Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 14:13:00 (5629)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það kann að vera álitamál hverja nauðsyn beri til að efna til utandagskrárumræðu um mál sem verið hefur mörgum sinnum á dagskrá á hverju þingi síðastliðin þrjú ár og verður á dagskrá eftir fáeina daga, sérstaklega með hliðsjón af því að fyrirspurnum hv. málshefjanda er öllum þannig hagað að upplýsingar um svörin liggja öll fyrir. Þau hafa ýmist verið til beinnar umræðu og umfjöllunar í utanrmn. eða liggja þar í formi upplýsinga sem hv. utanríkismálanefndarmönnum eru aðgengilegar. Það er hins vegar málefni forustu þingsins að gera það upp við sig hvort þetta eru eðlileg vinnubrögð um utandagskrárumræðu.
    Þá skal ég víkja að spurningum hv. málshefjanda.
    Ég stenst að vísu ekki þá freistingu að láta þess getið að spurningalisti hans bar þess lítt merki að

hv. þm. var hæstv. forsrh. fyrir nokkrum mánuðum. Við höfðu ákaflega gott samstarf um þetta mál og það segi ég honum til hróss. Hann hafði mikið frumkvæði í þessum málum, kynnti sér þau mjög vel og hlýtur þess vegna eðli málsins samkvæmt að hafa vitað miklu betur en hann vildi vera láta í sumum spurningum sínum. En látum það nú vera.
    Fyrstu spurningarnar varða þá fyrirvara sem settir voru í tíð fyrrv. ríkisstjórnar af Íslands hálfu í þessu samningaferli. Þeir fyrirvarar voru aðallega eftirfarandi:
    1. Forræði yfir auðlindum, fiskimiðunum og orkulindunum.
    2. Fyrirvari gegn rétti útlendinga til fjárfestinga, til þess að nýta fiskimiðin og til þess að eiga fyrirtæki sem gætu eignast orkulindir.
    3. Fyrirvarar að því er varðaði rétt erlendra aðila til búsetu og vinnu.
    4. Fyrirvarar að því er varðaði heimildir erlendra aðila til kaupa á hlunnindajörðum sér í lagi.
    Hv. málshefjandi lét sem hann hefði ekki fundið þessa fyrirvara við yfirferð á samningnum. En sannleikurinn er nú sá að það hefur verið margrætt á hinu háa Alþingi að öllum þessum fyrirvörum hefur verið haldið til skila.
    Það sakar ekki að geta þess, þótt ég efist reyndar um gagnsemi þess, að það var í samhengi við umræður um þennan samningsárangur Íslendinga sem varaforseti Evrópubandalagsins lét þau orð falla aðfaranótt 22. okt. á fyrra ári að Íslendingar skyldu ekki halda að þeir gætu fengið ,,allt fyrir ekkert.`` Þessi fleygu ummæli Frans Andriessen hafa síðan verið eignuð mér og það er einkennandi sérstaklega fyrir framsóknarmenn að þeir tönnlast á því að þetta sé mín skoðun á málinu og þessi orð hafi ég látið falla. Það er ósatt og menn vita betur. Ég hef hvergi lýst því mati á þessum samningum. Þetta var hins vegar yfirlýsing sem varaforseti Evrópubandalagsins lét falla og samhengið var einmitt þetta. Hann var að rifja það upp að Íslendingar hefðu í samningunum tryggt sér fullan aðgang að innri markaði Evrópubandalagsins, því sem næst fullan tollfrjálsan aðgang fyrir sjávarafurðir, en þrátt fyrir það vísað á bug aðild að sameiginlegu fiskveiðistefnunni og sett fyrirvara að því er varðaði t.d. fjárfestingarrétt og nýtingarrétt á auðlindum sínum, sem þeir hefðu sett einir þjóða umfram aðrar þjóðir. Af því tilefni ályktaði hann: Þið skuluð ekki halda að þið fáið allt fyrir ekkert. Það hefur aldrei verið mitt mat og ég bið hv. málshefjanda um það í fullri vinsemd að láta af því að eigna mér þá skoðun. Þvert á móti. Hér er um að ræða gagnkvæman hag eins og alltaf hefur komið fram í mínu máli.
    Þá skulum við snúa okkur að þessu lið fyrir lið.
