Lánasjóður íslenskra námsmanna

127. fundur
Mánudaginn 27. apríl 1992, kl. 14:22:09 (5613)


     Frsm. minni hluta menntmn. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Við ræðum hér við 2. umr. frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna sem lagt var fram af hæstv. menntmrh. 17. des. sl. og rætt í þinginu að loknu jólahléi þess og vísað til menntmn. þann 24. febr. eða fyrir rétt röskum tveimur mánuðum. Menntmn. hafði raunar hafið athugun á málinu fyrr vegna beiðni meiri hluta nefndarinnar og málið verið sent til umsagnar til margra aðila í lok janúarmánaðar að mig minnir. Í menntmn. var mikið að þessu máli unnið þann tíma sem nefndin hafði það á sinni dagskrá.
    Ég mæli fyrir áliti minni hluta menntmn. sem er að finna á þskj. 789 en að þessu áliti standa ásamt mér hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, Pétur Bjarnason og Valgerður Sverrisdóttir, þ.e. fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í menntmn.
    Ég vil við upphaf umræðunnar þakka fyrir málstökin í nefndinni. Ég vil þakka formanni nefndarinnar fyrir að hafa komið til móts við óskir um það af hálfu okkar í minni hlutanum að fá athugun á þessu máli sem rækilegasta. Ég vil þakka samnefndarmönnum og ekki síst þeim sem standa að minnihlutaálitinu fyrir starfið að þessu máli, athugun og samræmingu á sjónarmiðum okkar eins og það endurspeglast hér í þessu nál.
    Megintillögu okkar sem myndum minni hlutann er að finna á þskj. 791 sem er till. til rökstuddrar dagskrár svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Með vísan til þess sem kemur fram í nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar og
    þar sem gildandi lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna hafa í aðalatriðum reynst vel,
    þar sem ríkisstjórnin gengur með fyrirliggjandi tillögum gegn markmiðinu um jafnrétti til náms,
    þar sem með grófum hætti er ráðist gegn hagsmunum námsmanna og hafnað samráði við námsmannahreyfinguna,
samþykkir Alþingi að vísa dagskrármálinu frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.``
    Þetta er aðaltillaga okkar í málinu sem mun að lokinni þessari umræðu ganga til atkvæða á hv. Alþingi. Til vara flytjum við síðan á þskj. 790 margar brtt. við frv. fari svo að dagskrártillaga okkar nái ekki fram að ganga og þær brtt. er að finna á þskj. 790 í níu tölusettum liðum og mörgum undirliðum sem eru breytingar við frv. og þær brtt. sem meiri hluti menntmn. hefur lagt fram.
    Ég mun gera grein fyrir áliti okkar í aðalatriðum eins og það liggur fyrir á prentuðu þskj. en þegar hefur verið getið um það af hv. frsm. meiri hlutans hverjir komu á fund nefndarinnar, við hverja var haft samband og leitað eftir upplýsingum og útreikningum en eins og álitin bera vott um varð nefndin ekki sammála um afgreiðslu málsins og skilar áliti í tveimur hlutum.
    Við náðum ekki saman um þetta efni og það raunar kom fram við 1. umr. um þetta mál að bilið var breitt á milli sjónarmiða þannig að vart var við því að búast. Þó gerðist það í meðförum nefndarinnar að meiri hlutinn kynnti þar brtt. og voru þær raunar að koma fram í áföngum alveg fram undir það að nefndin lauk starfi varðandi þetta þingmál og við fengum að sjá þær hugmyndir meiri hlutans. En þar sem þær gengu engan veginn nógu langt til móts við okkar sjónarmið, þá brugðumst við við með þeim hætti sem hér liggur fyrir. Ég vil hins vegar taka fram að þær brtt. sem gerðar hafa verið og fyrir liggja frá meiri hlutanum eru almennt séð til bóta frá því frv. sem hæstv. menntmrh. lagði fram og geta menn vegið það og metið við athugun á þeim og samanburði við sjálft frv.

    Lögin sem sett voru um námslán og námsstyrki árið 1982 hafa í aðalatriðum reynst vel. Þau breyttu aðstæðum námsmanna til hins betra og jöfnuðu aðstöðu til náms frá því sem áður var. Að lagagerðinni var þá unnið í samvinnu við námsmenn og að þróun og breytingum á útlánareglum lengst af síðan. Rétt hefði verið að endurskoða lögin nú með sama hætti og gera á þeim nokkrar breytingar að fenginni tíu ára reynslu, m.a. til að leita lausna á fjárhagsvanda Lánasjóðs ísl. námsmanna, vanda sem allir hafa fjallað um, sem rætt hafa þetta mál, og sjálfsagt er að brugðist sé við. En í stað þess að standa þannig að máli lagði hæstv. menntmrh. fram frv. sem samið var í þröngum hópi og án samráðs við námsmenn. Fyrst á lokastigi var fulltrúum námsmanna var veitt aðild að nefnd sem ganga skyldi frá tillögum um breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Eftir tíu daga starf, aðeins tíu daga starf þessarar nefndar, í nóvember 1991 kom í ljós að ekkert tillit átti að taka til tillagna námsmanna til lausnar á fjárhagsvanda sjóðsins. Fulltrúar ráðherra í nefndinni lögðu fram fullbúið frv. og ekki var látið á það reyna hvort unnt væri að ná málamiðlun innan nefndar ráðuneytisins. Stjórnarandstöðuflokkarnir og fulltrúar þeirra voru í engu kallaðir til við undirbúning málsins þó að í menntmn. kæmu fram óskir um upplýsingar um stöðu undirbúnings sumarið 1991 og óskað hefði verið eftir að haft yrði samráð við námsmannahreyfingarnar við mótun tillagna. Við þessum óskum var ekki orðið og niðurstaðan varð það frv. ríkisstjórnarinnar sem menntmn. fékk til meðferðar 24. febr. sl.
