Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 15:12:41 (5635)



     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Eitt mikilvægasta mál sem íslenska þjóðin þarf að ræða er einmitt nú á dagskrá. Þetta hefur verið mál málanna og við ræðum um afstöðu Íslendinga til Evrópubandalagsins og Evrópska efnahagssvæðisins, hugsanlega aðild að því og samskiptin við önnur Evrópuríki. Þar varðar mestu að sýna nú aðgát og rasa ekki um ráð fram.
    Fyrst er þess að gæta að enginn stjórnmálaflokkanna hefur aðild að Evrópubandalaginu á dagskrá sinni eða eins og segir í bók Evrópustefnunefndar á bls. 253: ,,Enginn íslensku stjórnmálaflokkanna hefur á stefnuskrá sinni aðild að Evrópubandalaginu. Sumir flokkanna orða það svo í stefnuyfirlýsingum sínum og samþykktum að umsókn um aðild sé ekki á dagskrá. Aðrir kveða svo að orði að aðild komi ekki til greina.``
    Við þurfum auðvitað að líta til þeirrar staðreyndar. En umræðurnar um Evrópska efnahagssvæðið hafa nú tekið kipp rétt einu sinni, hvert sem framhaldið verður. Rétt er að undirstrika að þær margendurteknu breytingar og sífelldu tafir sem orðið hafa eru ekki sök okkar. Það er ekki sök okkar Íslendinga. Alltaf hafa það verið aðrir sem beðið hafa um frest eða tekið ákvarðanir sem sjálfkrafa fresta málum vegna sjálfheldu í margslungnu skrifstofubákni Evrópubandalagsins. Til áherslu þessarar fullyrðingar leyfi ég mér, herra forseti, að leggja fram lista í 12 liðum sem sýnishorn atburða í stjórnkerfi Evrópubandalagsins og Evrópska efnahagssvæðisins frá síðasta ári eða síðustu 10 mánuðina. Þessi listi hljóðar svo, með leyfi forseta, og þarf þó ekki leyfi hans því að ekki er vitnað í neitt nema það sem á almannaorði er:
    1. Á fundi utanrmn. fimmtudaginn 10. júní 1991 tilkynna utanrrh. og sjútvrh. niðurstöður fundar ráðherra EFTA og EB í Lúxemborg um Evrópskt efnahagssvæði. Fram kemur í máli utanrrh. að eftir þann fund liggi fyrir samningstilboð sem Íslendingar geti vel við unað. Stefnt sé að því að gefa út sameiginlega yfirlýsingu þar sem lýst sé yfir að komin sé pólitísk lausn á ágreiningsmálunum og aðeins eftir að útfæra samkomulagið nánar og ganga frá drögum að samningstexta sem aðalsamningamenn geti sett stafi sína undir á fundi í Helsinki 28. júlí.
    2. Á fundi utanrmn. þriðjudaginn 30. júlí 1991 skýrir utanrrh. frá því að nóttina áður hafi slitnað upp úr samningaviðræðum EFTA og EB um EES. Fram kom að ýmis EB-ríki voru ekki reiðubúin að fallast á það pólitíska samkomulag sem talið var að náðst hefði á Lúxemborgarfundinum í júní.
    Á fundi utanrmn. 12. ágúst 1991 skýrði Hannes Hafstein, aðalsamningamaður Íslands, frá því að í reynd hafi meiri hluti ráðherra EB ekki fallist á þá skoðun formanns ráðsins að pólitísk lausn hefði verið komin í viðræður EFTA og EB um EES eftir Lúxemborgarfundinn í júní.
    3. Á fundi utanrmn. þriðjudaginn 22. okt. 1991 skýrði utanrrh. frá því að nóttina áður hafi á fundi ráðherra EFTA og EB í Lúxemborg náðst samkomulag um Evrópskt efnahagssvæði og hafi samningsmarkmið Íslendinga í meginatriðum náðst fram. Sagðist utanrrh. gera ráð fyrir að aðalsamningamenn geti sett stafi sína undir samninginn innan tveggja vikna þegar búið sé að yfirfara samningstextann og búið að fella þau atriði sem síðast hafi verið samið um inn í heildartextann.
    4. Á fundi utanrmn. mánudaginn 4. nóv. 1991 skýrðu embættismenn utanrrn. frá því að gert sé ráð fyrir að aðalsamningamenn EFTA og EB geti sett stafi sína undir samninginn 18. nóv. nk.
