Lánasjóður íslenskra námsmanna

127. fundur
Mánudaginn 27. apríl 1992, kl. 15:52:43 (5621)



     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er alveg rétt metið hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að ég talaði ekki sama tungumál að því er þetta varðar og minni hlutinn. Mér verður á að spyrja hvort ég megi taka það svo að minni hlutinn í hv. menntmn. tali alveg sama tungumál að því er þessi atriði varðar og allir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna. Ég nefni þar aðeins hvort leggja eigi vexti á námslán eða ekki. Ég man ekki betur en formaður flokks hv. þm., Steingrímur Hermannsson, hafi lýst því í ræðu við 1. umr. málsins að það mætti vel tala um að leggja á vexti en bara ekki 3%. Ég hef ekki ræðuna hans við höndina en við getum kannski í sameiningu flett upp á þessu. Nú eru þeir ekki 3%. Það liggur fyrir ákvörðun um að þeir verði 1%.
    Varðandi eftirágreiðslu lánanna höfum við heyrt það stundum áður í umræðunni að þetta þýði jafnvel að námsmenn borgi 10% á ári í vexti vegna þess að þeir þurfa að taka lán í bankakerfinu. Þetta er bara rangt, þetta er beinlínis rangt. Það liggja fyrir upplýsingar um það að hve miklu leyti fyrsta árs nemar hafa leitað til bankakerfisins með námslán meðan þeir bíða eftir láni frá lánasjóðnum. Ég held að ég muni það rétt, ég upplýsti það við 1. umr. málsins, að um það bil fjórðungur af fyrsta árs nemum sem hefur notfært sér þessa þjónustu bankakerfisins og aðeins lítill hluti þessa fjórðungs hefur tekið að láni samsvarandi upphæð og hann á í vændum þegar lánasjóðurinn greiðir út lánið. Það er engin ástæða til þess að ætla að allir námsmenn muni sækja í bankakerfið um fullt lán þar til þeir fá lán úr lánasjóðnum. Það hefur engum stoðum verið rennt undir þá skoðun svo það er miklu nær að tala um að þetta gætu verið 2--3% sem þarna er um að ræða að færu í vexti frá námsmönnum.