    Minni hluti menntmn. er þeirrar skoðunar að taka hefði átt á tímabundnum vanda Lánasjóðs íslenskra námsmanna með allt öðrum hætti en gert er með þessu frv. og þeim tillögum sem liggja fyrir frá meiri hlutanum. Tillögur fulltrúa námsmanna í stjórnskipuðu nefndinni í nóvember 1991 gáfu möguleika á að ná farsælli lausn í samvinnu við námsmannahreyfingarnar og varðveita um leið helstu kosti gildandi fyrirkomulags í stað þess að kollsteypa því. Minni hlutinn harmar að þessi leið var ekki valin.
    Það er skoðun okkar í minni hlutanum, sem fulltrúar Framsfl., Alþb. og Kvennalista í menntmn. mynda, að varðveita beri í meginatriðum núverandi fyrirkomulag námsmannaaðstoðar þótt sníða megi af því nokkra agnúa, einfalda útlánareglur og nýta fjármagn Lánasjóðs íslenskra námsmanna betur en gert hefur verið. Áfram verður að gera námsmönnum kleift að afla sér menntunar óháð efnahag og félagslegum aðstæðum.
    Liður í lausn á fjárhagsvanda sjóðsins ætti að vera að ríkissjóður yfirtaki hluta af áhvílandi lánum eins og gert hefur verið í mörgum tilvikum vegna félagslegra jöfnunaraðgerða. Tímabundið hefði þurft að auka framlög ríkisins til sjóðsins, lengja áhvílandi lán og ná fram sparnaði með breytingu á útlánareglum hans með hliðsjón af því sem fulltrúar námsmanna hafa gert tillögur um.
    Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur aðeins starfað um tíu ára skeið á núverandi grunni og er því ung stofnun. Það tekur óhjákvæmilega alllangan tíma að byggja sjóðinn þannig upp að eigin fé að hann geti án verulegs ríkisframlags staðið undir þeim kröfum um félagslegan jöfnuð í aðstöðu til náms sem gildandi lög gera ráð fyrir. Endurgreiðslur til sjóðsins skila sér hægt til baka og fjölgun lánþega hefur verið mikil undanfarinn áratug. Ráðstafanir til að treysta fjárhag sjóðsins þurfa að taka mið af þessum aðstæðum um leið og gætt er eðlilegs aðhalds.
    Tillögur meiri hluta menntmn. gera m.a. ráð fyrir allt að 3% vöxtum á lán sjóðsins auk verðtryggingar, lántökugjöldum samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar til að standa undir rekstri sjóðsins og eftirágreiðslum námslána. Endurgreiðslur verða stórlega hertar og eiga að hefjast tveimur árum eftir námslok í stað þriggja ára samkvæmt gildandi lögum. Þá eru þrengdar heimildir til að veita fjárhagsaðstoð öðrum en þeim sem nám stunda á háskólastigi og vald þar að lútandi lagt í hendur sjóðstjórnar. Felld eru niður öll ákvæði um námsstyrki og vísað á Vísindasjóð án þess að nokkuð liggi fyrir um breytingar á gildandi lögum um þann sjóð. Ítrekað var gengið eftir því í menntmn. að fá fram þó ekki væri nema hugmyndir á blaði frá hæstv. ráðherra um það hvernig standa ætti að breytingum á lögum um Vísindasjóð til þess að hann tæki við þessu hlutverki. Engin viðbrögð komu við þessu af hálfu fulltrúa meiri hlutans sem vafalaust hafa rætt málið við hæstv. ráðherra.
    Ég mun fjalla um helstu þætti í tillögum ríkisstjórnarflokkanna eins og þær blasa við í frv. að mati fulltrúa minni hlutans og einnig um brtt. meiri hluta nefndarinnar.
