Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 17:59:57 (5645)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst varðandi vinnumarkaðinn. Ég hef auðvitað aldrei haldið því fram að við höfum í samningnum haldið ákvæðinu um norræna vinnumarkaðinn sem er á þá leið að Íslendingar einir þjóða áskilji sér rétt til þess að stöðva innflutning fólks. Það sem ég var að segja og hef sagt oft áður og er reyndar löngu útkljáð mál var að við höfum með öryggisákvæðinu og rétti okkar til þess að beita því einhliða sams konar öryggisventil að því er varðar það mál, þ.e. íslensk stjórnvöld geta stöðvað innflutning fólks, lagt sitt eigið mat á það við breytingar sem kynnu að verða á þjóðfélagsaðstæðum og eins og þar er skilgreint. Viðbrögð hinna ríkjanna eru þau ein að þau geta beitt gagnráðstöfunum en þá er áfrýjunarréttur um það hvort þær gagnráðstafanir eru eðlilegar og hlutfallslegar. Með öðrum orðum, réttur íslenskra stjórnvalda til íhlutunar að því er varðar vinnumarkaðinn og reyndar fleiri atriði, fasteignamarkaðinn þar með talinn, er tryggður. Það er það sem ég hef sagt um málið.
    Að því er varðar spurninguna um breytingar á EES-samningnum síðar yfir í tvíhliða samning þá sagði hv. málshefjandi að honum hefði aldrei dottið í hug að við gætum tekið upp samningaviðræður um það nú. Ég er feginn að heyra það því sumir aðrir sem tóku þátt í umræðunni voru að gera þær kröfur að við ættum að krefjast samningaviðræðna um það nú. Ég þakka fyrir þann skilning. Auðvitað er það svo að við getum ekki gert kröfur um samningaviðræður. Að því er það varðar hvort við gætum ekki hafið viðræður til þess að kanna viðhorf samningsaðilans um þær aðstæður eftir 1995, þá er það alveg sjálfsagður hlutur. Ég t.d. hef í hyggju að ræða þann þátt málsins þegar vorfundur ráðherraráðs EFTA verður haldinn í Reykjavík upp úr 19. maí, en Andriessen, varaforseti Evrópubandalagsins, mun sækja þennan fund og ég mun eiga tvíhliða viðræður við hann í tengslum við þann fund og þá m.a. ræða þetta mál.