Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 16:03:31 (5638)


     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Það er mikilvægt í umræðum um mál eins og þetta að menn geti raðað hlutunum í forgangsröð og gert sér grein fyrir því hvaða hlutir eru stórir og hvaða hlutir eru litlir, ekki vegna þess að það sé eitthvað í þessum samningi sem ekki skiptir máli heldur einfaldlega vegna þess að málið er það yfirgripsmikið að óhjákvæmilega standa þar sumir hlutir upp úr.
    Það sem mér finnst skipta mestu máli í sambandi við þennan samning um hið Evrópska efnahagssvæði er það að íslenskt atvinnulíf hefur verið í stöðnun nú síðustu 10--12 árin. Í rauninni hefur ekki verið neitt það stórt að gerast sem hefur skilað okkur áfram í lífskjörum. Það var verið að ljúka kjarasamningum í fyrradag. Það er athyglisvert að þeir kjarasamningar skila fólki sambærilegum kaupmætti og gilti hér á Íslandi í upphafi níunda áratugarins. Okkur hefur í raun ekki skilað nægilega langt áfram. Það sem stendur líka upp úr í sambandi við efnahagslíf okkar er að okkur hefur ekki tekist að auka útflutning okkar nægilega mikið. Okkur hefur ekki tekist að gerast þátttakendur í þeirri miklu þróun sem hefur orðið í heiminum og ekki síst í Evrópu sem hefur falist í aukningu milliríkjaviðskipta hvers konar. Það er því alveg nauðsynlegt að við búum útflutningsgreinum okkar tækifæri til að vaxa. Með þessum samningi um hið Evrópska efnahagssvæði er ekkert tryggt. Það er engin vörðuð leið til lífshamingju fyrir íslenskt atvinnulíf en í honum felast möguleikar sem við getum nýtt okkur til framfara ef vel er á haldið. Sá kostur sem í þessum samningi felst og þeirri viðleitni sem í honum felst er fyrst og fremst sá að það er verið að búa til lagalegan stöðugleika fyrir íslenskt atvinnulíf. Við höfum oft talað um mikilvægi hins efnahagslega stöðugleika fyrir atvinnulífið og sem betur fer höfum við náð miklum árangri í þeim efnum, en hinn lagalegi stöðugleiki skiptir ekki síður máli.
    Ef við lítum til þess hvað er að gerast í Evrópu þá er þar að sjálfsögðu á ferðinni þróun sem hefur í rauninni gjörbreytt lífsháttum og atvinnulífi í álfunni á árunum eftir stríð. Þessi þróun hefur falist í auknu efnahagslegu og pólitísku samstarfi. Við skulum hafa það í huga að þetta samstarf byggir á því að treysta friðinn, tryggja lýðræðislegar hefðir og mannréttindi. Við skulum ekki gleyma því að sú kynslóð sem ég er af er líklega fyrsta kynslóðin um langan tíma í Vestur-Evrópu sem hefur alist upp án þess að þar sé stríð. Þetta er ekkert lítill þáttur, þetta er kannski stærsti þátturinn í því af hverju Evrópubandalagið er það sem það er í dag og af hverju við erum að reyna að komast í nánari tengsl við bandalagið með þessum samningi. Við horfum í dag upp á fólk sem hefur búið saman hlið við hlið í Júgóslavíu berjast, þetta sjáum við í sjónvarpinu á hverju einasta kvöldi. Fólk sem hefur verið vinir í gegnum tíðina, sama fjölskyldan. Þetta hefur Vestur-Evrópa líka þekkt í gegnum aldirnar. Það er varla til sú fjölskylda í löndunum eins og Þýskalandi, Frakklandi, Belgíu og Hollandi sem ekki hefur misst einhvern fjölskyldumeðlim í stríði gegnum þúsund ára sögu. Þetta skiptir miklu máli fyrir okkur að þetta samstarf á sviði efnahagsmála og þetta pólitíska samstarf tryggi frið, lýðræði og mannréttindi í álfunni.