    Meiri hlutinn leggur til að ársvextir af lánum sjóðsins verði allt að 3% af höfuðstóli skuldar, eins og ég gat um áðan, ákveðnir af ríkisstjórn að fenginni tillögu menntmrh. Hér er á ferðinni grundvallarbreyting á kjörum viðskiptavina sjóðsins. Samkvæmt gildandi lögum hafa lán úr sjóðnum verið verðtryggð en vaxtalaus. Rökin fyrir því eru augljós. Miðað er við að námsmenn greiði jafnvirði þeirrar upphæðar til baka sem þeir fengu að láni en ekki leigugjald í formi vaxta. Með vaxtatökunni er lánveitandinn að gera kröfu um arð af því fjármagni sem hann lætur af hendi til lántaka líkt og um sé að ræða fjárfestingu í atvinnurekstri. Námslán eru hins vegar allt annars eðlis, ætluð til framfærslu námsmanna og um þau eiga að gilda aðrar forsendur en um lán til fjárfestinga.
    Arðurinn af námsaðstoð kemur fram í þeirri menntun og aukinni færni sem námsmenn afla sér og þjóðfélagið nýtur góðs af í störfum þeirra.
    Stjórnarmeirihlutinn sem myndar meiri hluta í nefndinni hefur þó verið hrakinn á undanhald og gerir hann þá brtt. við frv. að í stað þess að binda vaxtatökuna við 3% er nú gert ráð fyrir breytilegum vöxtum, ,,aldrei hærri en 3%`` eins og það er orðað í brtt. meiri hlutans. Ríkisstjórnin hefur nýlega ákveðið að tillögu menntmrh. að miðað skuli við 1% vexti á námslán fyrst um sinn.

    Minni hluti nefndarinnar er andvígur þeirri grundvallarbreytingu, sem felst í tillögum ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar, að taka vexti af námslánum. Þessi tilhögun er ekki aðeins ranglát, heldur mun afrakstur hennar ekki skila sér nema að hluta í bættum hag sjóðsins því að á móti koma aukin afföll af lánum þeirra mörgu sem ná ekki að greiða lánin upp áður en þeir falla frá.
    Stytting greiðslufrests og hertar endurgreiðslur eru einn þáttur sem við gagnrýnum mjög eindregið sem stöndum að þessu minnihlutaáliti. Í gildandi lögum um lánasjóðinn er kveðið á um að endurgreiðsla lána hefjist þremur árum eftir námslok, en samkvæmt tillögum meiri hluta nefndarinnar er gert ráð fyrir að stytta þann tíma í tvö ár. Með því er þrengt að lántakendum og kemur það sér ekki síst illa fyrir þá sem þurfa um svipað leyti að taka á sig fjárskuldbindingar vegna húsnæðis.
    Hliðstæð áhrif hafa stórhertar reglur um endurgreiðslur lána, ekki síst mikil hækkun fastrar ársgreiðslu sem leggst jafnt á alla óháð tekjum og bundin er lánskjaravísitölu. Fulltrúar námsmanna töldu sig, samkvæmt séráliti með frv. sem fylgir frv. ráðherra, geta fallist á 34 þús. kr. fasta ársgreiðslu, en tillögur meiri hlutans miða við 48 þús. kr. Afleiðingar af þessum auknu álögum geta orðið afdrifaríkar fyrir fjölmarga eins og m.a. kemur fram í þeim útreikningum sem menntmn. aflaði sér með aðstoð reiknimeistara frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.
    Minni hlutinn leggur til að um endurgreiðslur verði gerð breyting á gildandi lögum með sama hætti og samstarfsnefnd námsmannahreyfingarinnar lagði til í séráliti. Talið er að sú breyting geti bætt stöðu sjóðsins um 400--500 millj. kr. á ári og að mestu komið í veg fyrir þau 10--15% afföll sem reikna má með af lánum samkvæmt reynslu að óbreyttum reglum.
    Ég vek athygli á þessu sem jafnframt endurspeglar vilja námsmannahreyfinganna til þess að bregðast með raunsæjum hætti við þeim erfiðleikum sem lánasjóðurinn hefur átt í og taka á sig og þá viðskiptaaðila sjóðsins í framtíðinni auknar greiðslur af þessum sökum sem metnar hafa verið á allt að hálfan milljarð kr.
    Talsmaður meiri hlutans ræddi um þátt húsnæðismálanna og áhrif þeirra á stöðu námsmanna að námi loknu og aðgengi að námslánum í því samhengi og endurgreiðslur námslána. Stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins var einn þeirra aðila sem fengu mál þetta til umsagnar af hálfu menntmn. og lagði hún mat á áhrif fyrirhugaðra breytinga samkvæmt frv. á íbúðarkaup námsmanna að námi loknu. Ályktanir sem stjórn Húsnæðisstofnunar stóð samhljóða að um þetta efni og sendar voru menntmn. eru það athyglisverðar að við tökum þær orðrétt upp í nefndaráliti okkar og ég leyfði mér, virðulegur forseti, að vitna til þess helsta úr þessu samhljóða mati stjórnar Húsnæðisstofnunar. Það er eftirfarandi:
    ,,Möguleikar námsmanna til íbúðarkaupa á hinum almenna markaði að námi loknu minnka. Helstu áhrifin stafa af styttra afborgunarlausu tímabili eftir námslok og af hækkun á árlegu endurgreiðsluhlutfalli. Að jafnaði yrðu möguleikar námsmanna til íbúðarkaupa um 10--30% minni en þeir eru í dag.