    1. Hvað varðar fyrirvara um yfirráð yfir fiskimiðum?
    Sjávarútvegsstefna EB er ekki hluti af EES-samningnum og breytir engu um það hvernig við kjósum að nýta auðlindir hafsins. Yfirráð okkar yfir fiskveiðilögsögu Íslands eru óumdeild eða óskoruð. Þetta vita auðvitað allir. Almennar reglur samningsins kveða á um að fullt frelsi til fjárfestinga skuli ríkja og ekki skuli mismuna eftir þjóðernum. Um þetta er kveðið á í 40. gr. samningsins og nánar í XII. viðauka. En sérstakur fyrirvari hefur verið gerður vegna útgerðar og fiskvinnslu á Íslandi. Þar er tekið fram að Ísland geti haldið óbreyttum öllum þeim takmörkunum sem verið hafa í gildi um fjárfestingar útlendinga og aðila búsettra erlendis í útgerð og fiskvinnslu. Stjórnvöld geta þvingað fyrirtæki, sem eru að hluta eða að fullu í eigu útlendinga, til þess að selja eignarhlut sinn í öllum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum.
    Í 31.--35. gr. og VIII. viðauka samningsins er kveðið á um staðfesturétt og sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt samningnum. Þar er hins vegar sérstaklega tekið fram að íslensk stjórnvöld geti takmarkað rétt erlendra manna til þess að setja á stofn fyrirtæki eða starfa sjálfstætt við útgerð eða fiskvinnslu. Sá fyrirvari er með öðrum orðum skýr og algerlega ótvíræður. Hann er ekki tímabundinn.
    Svigrúm íslenskra stjórnvalda til þess að takmarka aðgang erlendra manna að íslenskum sjávarútvegi og um leið að takmarka aðgang íslensks sjávarútvegs að erlendu fjármagni er þar með gersamlega óskertur.
    2. Orkuauðlindirnar. Engin ákvæði eru í samningnum sem koma í veg fyrir að íslenska ríkið og sveitarfélög áskilji sér einkarétt til þess að nýta orkuauðlindir landsins. Það er alveg skýrt og hefur ekki verið vefengt.
    Hv. málshefjandi spyr þá: En hvað gerist ef gripið verður til þess ráðs að breyta fyrirtækjum í ríkiseigu eða eigu sveitarfélaga í hlutafélagsform?
    Það breytir að sjálfsögðu engu svo lengi sem ríkið eða sveitarfélög eiga þau fyrirtæki þótt í öðru rekstrarformi sé.
    En þetta mál snýst um annað. Hæstv. iðnrh. fór þess á leit fyrir nokkrum árum við hv. iðnn. að þar yrði flutt í tengslum við þingmannsfrv. frv. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar ( Gripið fram í: Í fyrra.) já, í fyrra. Tilmæli um það að í umfjöllun um það frv. yrðu sett ótvíræð ákvæði um þjóðareign eða eignarréttarákvæði fyrir hönd þjóðarinnar að því er varðar háhitasvæði að mestu og algerlega að því er varðar lághitasvæði og afréttir og almenninga. Því miður dagaði það uppi m.a. fyrir andstöðu einstakra þingmanna af hálfu Framsfl. sem vildu ekki taka af tvímæli um að settar yrðu ótvíræðar reglur um þjóðareign á landi og auðlindum. Um þetta snýst málið. Ef þetta væri gert, væri engum blöðum um það að fletta að það væru lög á Íslandi, í fullu samræmi við EES-samninginn, um að þjóðareign væri á þessum auðlindum.
    Hvað er þá um þetta mál að segja? Um það er það að segja að á málaskrá í tengslum við

EES-samninginn er boðað að iðnrn. hyggist flytja slíkt frv. til laga. Að því er unnið á vegum starfshóps sérfræðinga í iðnrn. Það mun kveða á um að ríkið áskilji sér rétt til eignarhalds á jarðhita á háhita- og lághitasvæðum, afréttum og almenningum. Þar mun vera tekin til endurskoðunar gildandi ákvæði vatnalaga.
    Með því að leiða í lög að þjóðareign skuli ríkja að því er varðar verðmæti undir yfirborði jarðar mundi þetta ná yfir málið allt, þar á meðal vatnsauðlindir Íslendinga. Spurningin sem hv. þm. er þess vegna að spyrja er: Hver er afstaða hv. þm. Framsfl. til þessa máls þegar þar að kemur? Munu þeir styðja þetta mál og tryggja þar með alveg ótvírætt að Íslendingar áskilji sér og viðhaldi fullum eignar- og umráðarétti yfir þessum auðlindum? Það er hv. þm. sem svarar því og hv. framsóknarmenn sem munu svara því þegar frv. kemur til afgreislu.
