanförnum árum. Fyrirsjáanlegt er að framlög til sjóðsins þurfi að hækka vegna aukinnar fjárbindingar í sjóðnum og aukinnar aðsóknar í námslán. Mikill vaxtamunur er á námslánum sem ekki bera vexti og þeim lánum sem sjóðurinn þarf að taka til að fjármagna útlán. Vaxtamunur þessi er í dag rúmlega 6%. Fjárbinding í námslánakerfinu er í dag rúmir 20 milljarðar í vaxtalausum námslánum að teknu tilliti til affalla vegna takmarkana á endurgreiðslum. Miðað við óbreytt útlán mun fjármagn sem bundið er í þessu kerfi verða um 40 milljarðar innan 10 ára og 60 milljarðar innan 20 ára.``
    Meginbreytingin sem felst í þessu frv. er sú að teknir eru upp vægir vextir á láninu. Endurgreiðslur hefjast fyrr en áður og hraðar er greitt til baka. Eftirstöðvar falla ekki niður heldur skulu lánin greidd að fullu. Það skiptir því námsmanninn miklu að reyna að takmarka lántökur sínar sem kostur er. Lögð er áhersla á að reyna að raska sem minnst reglum um útlán sjóðsins en lagðar eru til veigamiklar breytingar á endurgreiðslureglum til að tryggja fjármögnun sjóðsins þótt áfram sé gert ráð fyrir að námslán séu meðal hagstæðustu lána sem völ er á í þjóðfélaginu.
    Virðulegi forseti. Ég vík nú frekar að brtt. meiri hluta menntmn. Margar gagnlegar ábendingar og tillögur komu fram við umfjöllun málsins í menntmn. Ljóst er að enginn vegur er að sætta öll þau ólíku sjónarmið sem þar komu fram en þess er freistað að koma nokkuð til móts við ýmis þeirra.
    1. Við 1. gr. er gerð sú breyting að festa í lagatexta það hlutverk Lánasjóðs ísl. námsmanna að tryggja tækifæri til náms án tillits til efnahags. Það er ljóst að í hugum fólks er það meginhlutverk sjóðsins.
    2. Við 2. gr. er lagt til að horfið verði frá því að binda námslán til sérnáms við 20 ára aldur. Ákvæði þetta snertir einkum nemendur sérskóla og iðnbrauta í fjölbrautaskólum. Með þessari breytingu er komið til móts við þau sjónarmið að hlúa að starfstengdu stuttu námi og að verknámi og bóknámi sé gert jafnhátt undir höfði.
    3. Lagt er til að 3. gr. mæli fyrir um að tekið verði tillit til fjölskyldustærðar og að sjóðstjórn sé heimilt að taka tillit til búsetu við mat á framfærslukostnaði. Rétt þótti að kveða skýrar á um félagslegar aðstæður með þessum breytingum en gert er í frv. Því skal einnig tekið fram að ekki er gert ráð fyrir neinum verulegum breytingum á núgildandi úthlutunarreglum sjóðsins hvað varðar þessi atriði. Hins vegar hefur stjórnin samkvæmt frv. rýmra svigrúm en verið hefur til þessa til að ákveða fyrir hvaða útgjöldum námsmanns skuli lánað og hvaða tillit skuli taka til fjölskyldustærðar hans, tekna o.s.frv.
    4. Lagðar eru til þrjár eftirtaldar breytingar á 6. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að ábyrgðarmaður á námsláni sé a.m.k. einn og að sjálfskuldarábyrgð hans nemi tiltekinni hámarksfjárhæð. Í öðru lagi er lagt til að sæki námsmaður um hærra námslán en ábyrgð er fyrir í skuldabréfi leggi hann fram nýtt skuldabréf með nýrri ábyrgðaryfirlýsingu. Í þriðja lagi er lögð til orðalagsbreyting í samræmi við þá brtt. sem gerð

er um fjölda ábyrgðarmanna.
    Með þessari breytingu er komið til móts við þau sjónarmið að erfitt geti reynst fyrir námsmenn að útvega tvo ábyrgðarmenn. Einnig er talið skynsamlegt að ganga frá tryggingarbréfi með einum ábyrgðarmanni eða fleiri ef vill við upphaf lántöku í byrjun fyrsta námsárs. Þar væri um að ræða formlega frágengið skuldabréf með einhverri hámarksfjárhæð. Síðan mætti lána allt að þeirri fjárhæð í eitt, tvö eða fleiri ár eftir lengd námstíma án þess að ganga frá nýjum ábyrgðum. Á þennan hátt þyrftu ábyrgðarmenn strax að taka afstöðu til þess hvernig þeim litist á að ábyrgjast heildarskuld námsmannsins en mundu ekki ánetjast smám saman eins og í þeirri aðferð sem frv. gerir ráð fyrir. Ef námsmaður sækir um námslán sem nemur hærri fjárhæð en ábyrgð er fyrir þarf hann annaðhvort að leggja fram nýtt bréf í stað þess sem lánað var út á eða leggja fram aðrar ábyrgðir til viðbótar sem sjóðurinn telur fullnægjandi.