    Umsóknum um félagslegar íbúðir mun líklega fjölga. Tekjumörk í félagslega íbúðakerfinu eru um 160--170 þús. kr. á mán. fyrir 4ra manna fjölskyldu. Þó nokkur hluti námsmanna verður líklega innan þeirra tekjumarka að námi loknu.
    Ásókn í almenna kaupleigukerfið mun líklega aukast. Biðlistar hjá húsnæðissamvinnufélögum, sbr. Búseta hf., munu líklega lengjast. Þetta stafar af því að fleiri munu væntanlega lenda yfir tekjumörkum í félagslega íbúðakerfinu án þess að geta lagt nauðsynlegt eigið fé til hliðar til kaupa á íbúðum á hinum almenna markaði.``
    Þetta var tilvitnunin og eins og þessi umsögn stjórnar Húsnæðismálastofnunar ber með sér getur orðið um víðtækar og alvarlegar afleiðingar að ræða fyrir námsmenn vegna öflunar húsnæðis og auk þess um verulega röskun í húsnæðiskerfinu að ræða.
    Það er að sjálfsögðu mjög háð tekjum manna að námi loknu og fjölskyldustærð, hvernig endurgreiðslu lána miðar til sjóðsins. Í útreikningum, sem gerðir voru á vegum menntmn. og miða við meðaltekjur samkvæmt könnun sem gerð var á árinu 1989 á meðaltekjum, kemur í ljós afar ójöfn staða þeirra sem skipta við sjóðinn eftir tekjustigi. Þetta birtist m.a. í fskj. sem fylgir áliti okkar í minni hlutanum og er birt þar til glöggvunar.
    Fyrir einstætt foreldri með eitt barn á framfæri, sem tekið hefur lán upp á 2,2 millj. kr. á 3% vöxtum lítur dæmið þannig út að viðskiptafræðingur með meðaltekjur greiðir lánið upp við 42 ára aldur, hjúkrunarfræðingur á hins vegar ógreidda um 1,9 millj. kr. við starfslok, þ.e. 67 ára, og framhaldsskólakennari skuldar enn um 450 þús. kr. við sömu aldursmörk, þ.e. við starfslok eins og þau almennt gerast. Langtum verr stendur dæmið fyrir einstætt foreldri með tvö börn á framfæri. Þetta eru meðaltekjur eins og þær voru metnar fyrir þremur árum, en eins og menn þekkja hafa aðstæður verið að breytast á vinnumarkaði einnig hjá opinberum starfsmönnum og þrengir að þeim um tekjuöflunarmöguleika á ýmsan hátt. Við óskuðum eftir því að fá útreiknað hvernig þessi dæmi kæmu út ef miðað væri við taxtalaun. Að sjálfsögðu lítur dæmið þá enn verr út fyrir tekjulága hópa en ef gengið er út frá meðaltekjum eins og þær voru 1989. Þetta birtist að nokkru í fskj. þar sem tekið var smávegis sýnishorn af þessum útreikningum.
    Ef tekið er dæmi af þeim fjölskylduaðstæðum sem ég nefndi áðan, þ.e. einstæðu foreldri með eitt barn og lán sem ber 3% vexti, kemur í ljós að viðskiptafræðingur skuldar um 4 millj. kr. við 67 ára aldur og framhaldsskólakennari 4,3 millj kr. miðað við þá hóflegu lántöku sem þarna liggur til grundvallar.
    Sé hins vegar um að ræða einstætt foreldri með tvö börn, svo tekið sé dæmi af lakasta endanum

hvað snertir tekjur fólks og aðstæður, þá skuldar viðskiptafræðingur á taxtalaunum hvorki meira né minna en 7 millj kr. við starfslok og framhaldsskólakennari 7,3 millj. kr. og hefur höfuðstóllinn af lánum þessara aðila þá meira en tvöfaldast, þ.e. hækkað úr meira en 3,5 millj. í yfir 7 millj. kr. Þessir útreikningar sýna í rauninni út á hvaða grundvöll er verið að ganga.
    Auðvitað geta menn deilt um það hvernig tekjur manna þróist í framtíðinni og hvað sé eðlilegt að miða við. En í rauninni er það ekki sæmilegt að mínu mati að verið sé að leggja lagagrunn að námslánakerfi sem gengur út frá því að menn þurfi að vinna langt umfram dagvinnu sér til framfæris, eins og er þó lagt til grundvallar í frv. hæstv. ráðherra. Þar eru einnig birtir útreikningar sem voru með þeim annmörkum gerðir að láðst hafði að framreikna tölurnar frá 1989 og var það reyndar eftir öðru í frv. frá hæstv. ráðherra. En þetta var afar sérkennilegt að því er snertir þau dæmi og þá töfluútreikninga sem fylgdu frv.