    3. Jarðeignir. Það er almenn regla í EES-samningunum að ekki skuli mismuna í viðskiptum á grundvelli þjóðernis. Þetta gildir einnig um viðskipti með hús og jarðir en ákvæði samningsins um þetta ganga þó ekki í gildi vegna aðlögunartíma fyrr en 1. jan. 1996. Eins og margsinnis hefur komið fram er ekkert því til fyrirstöðu að sett séu almenn skilyrði, t.d. um það að sá einn geti keypt jörð sem vill stunda þar búskap sjálfur. Að sjálfsögðu er unnt að setja og herða á skilyrðum gildandi laga um að áskilja samþykki sveitarfélags áður en af kaupum verður. Einnig er hægt að áskilja, eins og gert er í núgildandi lögum, og herða á þeim varðandi forkaupsrétt ríkis og sveitarfélaga. Með þessu móti væri hægt að koma í veg fyrir t.d. að stórfyrirtæki keyptu hér lendur til orlofshúsabyggða. Ef hins vegar kæmi hingað, svo að ég taki nú dæmi, danskur eða hollenskur búfræðingur sem vildi setjast hér að og rækta jörð sem honum byðist til kaups væri ekki kostur, í skjóli slíkra girðinga, að banna honum það ef sveitarfélagið samþykkti það og að mínu mati engin ástæða til. Ekki eru mörg dæmi um menn af erlendu þjóðerni sem eru bændur hér. Þau eru þó nokkur og þeir hafa staðið sig ágætlega og er ekkert á móti því.
    Málið snýst einfaldlega um það að við getum hert á þessum fyrirvörum og að því er unnið á vegum hæstv. landbrh. Þar er starfshópur að verki við að undirbúa nokkur lagafrumvörp í tengslum við þingmeðferð EES-samningsins þar sem stefnumörkunin hefur verið sú að á þessum lagaákvæðum verði hert.
    Þá spyr hv. þm. næst um yfirþjóðlegar stofnanir og spyr fyrst: Eru einhverjar meirihlutaákvarðanir EFTA-ráðsins eða EES-nefndarinnar viðurkenndar og ef svo er, þá hverjar?
    Upplýsingar um þetta hafa að sjálfsögðu verið afhentar utanrmn. þannig að þær eru í fórum hv. þm., en hann á þar sæti. Aðalstaðreyndirnar um þetta eru þessar: Allt frá stofnun EFTA hefur EFTA-ráðið getað tekið ákvarðanir með meiri hluta. Slíkar ákvarðanir eru að sjálfsögðu skilmerkilega takmarkaðar og bundnar sérstökum aðstæðum. Þær heimildir sem fyrir hendi eru varða almennt öryggisráðstafanir eða undanþágur vegna meintra brota samningsaðila, t.d. ákvörðun um að setja megi tolla á innflutning ríkis sem beitir ríkisstyrkjum og teljast vera brot á samningnum. Þá er hugsunin sú að í þessu undantekningartilviki verði að mega beita meirihlutaákvörðun þannig að hið brotlega ríki geti ekki beitt neitunarvaldi. Hér er með öðrum orðum um að ræða slíkar skilgreindar undanþágur. Þetta á við um EFTA-ráðið sjálft og hefur verið í gildi allan tímann frá því að við gerðumst aðilar að EFTA, eins og mönnum er kunnugt um.
    Við gildistöku EES-samningsins breytist hlutverk EFTA-ráðsins þó það komi til með að starfa áfram vegna þess að meginviðfangsefni þess verður að annast samskipti við hin nýfrjálsu ríki Mið- og Austur-Evrópu.
    Allar ákvarðanir um nýjar og breyttar EES-reglur verða teknar í sameiginlegu EES-nefndinni. Þar verða allar ákvarðanir teknar samhljóða. Allt samráð EFTA-ríkjanna fyrir ákvarðanatöku í EES-nefndinni munu hins vegar fara fram í svokallaðri fastanefnd EFTA, Standing Committee, sem sett er á stofn með sérstökum samningi sem gerður er samhliða EES-samningnum.
    Sameiginleg stjórnun og eftirlit með EES-samningnum innan EB verður í höndum framkvæmdastjórnar EB þar sem EES-reglurnar og EB-reglur eru að mestu eins. Í EFTA-ríkjunum verður þessu hlutverki framkvæmdastjórnar EB skipt á milli tveggja stofnana, annars vegar sjálfstæðrar eftirlitsstofnunar EFTA og hins vegar fastanefndar EFTA. Þær ákvarðanir sem ekki falla undir hreint eftirlit eru teknar í fastanefndinni. Ákvarðanir í fastanefnd EFTA eru teknar samhljóða. Hins vegar er það eins og verið hefur innan EFTA-ráðsins að í nokkrum undantekningartilvikum er gert ráð fyrir að ákvarðanir eða tilmæli fastanefndarinnar sé unnt að taka með meiri hluta. Þessar ákvarðanir eru mjög svipaðs eðlis og þær ákvarðanir sem hægt hefur verið að taka með meiri hluta í EFTA-ráðinu alla tíð. Með öðrum orðum, ef menn eru að spyrja um eitthvert yfirþjóðlegt vald, þá er ekki breyting í því. Þetta er að sjálfsögðu nánast ekki yfirþjóðlegt vald í EFTA. Þó má halda því fram að í þessum skilgreindu undantekningartilvikum hafi þetta gilt innan EFTA og er þá eins fyrir komið.