    5. Lagt er til að í stað 3.--5. mgr. 7. gr. komi þrjár nýjar málsgreinar þar sem kveðið er á um að lánstími verði ótilgreindur og greitt verði af láni skv. 8. gr. þar til lán er að fullu greitt. Endurgreiðsla hefjist tveimur árum eftir námslok í stað eins samkvæmt frumvarpinu. Hundraðshluti vaxta af láni verði breytilegur allt að 3%. Ríkisstjórnin að tillögu menntmrh. tekur nánari ákvörðun um vexti námslána á hverjum tíma samkvæmt þessari grein.
    Miklar athugasemdir komu fram við 7. gr. við umfjöllun menntmn., bæði hjá þeim aðilum sem komu á fund nefndarinnar, einkanlega fulltrúum námsmanna og í skriflegum umsögnum sem bárust til nefndarinnar. Flestar athugasemdirnar voru annars vegar þess efnis að vöxtum af námslánum var hafnað og hins vegar lýstu margir því að endurgreiðslufrestur sá sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e. eitt ár, væri of stuttur. Þess ber þó að geta að Nemendafélag Tækniskóla Íslands lýsir þeirri skoðun í umsögn um frv. að of mikið sé í einu að innheimta lántökugjöld og vexti af sama láninu, en kveðst geta sætt sig við annaðhvort að hóflegu marki og telur að í mesta lagi væri hægt að sættast á 1% vexti. Í umsögn frá Háskóla Íslands segir um vexti:
    ,,Nú eru hins vegar nær öll lán verðtryggð og með háum vöxtum þannig að e.t.v. er ekki nein goðgá þótt einhverjir vextir séu teknir af námslánum. Ekki er þó augljóst að þá eigi að binda vaxtaprósentuna heldur mætti t.d. hugsa sér að miða við ákveðið hlutfall, 1 / 3 eða 1 / 2 af tiltekinni prósentu sem gildir um lán á frjálsum markaði, t.d. vexti af ríkisskuldabréfum. Einnig þarf að huga því að vaxtaprósentan sé ekki svo há að hún ofbjóði greiðslugetu lánþega.``
    Samkvæmt upplýsingum úr gagnagrunni frá Lánasjóði ísl. námsmanna um lokalánþega á skólaárinu 1990--1991 er ljóst að 76% þeirra hafa þegið lán að fjárhæð undir 2 millj. Ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið að tillögu menntmrh. að vextir af námslánum skuli vera 1%. Því hefur verið haldið fram af gagnrýnendum frv. að endurgreiðslufrestur og vextir skertu eða kæmu í veg fyrir að námsmenn yrðu lánshæfir í húsnæðiskerfinu. Það er að sjálfsögðu deginum ljósara að greiðslur af námslánum hljóta að skerða möguleika til húsnæðiskaupa sem nemur endurgreiðslu af námsláninu á hverju ári. Það hljóta öll lán sem einstaklingur tekur að gera hvort sem þau eru námslán eða ekki. Helstu ástæður þess að setja vexti á námslán eru þær að núgildandi lánareglur eru ekki í samræmi við það sem almennt gerist í þjóðfélaginu. Þær hvetja ekki til ráðdeildar jafnframt því sem ásókn í lánin hefur aukist vegna þess hve hagstæð þau eru. 1% vextir eru lágir vextir og með þeim er komið verulega til móts við óskir námsmanna.
    6. Lögð er til sú breyting á 8. gr. að árleg endurgreiðsla verði annars vegar föst greiðsla að ákveðinni upphæð eins og kveðið er á um í núgildandi lögum um námslán. Sú upphæð er samkvæmt brtt. 48 þús. kr. miðað við lánskjaravísitölu 3198. Hins vegar komi til viðbótar greiðsla sem miðast við ákveðinn hundraðshluta af útsvarsstofni skuldara, 5% fyrstu fimm árin og 7% eftir það. Útfærsla á endurgreiðslureglum er sú sama og í gildandi lögum. Með þessum breyttu endurgreiðslureglum, tveggja ára greiðslufresti og 1% vöxtum má færa rök að því að langflestir greiði lán sín til baka fyrir eftirlaunaaldur. Margumræddur einstæður hjúkrunarfræðingur með tvö börn, meðallán og meðaltekjur, á þó eftir á fjórða hundrað þús. kr. við 67 ára aldur. Þá kemur til kasta stjórnar að leysa úr slíkum einstökum tilfellum og þá er vert að hafa í huga að enginn getur séð inn í framtíðina með öruggri vissu um launaþróun, húsnæðismál, vaxtamál né nokkuð annað er hægt að spá svo að óyggjandi sé.