    Samkvæmt frv. er lánstími námsláns ótilgreindur og engin ákvæði um að létta skuli greiðslur við starfslok eða fella þær niður, fyrr en lánþegi andast. Þeim lántakendum sem deyja frá ógreiddum skuldum við sjóðinn mun fyrirsjáanlega fjölga frá því sem nú er og afföll þar með aukast, en þau eru nú talin nema 10--15%. Það er því engan veginn víst að háir vextir og hertar endurgreiðslureglur skili því sem ætlað er til hagsbóta fyrir sjóðinn. Útreikningar voru að berast mér í hendur um það leyti sem ég gekk í ræðustólinn og ég hef ekki athugað hvernig það mat fellur út að því er snertir afföll sem Hagfræðistofnun Háskólans tók að sér að gera athugun á fyrir menntmn.
    Ein lúalegasta breytingin, virðulegur forseti, sem innleiða á með frv. er ákvæði sem þannig er orðað: ,,Námslán skal aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur.`` Þetta ákvæði er að finna í 6. gr. Í gildandi lögum á þetta aðeins við um fyrstu námsaðstoð. Afleiðing þessarar breytingar getur leitt af sér allt að 10% flata skerðingu á námslánum þar eð námsmenn þyrftu að brúa allt námstímabilið með fyrirgreiðslum frá almennum lánastofnunum. Fyrir fyrsta árs nema hefur kostnaður við slíka fjármögnun numið um 10% af lánsupphæð þegar allt er talið. Þetta samsvarar því að námsmenn séu að greiða bankavexti af lánum allan námstímann. Með þessu er að engu gerð sú fullyrðing aðstandenda frv., ég man ekki betur en hæstv. ráðherra hafi komið að við 1. umr. málsins, að námslán séu vaxtalaus á námstímanum.
    Þessi breyting samsvarar því að allt fjármagn til námsaðstoðar fari fyrst í gegnum bankakerfið og síðan í gegnum lánasjóðinn. Fyrir hag sjóðsins hefur þetta litla þýðingu, en þeim mun alvarlegri afleiðingar fyrir námsmenn. Því er með öllu óskiljanlegt að meiri hlutinn skuli ætla að knýja þessa skipan mála fram þrátt fyrir eindregnar aðvaranir og mótmæli sem m.a. birtust í fjölmörgum umsögnum sem bárust menntmn. um frv.
    En hér er ekki allt talið, virðulegur forseti. Frv. gerir ráð fyrir því að lagt verði á lántökugjald sem meiri hlutinn reiknar með að geti numið 1,2%, ef marka má þær forsendur fyrir útreikningum sem finna má í töflum sem fylgdu útreikningum til menntmn. Þessu lántökugjaldi er ætlað að standa undir rekstrarkostnaði við sjóðinn. Gjald þetta jafngildir í raun vaxtatöku og verður að teljast afar óeðlilegt til viðbótar við aðrar skerðingar sem gerðar yrðu á námslánakerfinu verði frv. lögfest.
    Í gildandi lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna er heimild til að veita aðstöðujöfnunarstyrki til námsmanna sem þurfa að kosta sig fjarri eigin heimili. Styrkir þessir hafa aðallega verið greiddir út í formi ferðastyrkja sem verulega hefur munað um, ekki síst fyrir Íslendinga við nám erlendis.
    Í grg. með frv. er tekið fram að ráðgert sé að Vísindasjóður verði efldur til að veita styrki til námsmanna í langskólanámi og til greiðslu skólagjalda. En eins og ég gat um fyrr, fengust hvorki upplýsingar frá menntmrh. við 1. umr. um frv. varðandi þetta né frá meirihlutafulltrúum í menntmn. um það hvernig fyrirhugað sé að breyta lögum um Vísindasjóð til að staðið verði við þessi fyrirheit. Ástæða er til að nefna hér atriði úr umsögn Vísindasjóðs til menntmn. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Vísindaráð úthlutar styrkjum úr Vísindasjóði að undangengnu faglegu mati á vísindalegu gildi verkefna og hæfni umsækjenda til að stunda rannsóknir. Eðli starfsemi Vísindaráðs og LÍN er því ólíkt. Starfsmenn Vísindaráðs eru aðeins tveir. Við núverandi aðstæður er ráðið því engan veginn í stakk búið til að taka að sér þá vinnu sem felst í veitingu styrkja til stúdenta og eftirliti með framvindu námsárangurs.``
    Eins og heyra má úr umsögn Vísindasjóðs telja þeir að verulegar breytingar þurfi að verða á aðstæðum sjóðsins til þess að hann geti farið að taka á sig nýja þætti eins og styrkveitingar, sem hæstv. menntmrh. var þó að láta að liggja að hann vildi láta sjóðinn sjá um. Kannski fæst eitthvað við 2. umr. málsins um það hvert hæstv. menntmrh. hyggst stefna í þessu efni. Auðvitað er það ekki sæmilegt að bera fram mál sem þetta án þess að jafnhliða sé flutt það frv. sem ráðherra segist hafa áhuga á að leggja fram á þinginu þannig að það geti fjallað um það jafnhliða þeim breytingum sem hér eru lagðar til á málefnum lánasjóðsins.