    Ákvarðanir sem hægt er að taka með meiri hluta í fastanefndinni eru mjög nákvæmlega skilgreindar í samningnum um fastanefndina. Þar er m.a. finna eftirfarandi:
    1. Ákvarðanir stjórnunarlegs eðlis sem Eftirlitsstofnun EFTA vísar til ráðgjafarnefndar aðildarríkjanna á viðkomandi sviði og fastanefnd EFTA tekur síðan ákvörðun um. Dæmi um þetta gætu verið ákvarðanir á sviði dýra- og plöntuheilbrigðis. Eina ákvörðunin sem gæti varðað Íslendinga á því sviði er ákvörðun um það hvaða aðferðum ríkið geti beitt við að greina sjúkdóma í niðurlögðum fiski. Ástæðan fyrir því er sú að Íslendingar eru einir EFTA-þjóðanna um að hafa algera undanþágu frá hinum samræmdu reglum um heilbrigði dýra og plantna.
    2. Ákvarðanir sem varða sérstaka undanþágu samkvæmt EES-reglunni á nánar tilgreindum sviðum. Annað dæmi. Það gæti verið ávörðun um hvort heimila megi áframhald eða endurtekningu aðgerða einstakra ríkja varðandi bann við sölu og notkun á plöntulyfjum sem innihalda virkt efni. Þetta getur ekki átt við um Ísland vegna þeirrar almennu undanþágu sem Ísland hefur gagnvart þessum reglum.
    3. Ákvarðanir sem varða sérstaka meðferð deilumála á sviði flutninga.
    Ef ég dreg þetta saman er málið svona: Heimildir til að taka ákvarðanir með meiri hluta í fastanefnd EFTA varða einungis ákvarðanir um framkvæmd samningsins á mjög afmörkuðum sviðum og beinast einungis að ríkjunum sem slíkum. Hér er ekki um að ræða ákvarðanir sem verða grundvöllur fyrir lagasetningu. Það eru engin stjórnskipunarleg skilyrði sem hindra að heimilt sé að taka slíkar ákvarðanir með meiri hluta enda eru slíkar ákvarðanir eðli þeirra reglna teknar með meiri hluta eins og verið hefur í EFTA-ráðinu hingað til.
    Þá er þriðja spurningin að því er varðar EB-dómstólinn. Eru niðurstöður bindandi fyrir EFTA-ríkin?
    Svarið er þetta: Dómar EB-dómstólsins sem gengið hafa fyrir undirskrift samningsins eru bindandi um túlkun á þeim ákvæðum EB-réttar sem tekin eru upp í EES-samninginn. Hins vegar er alltaf dómara að meta hvort viðkomandi dómar eigi við tiltekið mál hverju sinni. Dómar EB-dómstólsins í framtíðinni eru hins vegar ekki bindandi fyrir EFTA-ríkin. EFTA-dómstóllinn verður heldur ekki bundinn af dómum EB-dómstólsins en ber þó að taka, eins og það er orðað, tillit til þeirra í ljósi markmiða um samræmda túlkun. EFTA-ríkin verða að öðru leyti ekki bundin við dóma EB nema þau kjósi sjálf að skjóta máli til EB-dómstólsins. Nánari skýring á því hvenær hægt er að skjóta málum til EB-dómstólsins er á þessa leið:
    Á tveimur stöðum í samningnum er gert ráð fyrir þeim möguleika að EB-dómstóllinn geti úrskurðað um túlkun á þeim EES-reglum sem eru eins og EB-reglur. Í fyrsta lagi varðar þetta 111. gr. samningsins þar sem fjallað er um úrlausn deilumála. Þar er gert ráð fyrir því að ef sameiginlegu EES-nefndinni tekst ekki að leysa deilumál samningsaðila innan þriggja mánaða þá megi deiluaðilar koma sér saman um að biðja EB-dómstólinn um túlkun. Það gerist eingöngu að frumkvæði EFTA-ríkjanna sjálfra ef þau eru sammála um það. Skilyrði fyrir því að leitað sé eftir túlkun EB-dómstólsins er að allir aðilar séu sammála. Ef deiluaðilar leita til dómstólsins þá verður úrskurðurinn bindandi úr því þeir óska eftir því. Um slíkan úrskurð í framtíðinni fer síðan eins og um aðra dóma EB-dómstólsins um túlkun á EB-reglum sem eru eins og EES-reglur að þeir eru ekki bindandi en í ljósi markmiða um samræmda túlkun ber að taka tillit til þeirra.