    7. Lögð er til breyting á 9. gr. í samræmi við brtt. við 7. gr.
    8. Lögð er til sú breyting í 18. gr. að greiðslur af eldri námsskuldum frestist þar til lán skv. frv. þessu er að fullu greitt. Með þessari breytingu er komið í veg fyrir að þeir námsmenn sem skulda námslán í tveimur kerfum greiði samtímis að fullu í báðum kerfunum.
    Eins og áður er getið kom fram gagnrýni á ýmis önnur atriði frv. en þau sem meiri hluti menntmn. gerir brtt. um. Þar er helst að nefna þau ákvæði 6. gr. frv. að námslán skuli aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur. Þetta eru óneitanlega harðari kostir en tíðkast hafa til þessa.
    Á skólaárinu 1990--1991 fengu um 500 námsmenn svonefnd ofgreidd lán sem námu um 55--60 millj. kr. Hæsta ofgreiðsla til einstaklings nam 700--800 þús. kr. Með ákvörðun um að greiða lán eftir að árangri er skilað væri komið í veg fyrir þessa misnotun á fjármunum. Að auki liggur fyrir að hundruð manna sem fengu fyrirgreiðslu hjá sjóðnum hafa hætt námi án þess að skila tilskildum árangri. Um helmingur lánþega sjóðsins að meðaltali lauk aðeins um 75% árangri af því sem skólar telja eðlilegt á skólaárinu 1990--1991. Með tilliti til alls þessa er fullkomlega réttlætanlegt að fara þessa leið sem stuðlar að aukinni festu og öryggi í störfum sjóðsins og kemur í veg fyrir að námsmenn lendi í fjárhagsvandræðum vegna ofgreiddra lána. Ætla má að námsmenn verði fljótir að aðlaga sig þessum breyttu reglum og má e.t.v. með nokkrum rökum líkja þessari aðferð við eftirágreidd laun.
    Ýmis fleiri atriði mætti nefna sem athugasemdir voru gerðar við, svo sem lántökugjald, aukin völd stjórnar lánasjóðsins, niðurfellingu styrkja o.fl. en hér verður staðar numið.
    Því hefur verið haldið fram að frv. um lánasjóðinn vegi að jafnrétti til náms og grafi undan æðri menntun í landinu. Flutningur þessa frv. gefur engin tilefni til gagnrýni af slíkum toga. Hér er þvert á móti leitast við að koma þessum mikilvæga sjóði til bjargar og tryggja tilvist hans til frambúðar. Í heimi sem leggur sífellt meiri áherslu á gildi menntunar fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið, í heimi þar sem samvinna og samkeppni vegast á skiptir það máli að þessi litla þjóð á hjara veraldar er og verður það sem hún er vegna þess sem hún kann og getur. Þjóðin hefur borið gæfu til þess að nýta veraldleg verðmæti til að styrkja möguleika sína í andlegum efnum. Þess vegna fer varla fram hjá nokkrum manni að góð menntun er þungamiðja og undirstaða allra framfara. Þjóðin má ekki blekkja sjálfa sig með því að telja sér trú um það að þessi veigamikli þáttur í framvindu hennar kosti ekki neitt. Við verðum að þora að horfast í augu við staðreyndir og gera okkur grein fyrir því m.a. að grunnurinn undir Lánasjóði ísl. námsmanna þarf að vera sterkur, traustur, kannski svolítið harður en óhagganlegur. Þeir sem vilja styðja sig við sjóðinn verða líka að gera sér ljóst að hann verður að standa á traustum stoðum þó að það kunni að kosta þá eitthvað.
    Í nútímaþjóðfélagi er mikið talað um að fjárfesta. Menn skoða þá vexti og möguleika sem í boði eru, en þegar allt kemur til alls, þá er það eina sem aldrei verður frá manni tekið að fjárfesta í sjálfum sér. Það er sá auður sem er mestur og bestur, gefur einstaklingnum víðsýni, sjálfsöryggi og öll þau tækifæri sem nútíminn býður upp á. Það er sá auður sem best getur skilað íslenskri þjóð fram á veginn í samfélagi þjóðanna og tryggt okkur áfram velferð í framtíðinni.