Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 17:57:47 (5644)


     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Herra forseti. Mér kom á óvart að hæstv. utanrrh. lýsir því nú að við hefðum fengið inn í samninginn ákvæði norræna samningsins um sameiginlegan vinnumarkað. Þau ákvæði eru mjög skýlaus. Þau veita okkur Íslendingum heimild til að stöðva flutning vinnuafls til landsins án nokkurs fyrirvara og án í raun og veru nokkurra skilyrða. Ég hef ætíð skilið það svo að við höfum ekki fengið þetta samþykkt. Ég vildi gjarnan fá að vita hvar í samningnum þetta kemur fram. Reyndar hef ég þvert á móti heyrt hæstv. utanrrh. lýsa því að í þessu sambandi yrði að beita öryggisákvæði samningsins og hann sagði hér fyrr í dag að við Íslendingar hefðum bókað að við mundum beita því í sambandi við fólksflutninga og, ef ég man rétt, kaup á nytjajörðum. Mér heyrist að þarna hljóti að vera einhver misskilningur. Ég fagna því ef ákvæði norræna samningsins eru fullgild í þessum EES-samningi og vil gjarnan fá að heyra nánar um það.
    Hæstv. utanrrh. sagði að þessi samningur væri enn mikilvægari vegna þeirrar ákvörðunar EFTA-ríkjanna að ganga inn í EB. Það má vera en hann er ekki mikilvægur sem skammtímasamningur. Ef hann er skammtímasamningur getur svo farið að við verðum skildir eftir einir í eyðimörkinni með samning sem við getum ekki framkvæmt og e.t.v. orðnir svo háðir EB að samningurinn er okkur til verulegs skaða. Einmitt þess vegna tel ég mikilvægt að kanna hvort við getum fengið samningnum breytt. Mér datt ekki í hug að við gætum hafið viðræður um þær breytingar en ég hefði talið skynsamlegt að fá viðhorf forustumanna EB til þess að við ætlum ekki að sækja um aðild og þá verðum við að fá samningnum breytt ef hann á að verða að einhverju gagni fyrir okkur til lengri tíma litið.