    Í öðru lagi er hér um að ræða mál sem snertir bókun 34 við EES-samninginn. Þar er opnað fyrir þann möguleika að dómstólar í EFTA-ríkjunum geti ef þeir óska leitað eftir úrskurði um túlkun til EB-dómstólsins. Slíkir úrskurðir EB-dómstóls yrðu bindandi fyrir dómstól í EFTA-ríkjunum ef þeir leita eftir þeim. Þá kemur aðalatriðið. Skilyrðið fyrir heimild dómstóla í EFTA-ríkjunum til að leita eftir forúrskurði til EB-dómstólsins er að viðkomandi ríki hafi tilkynnt um að það ætli að nota bókun 34 og heimila dómstólum sínum að sækja forúrskurði til EB-dómstólsins. Bókunin getur ekki tekið gildi án slíkrar tilkynningar. Slík heimild til handa íslenskum dómstólum mundi krefjast lagaheimildar og að áliti sumra jafnvel stjórnarskrárbreytingar og þar með samþykkis Alþingis. Þannig að slíkt gæti undir engum kringumstæðum gerst nema með lagaheimild frá Alþingi og hugsanlega stjórnarskrárbreytingu.
    Stjórnvöld geta því ekki sent tilkynningu um að Ísland ætli að nýta bókunina nema samþykki Alþingis liggi fyrir. Ekkert EFTA-ríki hefur gefið til kynna að það komi til með að heimila að ákvæði bókunarinnar verði beitt. Bæði frá sjónarhóli stjórnarskrárákvæða og af pólitískum ástæðum er það að mínu mati afar ólíklegt að nokkurt EFTA-ríki komi til með að nota þessa heimild.
    EFTA-ríkin koma hins vegar til með að nota annan möguleika til að ná fram samræmdri túlkun. Í samningnum um stofnun eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólinn er gert ráð fyrir því að dómstólar í EFTA-ríkjunum geti beðið EFTA-dómstólinn um álit um túlkun EES-reglna en slíkt yrði ekki bindandi fyrir innlenda dómstóla.
    Þá er komið að spurningu sem hljóðar á þessa leið: Geta lög og tilskipanir EB í einhverjum tilfellum orðið bindandi fyrir EFTA-ríkin, jafnvel tímabundið? Svar við því er: Nei. Það er hægt að skýra í löngu máli en ég skal reyna að stytta það. Ég geri ráð fyrir að fyrirspyrjandi eigi við hvort ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um nýjar eða breyttar reglur sem eru teknar samhljóða geti orðið bindandi fyrir EFTA-ríkin tímabundið án samþykkis þjóðþinga. Í 103. gr. EES-samningsins er kveðið á um að ákvörðun EES-nefndarinnar taki ekki gildi fyrr en stjórnskipunarskilyrðum í viðkomandi landi hafi verið fullnægt. Hjá okkur þýðir þetta að engin ákvörðun, sem þarf að bera undir Alþingi, getur tekið gildi fyrr en Alþingi hefur samþykkt hana.
    Í 2. mgr. 103. gr. er hins vegar gert ráð fyrir því að ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar geti tekið gildi til bráðabirgða ef frestur verður á að einhverjir samningsaðilar uppfylli stjórnskipunarskilyrði heima fyrir. Með öðrum orðum, þetta var tekið upp og er ekki launungarmál með tilliti til þess að það kynni að dragast í þjóðaratkvæðagreiðslu hjá Sviss að ganga endanlega frá staðfestingu á samningnum. Gildistaka til bráðabirgða mundi gilda fyrir alla samningsaðila. Þetta ákvæði var sett sérstaklega með það í huga að þjóðaratkvæðagreiðslur í Sviss mundu ekki tefja fyrir framgangi samningsins ef hin ríkin óska eftir því. Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar geta hins vegar ekki tekið gildi til bráðabirgða í sumum

EFTA-ríkjunum nema til komi samþykki þjóðþinganna. Hafi þau ekki samþykkt eða synjað ákvörðun EES-nefndarinnar innan ákveðinna tímamarka verða þau að tilkynna að ákvörðunin geti ekki tekið gildi til bráðabirgða. Ákvörðun EES-nefndarinnar sem fellur undir valdsvið Alþingis getur því aðeins tekið gildi til bráðabirgða á Íslandi að Alþingi hafi samþykkt.