    5. Á fundi utanrmn. mánudaginn 18. nóv. 1991 skýrði Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri utanrrn. frá því að stefnt hefði verið að því að samningurinn yrði áritaður þann dag en sl. föstudag, 15. nóv., hefði borist tilmæli frá EB-dómstólnum um að árituninni yrði frestað og að efnt yrði til fundar um málið milli framkvæmdastjórnar og EB-dómstólsins 26. nóv.
    6. Á fundi utanrmn. fimmtudaginn 28. nóv. 1991 kom fram að EB-dómstóllinn hafði óskað eftir því að fá lengri tíma til að athuga fyrirliggjandi drög að EES-samningi og hefði framkvæmdastjórn EB fallist á það. Fram kom í máli ráðherra að gert væri ráð fyrir að dómstóllinn mundi skila áliti 13. des. 1991 og að aðalsamningamenn mundu geta áritað samninginn fljótlega eftir það.
    7. Á fundi utanrmn. mánudaginn 2. des. 1991 kynnti Magnús Gunnarsson, formaður Samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi, samþykkt samtakanna þess efnis að þau dragi til baka stuðningsyfirlýsingu sína

við þau drög að EES-samningi sem kynnt voru 22. okt. sl. þar til fyrir liggi traustari heimildir hvað felist í samningnum.
    8. Á fundi utanrmn. mánudaginn 16. des. 1991 gerir utanrrh. grein fyrir þeirri niðurstöðu EB-dómstólsins að það réttarkerfi sem fyrirhugað væri að koma á fót innan Evrópska efnahagssvæðisins sé ósamrýmanlegt Rómarsáttmálanum. Sagði ráðherra að nú mundu hefjast viðræður um endurskoðun dómstólaákvæðis EES-samningsins.
 10. Á fundi utanrmn. föstudaginn 14. febr. 1992 skýrði utanrrh. frá því að í framhaldi af samkomulagi um dómstólaþátt EES-samningsins hafi aðalsamningamaður EFTA og EB fyrr um daginn ritað undir plagg þess efnis að viðræðum um Evrópskt efnahagssvæði væri lokið. Ráðherra sagði jafnframt að formleg áritun aðalsamningamanna mundi fara fram síðar. Þá kom fram að EB-þingið hefði óskað eftir því við framkvæmdastjórn EB að hún legði dómstólaþátt hins endurskoðaða EES-samnings aftur fyrir EB-dómstólinn.
 11. Á fundi utanrmn. mánudaginn 24. febr. 1992 lagði ráðuneytisstjóri utanrrn. fram heildarútgáfu af EES-samningnum á ensku að undanskilinni bókun 36 um þingmannasamstarfið innan EES sem væri eina bókunin sem ekki væri fullfrágengin. Á fundinum skýrði Hannes Hafstein frá því að hann teldi að það skjal sem aðalsamningamenn EFTA og EB hefðu undirritað 14. febr. sl. um samningaviðræður þýddi að þeim væri lokið og hefði í reynd sömu þýðingu og áritun samningsins.
 12. Á fundi utanrmn. 13. apríl 1992 skýrði ráðuneytisstjóri utanrrn. frá því að gert væri ráð fyrir því að aðalsamningamenn árituðu EES-samninginn næsta dag og stefnt væri að því að utanríkisráðherrar undirskrifi samninginn 11. maí, sem er reyndar búið að flytja fram sem er óvanalegt í þessu apparati öllu saman.
    Af þessari upptalningu ætti að vera ljóst að sl. 10 mánuði hefur mjög verið á reiki hvort tækist að ljúka viðræðum um EES-samning og hefur málið einkum tafist vegna innri ágreinings meðal EB-ríkja. Enn þá liggur í raun ekkert fyrir um hvort allir samingsaðilar muni staðfesta samninginn. Um það er ekkert vitað.
    Af þessari upptalningu ætti hvert mannsbarn líka að geta skilið hver vandi hefur verið lagður á herðar fámennri utanríkisþjónustu okkar.
    Að gefnu tilefni vil ég nota þetta tækifæri til að þakka starfsfólki utanríkisþjónustunnar frábær störf við erfiðar aðstæður til að upplýsa hv. utanrmn. Alþingis, ríkisstjórn væntanlega og landsmenn alla, um þann frumskóg sem verið er að reyna að berjast í gegnum.
