Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 15:07:55 (5633)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ef þessar orðræður hv. 8. þm. Reykn. væru teknar alvarlega, þá væri hann að segja: Ég krefst þess að Íslendingar undirskrifi tvíhliða samninginn við Evrópubandalagi um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir áður en þeir hafa fengið undirritaðan EES-samninginn. Er það meining leiðtoga stjórnarandstöðunnar eða annars leiðtoga stjórnarandstöðunnar að halda þessu fram? Er hann að setja fram þá kröfu að við skuldbindum okkur samningi, sem hann hefur gagnrýnt, áður en við höfum það í hendi að við náum réttindum okkar og ávinningi af EES-samningnum? Auðvitað ekki. Auðvitað meinar hv. þm. það ekki. Sú leiðrétting sem ég gaf á misskilningi hans er því auðvitað fullgild.
    Að því er varðar spurningu um stjórnarskrá og það hvort samningurinn samrýmist stjórnarskrá eða ekki, þá geta menn gefið sér hvaða skoðanir sem þeir vilja fyrir fram. Það liggur fyrir hvaða skoðun ég hef á því og hver er skoðun ríkisstjórnarinnar á því. En við bíðum auðvitað niðurstöðu, hlutlægrar niðurstöðu, hlutlausra aðila, fræðimanna, í því efni og óþarfi að setja á langar tölur um það fyrir fram. Kjarni málsins er sá að ef samningurinn reynist standast það próf svo hann brjóti á engan máta í bága við stjórnarskrá og kalli ekki á neinar breytingar á stjórnarskrá, þá er það afstaða þessarar ríkisstjórnar að óþarfi sé að leggja þennan milliríkjasamning fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við skulum bíða með getsakir og dylgjur í því efni þangað til sú niðurstaða liggur fyrir.