    Næsta spurning, um fólksflutninga. Hvað þurfa áhrif á efnahag að vera mikil til að beita megi heimild til að stöðva? Hversu fljótvirkt og hvaða áhrif geta gagnráðstafanir haft? Það er hverju ríki í sjálfsvald sett hvenær áhrif á efnahag teljast vera það mikil að til þessa úrræðis verði gripið. Að sjálfsögðu er þó ekki gert ráð fyrir að til þess sé gripið í tíma og ótíma eða af engu tilefni. Í 112. gr. segir að ef upp koma alvarlegir erfiðleikar í efnahagsmálum, þjóðfélagsmálum eða umhverfismálum, sem tengjast sérstökum framleiðslugreinum eða svæðum og líklegt er að verði varanlegir, megi grípa til viðeigandi ráðstafana. Ríkinu ber skylda til að tilkynna um slíkar aðgerðir og reyna ásamt öðrum samningsaðilum að finna lausn á vandanum. Sé ástandið brýnt getur ríki hins vegar gripið til tafarlausra aðgerða að eigin frumkvæði. Ef hinir samningsaðilarnir meta það svo að beiting öryggisákvæðisins hafi valdið misvægi milli réttinda og skyldna í samningnum geta þeir gripið til gagnráðstafana. En þær mega ekki vera umfangsmeiri en efni standa til. Þær skulu raska starfsemi hins Evrópska efnahagssvæðis sem allra minnst. Með sérstakri yfirlýsingu hafa íslensk stjórnvöld gert það ljóst að gripið verði til öryggisákvæðisins einkum ef vinnumarkaði er raskað í ákveðnum landshlutum, störfum eða atvinnugreinum, en einnig ef fasteignamarkaður raskast.
    Næsta spurning: Telur ráðherra meðferð deilumála eftir fyrri úrskurð dómstólsins fullnægjandi og óvilhallann? Já, meðferð deilumála samningsaðila samkvæmt samningnum er að mínu mati fullnægjandi og óvilhöll. Meðferðin felst fyrst og fremst í pólitísku samráði í sameiginlegu EES-nefndinni þar sem allar ákvarðanir eru teknar samhljóða. Þar er sami háttur hafður á og í fríverslunarsamningi okkar við EB nú. Ef ekki næst samkomulag í EES-nefndinni geta samningsaðilar beitt öryggisráðstöfunum á báða bóga. Mál sem rísa vegna umfangs og gildistíma öryggisráðstafananna verður að fara með fyrir gerðardóm en þar sitja þrír gerðardómendur, einn frá hvorum aðila og einn oddamaður tilnefndur af hinum tveimur sameiginlega.
    Það eru kostir og gallar við pólitíska lausn deilumála. Við studdum í upphafi stofnun sameiginlegs dómstóls fyrir EES. Við töldum að réttaröryggi fámennrar þjóðar væri vel borgið ef sjálfstæður dómstóll skæri úr deilumálum á hlutlausan hátt. Sá kostur var útilokaður vegna innri stjórnskipunar EB. Ég rifja upp að sá kostur var einnig gagnrýndur harðlega af stjórnarandstöðunni þar á meðal af hv. frummælanda sem taldi þetta ófullnægjandi ákvæði. Því er hins vegar ekki að neita að Íslendingar hafa oft notið fámennisins og fengið hagkvæmar lausnir í erfiðum málum í samningum við stórþjóðir á pólitískum forsendum. Því hefur einnig verið haldið fram að pólitískt henti það ekki stórveldum að beita harkalegum aðgerðum gegn smáríkjum. Það eru hagsmunir allra samningsaðila EES-samningsins að framkvæmd samningsins verði samræmd og samkomulag náist um deilumál. Beiting öryggisaðgerða og frestun á framkvæmd einhverra ákvæða samningsins er slæm fyrir góða framkvæmd samningsins og öllum í óhag. Ég hef því þá trú að hægt verði að komast að samkomulagi í þeim deilum sem hugsanlega geta komið upp. Reynslan kennir okkur að almennum öryggisákvæðum af þessu tagi, varnaglaákvæðum innan EB, hefur því sem næst aldrei verið beitt. Það er einungis um að ræða eitt tilvik á yfir 30 árum. Deilumál samningsaðila verða leyst með samkomulagi og ef ekki þá sker óvilhallur gerðardómur úr um umfang gagnaðgerða. Deilumál verða aldrei lögð fyrir annan dómstól nema með okkar samþykki. Hvort við fáum góðar eða slæmar lausnir í þeim málum, sem við hugsanlega gætum lent í deilum um, fer auðvitað eftir því hvernig við höldum á málum í sameiginlegu nefndinni sjálf.
    Næsta spurning: Hvenær gerir ráðherra ráð fyrir að niðurstaða af stjórnarskrárathugun liggi fyrir? Það hefur verið kynnt á hinu háa Alþingi og er það fyrir lok júnímánaðar nk.