    Samkvæmt frv. og brtt. meiri hlutans er fært aukið vald til stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna til að setja reglur um málefni sjóðsins og úthlutun námslána. Þetta kemur m.a. fram í 2., 3., 6., 13. og 16. gr. frv., bæði að því er snertir hið upphaflega frv. og brtt. meiri hlutans. Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að fara beri gætilega í þessu efni og að nauðsynlegt sé að kveða í lögum á um skyldur sjóðsins um grundvallaratriði er lúta að jöfnun og námsaðstoð með tilliti til félagslegra aðstæðna. Brtt., sem fluttar eru af minni hlutanum við frv., taka mið af þessu, m.a. varðandi 1., 3. og 6. gr. þess.
    Þá telur minni hlutinn ekki rétt að veita stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna heimild til að

ákvarða lántökugjöld eins og kveðið er á um í frv.
    Að mati minni hlutans fer það að öðru leyti eftir skipan stjórnarinnar hvað skynsamlegt geti verið að fela henni mikið svigrúm til ákvarðana um málefni sjóðsins og fjárhagsaðstoð við námsmenn. Ef í stjórninni eiga sæti fulltrúar helstu hagsmunasamtaka námsmanna er unnt að ætla stjórninni meira sjálfræði til að setja reglur um málefni sjóðsins. Með þetta í huga telur minni hlutinn rétt að Iðnnemasamband Íslands tilnefni einn stjórnarmann í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna til viðbótar þeim sem fyrir eru, en á móti komi fulltrúi til viðbótar, tilnefndur af menntmrh. sem velji hann úr hópi þeirra sem sæti eiga í samstarfsnefnd háskólastigsins. Með þessari skipan mála fást um leið betri tengsl en ella við háskóla hérlendis, þ.e. að einn fulltrúi sem sæti á í samstarfsnefnd háskólastigins verði tilnefndur af menntmrh.
    Tillögu um þetta efni er að finna á þskj. 790 í brtt. frá minni hluta menntmn. þar sem sett er fram orðalag 4. gr. 1. mgr. þannig breytt. Þar kemur fram hvernig við sjáum fyrir okkur að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði skipuð og með þeirri tilhögun sem við leggjum til er ekki verið að raska því vægi sem eðlilegt er að haldið sé milli stjórnskipaðra fulltrúa af hálfu ráðherra sem valdir eru af ráðherrum menntamála og fjármála og hins vegar fulltrúa frá námsmannahreyfingunum. Okkar viðbót er aukatillaga að því leyti að Iðnnemasamband Íslands sem á mjög marga viðskiptaaðila við Lánasjóð íslenskra námsmanna, hartnær 1.400 talsins samkvæmt upplýsingum sem okkur voru veittar, á ekki málsvara með beinum hætti af hálfu annarra fulltrúa sem lögum samkvæmt eiga sæti í stjórn sjóðsins.
    Frv. felur í sér mörg önnur atriði sem varða þó ekki jafnmiklu um námsaðstoð og fjárhag lánasjóðsins en geta samt skipt verulegu máli. Varðandi sum þessara atriða hefur verið komið til móts við gagnrýni okkar sem skipum minni hlutann með brtt. sem meiri hlutinn hefur flutt við frv., m.a. að því er snertir ábyrgðarmenn. Þar er ekki lengur kveðið á um að þeir skuli vera tveir eins og gert var ráð fyrir í upphaflegu frv. heldur er þeim möguleika haldið að nægjanlegt sé að hafa einn ábyrgðarmann eins og hefur verið til þessa. Þarna er stigið til baka til móts við þá gagnrýni sem komið hefur á þetta atriði.
    Með frv. eru felld niður ákvæði í 3. gr. þess efnis að námsmenn skuli eiga kost á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda, það er í 3. gr. gildandi laga, og að lánasjóðurinn skuli standa sjóðnum skil á iðgjaldshluta lánþega ásamt mótframlagi sínu.
    Það að fella niður 3. gr. án þess að halda til haga þessum atriðum teljum við óskynsamlega breytingu og að halda beri núverandi fyrirkomulagi. Í því sambandi vísum við til umsagnar miðstjórnar Alþýðusambands Íslands sem barst menntmn. um þetta efni þar sem m.a. er bent á það öryggi sem aðild að lífeyrissjóðunum veitir umfram það sem tryggt er í gildandi tryggingalöggjöf. Aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda snertir einnig almenn lífeyrisréttindi námsmanna.
    Með frv. er stjórn lánasjóðsins veitt heimild til að veita venjuleg skuldabréfalán með markaðsvöxtum, þau ákvæði er í 12. gr. Það hafa ekki komið fram neinar viðhlítandi skýringar á því hvers vegna gera eigi ráð fyrir slíkum viðskiptum á vegum sjóðsins eða hvernig ráðgert er að nota þessa heimild og væri fróðlegt að af hálfu meiri hlutans eða hæstv. ráðherra kæmu fram nánari skýringar á því hvers vegna nauðsynlegt er talið að hafa lagaheimild af þessu tagi.
    Þá er þess að geta að fjárhagsgrundvöllur hagsmunasamtaka námsmanna er veiktur með breytingu skv. 16. gr. frv., þar sem félagsgjöld til hagsmunasamtaka námsmanna eru ekki dregin frá námsláni nema um það komi fram sérstök ósk í lánsumsókn.