    Það er ekki eins og þessi samningur um hið Evrópska efnahagssvæði sé samningur við eitthvert skrímsli, þ.e. Evrópubandalagið, að það sé hægt að líta á það sem einhverja stórkostlega grýlu. Þetta er auðvitað í stórum dráttum sams konar þjóðfélag og við búum í. Þetta er þjóðfélag sem býr við markaðshagkerfi, þetta er þjóðfélag þar sem jafnrétti er viðurkennt, þetta er þjóðfélag þar sem velferð stendur sem traustustum fótum og þetta er þjóðfélag sem leggur áherslu á vinnuvernd og félagsmál. Og sá samningur sem verið er að gera um hið Evrópska efnahagssvæði byggir fyrst og fremst á því að það sé jafnrétti, að það sé gagnkvæmni og það sé jafnvægi í samningum, að við fáum réttindi í löndum Evrópubandalagsins en að við tökum líka á okkur skyldur og að þessi réttindi og skyldur byggist á jafnrétti, byggist á gagnkvæmni og jafnvægi. Evrópubandalagið er ekki neitt sem hefur komið af himnum ofan. Evrópubandalagið er að sjálfsögðu mannleg smíð. Það hefur mótast af lýðræðislegum hefðum. Það hefur mótast af samningum milli þeirra ríkja sem í því eru og þeirra sem hafa komið inn í það. Það lýtur að sjálfsögðu öllum lögmálum sem lýðræðislegt stjórnskipulag lýtur. Það hefur sína kosti og það hefur sína galla. Það hefur sitt ,,bírókratí``, það hefur sína hagsmunahópa, það hefur sína togstreitu milli landsvæða. Það er því að sjálfsögðu bandalag eða fyrirbæri sem hefur marga galla. En það hefur einnig náð miklum árangri og það hefur náð þeim árangri að þar eru lífskjör með því besta sem þekkist. Þau hafa náðst vegna þess að þjóðir Evrópubandalagsins hafa náð að starfa saman og náð að byggja upp þennan innri markað sem tekur að fullu gildi í ársbyrjun 1993. Það er mikilvægt fyrir okkur að tryggja fyrirtækjum okkar og atvinnulífi aðgang að þessum markaði. Þegar upp er staðið er það kannski það sem mun skipta sköpum um það hvort okkur tekst

að ná okkur upp úr þeirri stöðnun sem við erum í. Það gefur okkur a.m.k. tækifærin án þess að það sé eitt eða annað tryggt í þeim efnum.
    Í þessum samningi eru að sjálfsögðu mörg jákvæð atriði og mörg neikvæð. Sum þessara atriða sem tekið er á og okkur finnst kannski neikvæð byggja á því að menning er ólík og annað viðhorf er til hlutanna innan Evrópubandalagsins en hjá okkur. Sá sem hóf þessa umræðu, hv. þm. Steingrímur Hermannsson, minntist á áfengisviðskipti. Við verðum að athuga að þegar menn eru að tala um vín á Íslandi er venjulega verið að tala um áfengisvandamál en þegar talað er um vín suður í Frakklandi er verið að tala um landbúnaðarvandamál. Hér á Íslandi telja menn að vandamálið sé að það sé drukkið of mikið en þar syðra telja menn að það sé drukkið of lítið. Það er von að sumir hugsi sig um þegar á að taka á þessum ákvæðum í samningi um viðskipti milli þessara landa en þetta eru að sjálfsögðu hlutir sem við þurfum að fara í gegn. ( Viðskrh.: Að þeir hafi rétt fyrir sér þar syðra?) Ég er reyndar nokkuð sammála því.
    Annað sem kemur upp í þessu sambandi er vandamálið varðandi fjárfestingar erlendra aðila í okkar sjávarútvegi. Þar rekumst við á hluti sem geta orðið til þess að sjávarútvegurinn hjá okkur á óhægt með að fá aðgang að eigin fé ef við höldum okkar fyrirvörum til streitu. Það eru hlutir sem við þurfum að fara í gegnum og ákveða hvernig við ætlum að lifa með.