    Hugsjónin um Evrópusamstarfið, í menningar- og viðskiptamálum, er auðvitað göfug. Við erum Evrópuþjóð og styðjum öll framfarir og frið í álfunni okkar. Það þýðir ekki að við eigum að hætta viðskiptum við aðrar þjóðir á norðurhveli jarðar. Evrópusamstarfið hefur þróast og er að þróast sem nokkurs konar verndar- og innilokunarbandalag. Gömlu öflin í EB eru enn að verki og það hefur valdið því að Evrópska efnahagssvæðið hefur þróast á allt annan veg en við ætluðum og stefnt í allt aðra átt en við ætluðum þegar við ákváðum þátttöku í því.
    Hvað sem líður öllum bollaleggingum í þessa átt er auðvitað alveg ljóst að lögum samkvæmt mun utanrmn. ræða þetta mál ítarlega og hafa náið samráð við ríkisstjórnina í samræmi við 24. gr. þingskapalaga en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum. Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef formaður eða ráðherra kveður svo á.``
    Eins og menn hafa tekið eftir er tvívegis notað orðið ,,skal``. Þannig eru réttindi og skyldur utanrmn. og ríkisstjórnarinnar gagnkvæmar. Slík ákvæði laga gilda ekki um neina aðra þingnefnd.
    Það er rétt sem sagt hefur verið að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er víðtækasti alþjóðasamningur sem lagður hefur verið fyrir Alþingi. Kjarni þessa samnings fjallar um samskipti Íslands við aðrar þjóðir. Þótt ýmsir efnisþættir samningsins fjalli um önnur svið, sem beinlínis varða innanríkismál, snúast grundvallarþættir samningsins um þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslendinga. Það er því af og frá og beinlínis brot á þingskapalögum að taka forræði þessara mála úr höndum utanrmn. Alþingis verði það reynt.
    Þeir sem sett hafa fram hugmyndir um slíkar sérstakar nefndir til þess að fjalla um þennan samning gera það með þeim rökum að samningurinn snúist um mál á verkasviði allra ráðuneyta og þar með allra fastanefnda Alþingis. Með sömu rökum hefði hæstv. forsrh. átt að segja við hæstv. utanrrh. við myndun núv. ríkisstjórnar að þar sem samningsgerðin fjalli um svo víðtækt svið væri eðlilegt að hún væri í höndum forsrh. en ekki utanrrh.
    Hæstv. forsrh. setti enga slíka kröfu fram þá og var ekki um það beðinn. Hefði hún komið fram þykir mér ólíklegt að hæstv. núv. utanrrh. hefði fallist á hana. En úr því að þau rök sem nú eru borin fram fyrir því að fela málið sérstakri kjörinni nefnd eftir nýju ákvæði í þingskapalögum átti ekki við um verkefnaskiptingu innan ríkisstjórnarinnar, geta þau enn síður átt við um meðferð málsins á Alþingi. Það held ég að sé alveg ljóst.
    Ef þingheimi finnst ástæða til að afhenda slíkri þingnefnd meðferð allra þessara innanlandsmála og sniðganga þannig allar fastanefndir með þessum hætti --- (Forseti hringir.) ég verð nú að stytta aðeins mál mitt hér --- þá gengur það auðvitað ekki upp. Ég hef bæði á Alþingi og annars staðar látið í ljósi efasemdir um að samningurinn standist ákvæði stjórnarskrár okkar. Um það skal ég ekkert fullyrða á þessu stigi en ef álitamál koma upp í þessu sambandi ber okkur alþingismönnum skylda til að kanna þau ofan í kjölinn og láta málefnalegt mat ráða afstöðu okkar en ekki flokkspólitísk sjónarmið. En ég vil jafnframt taka skýrt fram að ég mun sem formaður utanrmn. greiða fyrir því, alveg óháð því hver endanleg afstaða mín verður, að málið verði afgreitt frá nefndinni innan þeirra tímamarka sem stuðningsflokkar ríkisstjórnarinnar telja eðlilegt. Að öðru leyti mun ég láta það bíða síðari umfjöllunar hér á Alþingi að tjá mig um einstaka þætti samningsefnisins.