    Við teljum óeðlilegt að gera hagsmunasamtökum námsmanna erfiðara fyrir með breytingu af þeim toga sem gert er ráð fyrir af meiri hluti nefndarinnar og að halda beri skipan sem hefur verið ásteytingslaus af hálfu námsmanna, það við best vitum og sýnist ekki vera óeðlileg. Sérstaklega á þetta við varðandi námsmenn og viðskiptaaðila sjóðsins sem dveljast erlendis sem hafa í raun ekki beint samband við lánasjóðinn nema í gegnum umboðsmenn sína í langflestum tilvikum.
    Eins og ég gat um, virðulegur forseti, flytjum við í minni hluta menntmn. brtt. til vara við okkar dagskrártillögu á þskj. 790. Þessar brtt. varða mörg grundvallaratriði sem ágreiningur er um í þessu máli auk nokkurra fleiri atriða sem við töldum rétt að fylgdu með þannig að um heildstæð málstök væri að ræða af okkar hálfu og menn sæju hvernig minni hlutinn vildi sjá fyrir sér lagasetningu um lánasjóðinn, ef ekki verður fallist á tillögu okkar að taka betri tíma til þess að vinna þetta mál sómasamlega og þá að höfðu samráði viðskiptaaðila, hreyfingar námsmanna.
    Meginatriði í breytingartillögum okkar fela í sér eftirfarandi atriði:
    1. Að ekki verði lagðir vextir á námslán.
    2. Að árlegar endurgreiðslur af skuldabréfum verði hertar til að bæta greiðslustöðu lánasjóðsins.
    3. Að lögboðin greiðsla námsaðstoðar verði með sama hætti og verið hefur.
    4. Að endurgreiðslur hefjist þremur árum eftir námslok.
    5. Að heimild til að innheimta lántökugjöld verði ekki lögfest.
    6. Að fjölgað verði í stjórn lánasjóðsins þannig að Iðnnemasamband Íslands eigi þar fulltrúa og menntamálaráðherra skipi til viðbótar fulltrúa án tilnefningar úr samstarfsnefnd háskólastigsins.
    Þetta eru þau meginatriði sem brtt. okkar fjalla um og ég vísa til þskj. 790 um þessi efni. Ég vil þó vekja sérstaka athygli, virðulegur forseti, á brtt. við 1. gr. frv. sem við gerum ráð fyrir að sé orðuð þannig:     ,,Markmið laganna er að stuðla að jafnrétti til náms. Meginhlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna er að veita námsmönnum fjárhagsaðstoð til náms við menntastofnanir er gera sambærilegar kröfur

til undirbúningsmenntunar og gerðar eru við háskóla og sérskóla hérlendis. Þó skal veita fjárhagsaðstoð til sérnáms í framhaldsskólum samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð.``
    Þetta orðalag 1. gr. tekur í rauninni af öll tvímæli um hverjir það eru sem við teljum eiga aðgang að námslánum. Þó að gert sér ráð fyrir reglugerðarheimild að því er snertir fjárhagsaðstoð til sérnáms í framhaldsskólum, þá er þarna tekið inn með skýrari og öðrum hætti en gert er í brtt. meiri hluta nefndarinnar að markmið laganna sé að stuðla að jafnrétti til náms. Það er meginatriðið að sú stefna sé varðveitt, ekki bara í orði heldur og á borði.
    Brtt. okkar gera, auk þessa sem ég gat um áðan, ráð fyrir að tekin verði af öll tvímæli um að veita skuli fjárhagsaðstoð til sérnáms í framhaldsskólum með svipuðum hætti og verið hefur. Þar er ekki verið að gera ráð fyrir rýmkuðum heimildum eða farið sé að veita námslán til almenns framhaldsskólanáms. Í þá átt beinast okkar tillögur ekki.
    Í brtt. okkar er einnig gert ráð fyrir að tillit verði áfram tekið til framfærslukostnaðar þar sem nám er stundað, tekna námsmanns og maka hans, lengdar árlegs námstíma og annarra atriða sem áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns. En með því að fella niður ákvæði úr 3. gr. gildandi laga um þessi efni, er stöðu viðskiptavina sjóðsins teflt í tvísýnu varðandi þessi efni og það lagt í mat og verkahring sjóðstjórnarinnar að skera þar úr um ýmis efni. Þó að atriði í frv. hafi verið lagfærð nokkuð með þeim tillögum sem hafa komið fram af hálfu meiri hluta nefndarinnar, t.d. atriði eins og að tekið skuli tillit til búsetu, er þar engan veginn kveðið nógu skýrt á um.
    Þá flytjum við brtt. um að námsmenn eigi áfram kost á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda, vegna almennrar stöðu og trygginga sem tryggingakerfið gefur kost á og þeirra tengsla sem enn eru við lýði varðandi húsnæðismál og lífeyrisréttindi þannig að við teljum eðlilegt að námsmenn eigi áfram kost á þessari aðild. Einnig gerum við ráð fyrir því að ekki verði breyting á innheimtu félagsgjalda eins og ég hef þegar gert grein fyrir.