    Ég sagði áðan að Evrópubandalagið væri mannleg smíð og það er að sjálfsögðu í mikilli þróun. Innan bandalagsins eru miklar umræður um það hvort stækka eigi bandalagið og hleypa inn EFTA-ríkjunum og öðrum ríkjum. Það er líka mikil umræða í gangi um framþróun samstarfsins í kjölfarið á samningnum í Maastricht. Það er líka mikið rætt í Evrópu um það sem þeir kalla lýðræðishalla og Evrópuþingið í Strassborg hefur að sjálfsögðu frumkvæði í þeirri umræðu þar sem þingmönnum á Evrópuþinginu finnst að ekki sé nægilega gætt að því að lýðræðilslega kjörin stofnun, Evrópuþingið, hafi nógu mikið vald í málefnum bandalagsins. Evrópa er á fullri ferð og það er ekki bara Evrópubandalagið heldur er líka margt að gerast í Austur-Evrópu að sjálfsögðu eftir hrun kommúnismans þar. Það er athyglisvert að þær þjóðir sem hafa nýlega fengið sitt sjálfstæði láta það verða eitt af sínum fyrstu verkum, ef við tökum t.d. Litáen eða Kashakstan, að tala um að þær þurfi að ganga í Evrópubandalagið. Og það er að sjálfsögðu umhugsunarefni fyrir okkur að sá tími gæti komið að í Evrópu væru aðeins tvö lýðveldi sem ekki hefðu áhuga á því að ganga í Evrópubandalagið, þ.e. Ísland og Albanía. Það er alla vega eins gott að meðan við erum kannski á sama báti og Albanía að því leyti til að vera ekki í Evrópubandalaginu að við verðum ekki á sama báti hvað snertir lífskjörin. Það er eins gott að það sé tryggt. En sú þróun sem á sér stað í Evrópu þýðir að sjálfsögðu að við þurfum sífellt að endurmeta okkar stöðu. Ég held að það sé engin spurning að við þurfum að afgreiða þennan samning um hið Evrópska efnahagssvæði. Við þurfum að sjálfsögðu að fara vel yfir og vanda til allrar þeirrar lagasetningar sem er nauðsynleg í sambandi við þennan samning. En það er enginn raunhæfur kostur fyrir okkur Íslendinga að hafna þessum samningi. Síðan þurfum við að sjálfsögðu alltaf að hafa í skoðun okkar stöðu gagnvart Evrópubandalaginu og hvernig við viljum haga okkar viðskiptum við það.
    Það má kannski segja að grundvallaratriði í þessu máli öllu sé spurningin um það hvort okkur tekst að halda hér uppi samkeppnishæfum lífskjörum og það má rifja eitt upp í því sambandi. Það má rifja upp að fyrir um 20 árum síðan byrjuðu Íslendingar að flykkjast í stórhópum til Spánar og menn lifðu þar eins og greifar. Fyrir það kaup sem þeir fengu á Íslandi gátu menn farið til Spánar, búið þar vel, étið þar vel, sumir áttuðu sig ekki á því fyrst þegar þeir fóru og höfðu þeir með sér miklar birgðir af hangikjöti og harðfiski en menn drukku þar sannarlega ósvikið spánskt vín og sumir gerðu það kannski ótæpilega. En Spánverjarnir báðu okkur um að koma til þess að þeir gætu skoppað í kringum okkur fyrir lítinn pening. Ef Spánverjar halda áfram á þeirri braut sem þeir hafa verið, sem hefur nánast verið óslitinn uppgangur síðustu árin, þá eru þeir búnir að ná okkur í lífskjörum um aldamótin og ef sú stöðnun sem hefur verið hér á landi heldur áfram líka. Þá getur komið að því að Spánverjar fari að flykkjast hingað til Íslands og við förum að skoppa í kringum þá. Ég hef ekkert á móti ferðamannaiðnaðinum en ég held að það sé ekki samt það hlutskipti sem við ætlum okkar unga fólki að hlaupa í kringum Spánverja. ( Gripið fram í: Er nokkuð að því?) Það er ekkert að því en ég held að það eigi ekki að vera draumsýn neins af þingmönnum á Alþingi, ekki draumsýn eins einasta manns.
    Að lokum vil ég koma að því að menn hafa verið að tala um hvort það eigi að vera þjóðaratkvæði eða ekki þjóðaratkvæði um þennan samning. Ég verð að segja að ég minnist þess ekki í tíð fyrrv. ríkisstjórnar að nokkrum ráðherra í þeirri ríkisstjórn hafi nokkurn tíma dottið í hug að leggja samninginn fyrir þjóðaratkvæði. Alla vega kom það aldrei fram í neinni umræðu um það mál á þeim tíma svo að eftir væri tekið.