    Næsta spurning: Hvaða breytingar hafa verið gerðar á samningnum eftir síðari úrskurð dómstólsins? Svarið er þetta: EB-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ákvæði EES-samningsins um úrlausn deilumála væru í samræmi við Rómarsamninginn svo framarlega sem ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar mundu ekki hafa áhrif á dómsúrlausnir EB-dómstólsins. Í sérstakri samþykkt við 105. gr. samningsins, sem fjallar um hlutverk sameiginlegu EES-nefndarinnar þegar upp kemur ósamræmi í túlkun, var fyrir hendi ákvæði þess efnis að ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um úrlausn deilu vegna mismunandi túlkunar hefðu ekki áhrif á dómsúrlausnir EB-dómstólsins. Þetta er sem sagt gamalt ákvæði, það var áður en dómskaflinn breyttist. Þar sem samþykktir eru ekki hluti af samningnum sjálfum, þótt þær séu bindandi um túlkun á ákvæðum hans, var sams konar ákvæði um að ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar við úrlausn deilumála geti ekki haft áhrif á dómsúrlausnir EB-dómstólsins sett í bókun 48 við samninginn. Það er breytingin sem átt hefur sér stað.
    Þær breytingar sem gerðar hafa verið eru einungis til áréttingar á því samkomulagi sem fyrir hendi var þar sem ekki var gert ráð fyrir að ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um úrlausn deilumála ættu að takmarka valdsvið EB-dómstólsins við túlkun á innri reglum.
    Næsta spurning er um fiskveiðisamninginn: Mun hann liggja fyrir fyrir undirskrift, ef ekki þá hvenær? Það liggur þegar fyrir texti um erindaskipti um samstarf á sviði sjávarútvegs og honum hefur að sjálfsögðu verið dreift og hann ræddur í utanríkismálanefnd. Gengið verður frá erindaskiptum þessum milli EB og Íslands 2. maí í Oporto. Erindaskiptin staðfesta þann ásetning samningsaðila að ganga frá samstarfsamningi um sjávarútvegsmál og þar er kveðið á um öll efnisatriði hans eins og mönnum er kunnugt um.

Samningaviðræður standa yfir um það hvernig ganga eigi frá þessu með formlegum hætti í samningi. Fyrsti fundur hófst 27. þessa mánaðar, sá næsti er ráðgerður um miðjan maí. Gert er ráð fyrir því að samningurinn verði fullbúinn í sumar.
    Næsta spurning: Telur utanrrh. unnt að breyta EES-samningi í tvíhliðasamning Íslands og EB ef og þegar önnur EFTA-ríki eru gengin í EB? Hvaða breytingar eru þá nauðsynlegar? Hvert EFTA-ríki fyrir sig er aðili að EES-samningi. EFTA sem stofnun er ekki aðili að honum. Allar samningsskuldbindingar og öll réttindi sem íslensk fyrirtæki og einstaklingar öðlast með samningnum standa óhögguð þó svo að önnur EFTA-ríki gangi í EB. Þetta gildir einnig um samráðsferilinn og öll upplýsingaskipti sem líklega yrðu þjálli ef Ísland stæði eitt fyrir utan. Meginvandinn yrði að leysa það hvernig ætti að sjá um eftirlitsþáttinn. Samkvæmt EES-samningnum er sérstakri eftirlitsstofnun EFTA falið að fylgjast með því hvernig EFTA ríkin rækja skuldbindingar sínar. Yfirstjórn hennar er í höndum sjö manna, eins frá hverju EFTA-ríki. Fari svo að Íslendingar sitji einir eftir þá yrði sú stofnun undir stjórn Íslendings sem hefði það hlutverk að fylgjast með íslenska ríkinu. Ólíklegt er að EB teldi það ásættanlega eftirlitsaðferð. Svipað kemur upp að því er varðar EFTA-dómstólinn þar sem dómarinn yrði einn og íslenskur undir lokin. Það yrðu því helst 108., 109. og 110. gr. í EES-samningnum sem þyrfti að semja um að nýju þótt önnur stofnanaákvæði kynnu þar einnig að koma til álita.
    Næsta spurning: Hvernig hugsar ráðherra sér meðferð málsins á Alþingi Íslendinga? Hvert yrði hlutverk sérstakrar EES-nefndar? Um þetta vil ég ekki segja mikið á þessu stigi máls af þeirri einföldu ástæðu að formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar hafa nú með skriflegum hætti lýst sínum hugmyndum um það mál og beint því til hæstv. forsrh. Það mál var rætt í ríkisstjórn í morgun. Ég leyfi mér að láta í ljós þá von að fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu geti í viðræðum sínum náð samkomulagi um vinnubrögð, um þingmeðferðina sjálfa, og ætla ég ekki á þessu stigi málsins að tíunda rök fram eða aftur um það hvort æskilegt er að þar verði sett á stofn sérstök sérnefnd sem fjalli um EES-málið. Ég dreg enga dul á það að ég teldi það skynsamlegt út af langtímasjónarmiðum vegna þess að við munum þurfa á því á halda að því er varðar framtíð samningsins, samræmingu á framkvæmd hans að hafa slíka sérnefnd. En ég ætla þá á þessu stigi málsins ekki að tíunda það í löngu máli.