    Við í minni hluta nefndarinnar erum þeirrar skoðunar að með þeim brtt. sem við flytjum við þetta frv. sé brugðist við þeim fjárhagsvanda sem Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur staðið fyrir jafnhliða því sem sameiginlegur sjóður landsmanna greiðir til þessa sjóðs á næstu árum til þess að unnt sé að standa við þau markmið um jafnrétti til náms sem gera verður sem ófrávíkjanlega kröfu og sem er grundvallaratriði í þessu máli.
    Ekki er hægt að fara yfir þessi efni út frá því sjónarmiði að hér sé um að ræða fjárhagsdæmi sem verði að vera undir því komið að ekki þurfi að koma til frekari fjárveitingar úr sameiginlegum sjóði eins og gert er til ýmissa annarra þátta í okkar menntakerfi. Við stöndum þar straum af mörgum þáttum og ekki er ágreiningsefni þó að viðleitni sé til að þrengja þar að á mörgum sviðum og hví skyldi annað gilda þegar varðar möguleikann til þess að stunda nám óháð efnahag. Það hefur líka komið fram og liggur m.a. fyrir í greinargerð sem gerð var í fyrra, í apríl 1991, af hálfu Ríkisendurskoðunar að þrátt fyrir það að reikna megi með að horfurnar varðandi stöðu sjóðsins séu ekki allt of góðar að óbreyttu er langt frá því að sjóðurinn sé á horriminni. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna til þess sem er að finna í fskj. I sem eru niðurstöður úr greinargerð Ríkisendurskoðunar um fjárhagsstöðu lánasjóðsins. Þar segir m.a. undir millifyrirsögn frá Ríkisendurskoðun:
    ,,Lánasjóðurinn getur staðið undir öllum núverandi skuldbindingum með eigin fé sínu.
    Ef sjóðnum hefði verið lokað í árslok 1990`` segir þar orðrétt ,,gæti hann staðið við allar sínar skuldbindingar án þess að þurfa á frekari ríkisframlögum að halda. Þar að auki gæti sjóðurinn endurgreitt ríkissjóði á nafnvirði rúma 9 milljarða af eigin fé sínu sem var rúmlega 13 milljarðar kr. um síðustu áramót [þ.e. áramótin 1990--1991]. Ef þessir 9 milljarðar eru færðir til núvirðis miðað við 6% ávöxtunarkröfu verður útkoman 3 milljarðar kr.``
    Þetta er orðrétt tilvitnun í greinargerð Ríkisendurskoðunar frá því í fyrra sem birt er sem fskj. með nál. okkar.
    Ég vek athygli á því að fyrir utan upplýsingar um greiðslustöðu viðskiptaaðila sjóðsins miðað við mismunandi forsendur varðandi vexti og tekjur er í fskj. IV að finna útreikninga á athugun Hagfræðistofnunar Háskólans á vöxtum og þróun eigin fjár sjóðsins miðað við mismunandi forsendur um vexti, bæði gildandi kerfi og miðað við þau ríkisframlög sem þar er gert ráð fyrir samkvæmt töflum sem birtar eru í fskj. á bls. 12. Þar sjá menn hvaða ríkisframlög það eru sem gert er ráð fyrir í þessum útreikningum varðandi eiginfjárstöðuna en þar kemur fram, miðað við þær forsendur sem nauðsynlegt er að hafa í huga, að eiginfjárstaðan í lok þess tímabils, árið 2036, er nokkru betri miðað við gildandi kerfi og þau framlög af hálfu ríkisins sem þar er gert ráð fyrir og miðað við breytt kerfi samkvæmt tillögum meiri hlutans og mismunandi vexti sem liggja fyrir. Þetta er að finna í töflu á bls. 22 í nál. okkar.
    Virðulegur forseti. Ég hef í aðalatriðum gert grein fyrir tillögum minni hluta menntmn. varðandi Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég vil að lokum ítreka að það mál sem við erum að fjalla um hefur gífurlega mikla þýðingu fyrir fjölda fólks í framtíðinni, aðstandendur námsmanna, námsmenn sjálfa en einnig fyrir íslenskt þjóðfélag og þróun þess. Það væri að mínu mati hrikaleg skammsýni að fara að lögfesta þær tillögur sem hér liggja fyrir af hálfu meiri hlutans. Það væri viðbótarskref við marga tilburði sem uppi eru af hálfu núv. ríkisstjórnar til að þrengja að menntakerfinu í landinu. Og það er áreiðanlega ekki það sem við þurfum á að halda á Íslandi á næstu árum og áratugum að þannig sé staðið að málum á tímum þar sem

það þó er almennt viðurkennt að fátt er vænlegra fyrir þjóðir til ávinnings, og þá á ég ekki eingöngu við um fjárhagslegan ávinning heldur einnig lífsgæði í víðum skilningi, en að búa sem best að menntun og tryggja að þegnarnir hafi þar jafna aðstöðu.