Beiðni um skýrslu um rekstrarvanda sjávarútvegsfyrirtækja

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 13:35:00 (5625)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þann 18. mars sl. lögðum við þingmenn Alþb. fram beiðni um skýrslu frá sjútvrh. um afstöðu ríkisstjórnarinnar til lausnar á rekstrarvanda sjávarútvegsfyrirtækja og um störf nefndar sem falið var að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða og gera tillögur um aðgerðir vegna yfirvofandi rekstrarstöðvunar fjölda fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu. Við óskuðum eftir því að skýrslan yrði lögð fram skriflega eða jafnvel munnlega, ef það væri auðveldara fyrir ráðherrann, innan tveggja vikna og hún yrði tekin til umræðu strax að loknum flutningi. Í marsmánuði greindi annar tveggja formanna sérstakrar nefndar, sem ríkisstjórnin hefur sett upp til að fjalla um vanda sjávarútvegsins og stefnumörkun í sjávarútvegi, frá þeirri skoðun sinni að fara ætti svokallaða gjaldþrotaleið til að greiða fyrir lausn á vandamálum í sjávarútvegi.
    Sl. sunnudag birti Morgunblaðið ítarlegt viðtal við hinn formann nefndarinnar, Magnús Gunnarsson, þar sem hann lýsir algerlega gagnstæðum skoðunum á því hvernig eigi að bregðast við þeim vanda sem blasir við í sjávarútvegi á Íslandi. Það liggur því fyrir að þessir tveir formenn sjávarútvegsnefndar ríkisstjórnarinnar hafa á opinberum vettvangi, annar í marsmánuði og hinn sl. sunnudag, lýst skoðunum sem ganga þvert hvor á aðra þannig að það er varla hægt að hugsa sér meiri ágreining í afstöðu til lausnar á málefnum sjávarútvegsins en fram kemur í viðtölum við þessa tvo formenn. Við töldum þess vegna í byrjun mars, þegar aðeins lágu fyrir viðtöl við annan formanninn, Þröst Ólafsson, að nauðsynlegt væri að hæstv. sjútvrh. gerði þinginu grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og þess vegna lögðu þingmenn Alþb., fram beiðni um skýrslu. Nú er hins vegar farið að líða að lokum þingsins og samkvæmt starfsáætlun þingsins stefnt að þinglokum um miðjan næsta mánuð eða eftir rúmar tvær vikur. Við, þingmenn Alþb. höfum því miður þá reynslu að skýrslur sem við báðum um í októberbyrjun, önnur frá iðnrh. og hin frá heilbrrh., voru að koma til þingsins fyrir nokkrum dögum eða tveimur vikum síðan. Það verður ekki unað við slík vinnubrögð í þessu máli. Það er þess vegna mjög brýnt að hæstv. sjútvrh. flytji Alþingi skýrslu um afstöðu ríkisstjórnarinnar til lausnar á rekstrarvanda sjávarútvegsfyrirtækja og störf þeirrar nefndar sem ég hef vikið að. Ég hef kvatt mér hljóðs um þingsköp til að biðja hæstv. forseta að ítreka við sjútvrh. þessa formlegu beiðni sem liggur fyrir á þskj. 575, undirrituð af níu þingmönnum eins og tilskilið er í þingsköpum, og knýja á um það að sjútvrh. verði við þeirri þingskyldu sinni að flytja þinginu slíka skýrslu. Það verður ekki unað við það að þinginu ljúki í næsta mánuði á þann veg að hæstv. sjútvrh. hafi komið sér hjá því að hlýða þessari þingskyldu sinni. Við höfum hins vegar verið reiðubúnir til að opna á það að skýrslan væri munnleg og síðan yrði umræða í kjölfar hennar ef það væri auðveldara fyrir hæstv. ráðherra. Sú afstaða okkar er ítrekuð hér og nú. Ég vil biðja virðulegan forseta að koma þessari ítrekuðu ósk á framfæri við hæstv. sjútvrh. og nauðsynlegt er að bæði hann og stjórnendur þingsins geri sér grein fyrir því að það er afdráttarlaus krafa okkar að skýrslan verði lögð fram í þinginu í tæka tíð áður en þinginu lýkur í næsta mánuði.