    Virðulegi forseti. Ég veit að mínum tíma er lokið. Hv. fyrirspyrjandi spurði um margt annað og ég skal renna á því í örstuttu máli, með leyfi forseta.
    Í fyrsta lagi sagði hann: Þetta er ekki lengur tveggja stoða lausn vegna þess --- og vitnaði í Van der Pas --- að við erum að yfirtaka lög og reglur Evrópubandalagsins. Þetta hlýtur að vera misskilningur hjá hv. fyrirspyrjanda, hann veit að sjálfsögðu allra manna best að EFTA-ríkin voru í þessum samningi að sækjast eftir því að taka yfir lög og reglur EB um fjórfrelsið og það kemur tveggja stoða lausninni ekkert við. Þetta gerðum við og vorum sammála um í tíð fyrri ríkisstjórnar. Að því er varðar tveggja stoða lausnina þá felst hún fyrst og fremst í stofnanarammanum, þ.e. við erum með sérstaka eftirlitsstofnun og sérstakan dómstól. Og að því leyti er tveggja stoða lausnin enn í gildi.
    Hann spurði: Hvaða stofnun er það sem hefur sambærileg áhrif og framkvæmdastjórn EB? Það er að sjálfsögðu eftirlitsstofnunin og ekkert nýtt yfir því. Þá spurði hann um að því er varðaði staðla. Útblástur farartækja. Er verið að stefna að því að Norðurlöndin sætti sig við lægri staðla? Nei. Það liggur fyrir að EB er að undirbúa löggjöf um hærri staðla. Þannig að það er verið að samræma þá innan aðlögunartímans fram að 1995. Breytir þetta eitthvað um einkasölu ÁTVR? Nei, það breytir engu um það. Við föllumst á regluna um það að ekki má mismuna í viðskiptum ef einhver vill selja einhverja áfengistegund og hér vill einhver kaupa þá verða þau viðskipti að fara fram. Það breytir hins vegar engu um að við getum haldið einkasölu ríkisins og við getum haldið henni líka í smásölu. Þetta er löngu upplýst mál.
    Undirboð. Það er eitt stærsta hagsmunamál okkar, sem upp kom í samningnum, að það er skuldbinding frá EB um það að beita ekki --- vegna þess að við höfum sömu samkeppnisreglur --- sínum rétti til að koma undirboðstollum á aðra.
    Að því er varðar samninga við þriðju ríki, hv. fyrirspyrjandi, þá er það lykilatriði þessa samnings að við erum frjálsir að okkar samningum við þriðja ríki. Það sem EB býður er það að ef þeir gera samninga við þriðju ríki þá bjóðast okkur bestu kjör. Við getum gengið inn í þá samninga.
    Að því er varðar dýr og plöntur, þá erum við með undanþágu frá þeim málum algerlega. Að því er varðar sjóflutninga og fólksflutninga liggja fyrir mjög ítarlegar upplýsingar í utanrmn.
    Að því er varðar þátttöku í nefndum þá höfum við ekki óskað eftir að taka þátt í 2.000 nefndum. Það má geta þess hér í lokin að starfsmenn EB eru um 20.000, menn tala um að það sé mikið bákn. Það mundi samsvara því í hlutfallsreikningi að starfsmenn í Stjórnarráði Íslands væru 15. Við erum að vísu dálítið fleiri en það. En við ætlum ekki að leggja mikið kapp á að blanda okkur inn í ákvörðunarferli stofnana EB, það hefur aldrei staðið til og var mjög vel upplýst í tíð fyrri ríkisstjórnar.
    Að lokum, virðulegur forseti. Við skulum hafa það í huga að þessi samningur, sem er auðvitað á dagskrá, búinn að vera á dagskrá, er ræddur í utanrmn., verður hér á dagskrá, er auðvitað mikið mál. Hann er 129 gr., 49 bókanir, 22 viðaukar, 29 sameiginlegar yfirlýsingar, 39 einhliða yfirlýsingar. Það er ekki langt í það að þetta mál verði á dagskrá Alþingis. Auðvitað er það rétt að þetta mál er svo stórt að það kallar á mjög vandaða umferð og umfjöllun hjá Alþingi Íslendinga, ekki í einhverjum utandagskrárumræðum heldur í dagskrárumræðum og í nefndum. Og um það vona ég að fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu komi

sér saman um hvað svo sem líður álitamálum eða ágreiningsefnum um einstök atriði samningsins.