Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 18:26:11 (5651)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þegar litið er yfir þessa umræðu vekur það óneitanlega athygli að hæstv. utanrrh. hefur ekki treyst sér til að halda sig við staðreyndir í röksemdafærslu sinni heldur hefur reynt að toga málin eða lýsa aðeins takmörkuðum þætti til að skapa málstað sínum betri stöðu. Ætla ég að rökstyðja þessa niðurstöðu mína með nokkrum dæmum. En ég vil þó segja í upphafi að þetta kemur mér nokkuð á óvart. Ég hélt að hæstv. utanrrh. teldi sig hafa svo traustan málstað að verja út frá sínum eigin forsendum að hann þyrfti ekki að haga málflutningi sínum á þennan veg.
    Fyrsta dæmið sem ég vil nefna er lýsing hæstv. utanrrh. á fyrirvaranum um vinnumarkaðinn. Það hefur rækilega verið rakið hér að lýsing hæstv. utanrrh. er á engan hátt rétt. Munurinn á norræna fyrirvaranum og þeim vinnumarkaðsfyrirvara sem er í þessum samningi er sá að í norræna fyrirvaranum er um einhliða rétt Íslendinga að ræða. Í EES-samningnum geta önnur ríki gripið til gagnráðstafana eða hefnt sín svo maður noti hversdagslegt orðalag.
    Annað dæmi, sem ég vil nefna, er það sem hæstv. utanrrh. hefur sagt um það sem kallað eru gagnkvæmar veiðiheimildir. Hæstv. utanrrh. hefur haldið því fram að um einfalt mál og mjög skýrt væri að ræða og lægi ljóst fyrir. Nú er það hins vegar staðreynd að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í utanrmn. hef ég ekki fengið skýr svör við einfaldasta atriði þessa máls og þegar ég spurði hæstv. sjútvrh. að þessu í utanrmn. þá treysti hann sér ekki til þess að svara spurningu minni og vísaði á hæstv. utanrrh. Þegar ég spurði hæstv. utanrrh. þá fengust heldur ekki skýr svör. Og hvert er efnisatriðið? Það er þetta: Íslendingar hafa á undanförnum árum veitt loðnu töluvert umfram hina formlegu heimild okkar í þeim samningum sem við höfum gert vegna þess að önnur ríki hafa ekki haft áhuga á að veiða þessa loðnu og við höfum þess vegna án mótmæla frá öðrum ríkjum getað veitt töluvert af loðnu umfram okkar formlega kvóta. Spurning mín er sú þegar meta á karfann í skiptum fyrir loðnu, verður þá gengið út frá því sem er hinn formlegi kvóti Íslands eða verður gengið út frá því að Íslendingar þurfi þá að veiða viðbótarloðnu umfram það sem þeir hafa veitt á undanförnum árum án nokkurra mótmæla, hvorki frá Evrópubandalaginu, Grænlendingum né öðrum? Með öðrum orðum, það liggur ekki enn fyrir hvort um er að ræða raunverulegan fisk sem Íslendingar fá að veiða til viðbótar við þann sem við höfum veitt á undanförnum árum eða bara svokallaða pappírsloðnu. Ég ítreka þess vegna spurningar mínar enn á ný hér í dag fyrst hæstv. utanrrh. segir að þetta liggi allt saman ljóst fyrir. Auðvitað er svo ekki og það er þess vegna sem þarf marga viðræðufundi um sjávarútvegssamning Íslands og Evrópubandalagsins vegna þess að þetta atriði er eitt af deiluatriðunum.
    Þriðja dæmið sem ég vil nefna er meðferð hæstv. utanrrh. á fyrirvaranum varðandi rétt okkar Íslendinga til þess að ráða orkumálunum sjálfir. Hæstv. utanrrh. hefur í þeirri umræðu kosið að segja: Jú, við getum sett lög sem tryggir eignarhald okkar á orkulindunum, en hæstv. utanrrh. veit að umræðan snerist ekki aðeins um þetta. Hún snerist um rétt okkar Íslendinga til þess að ráða orkufyrirtækjunum einnig, ekki

bara orkulindunum heldur orkufyrirtækjunum óháð því hvert rekstrarformið væri á orkufyrirtækjunum. Við hefðum með öðrum orðum þjóðarrétt til þess að skipa orkumálum okkar með þeim hætti sem við sjálfir kjósum. Þessi fyrirvari er á engan hátt í samningnum. Það sem er í samningnum er þvert á móti það að ákveði Íslendingar að hafa orkufyrirtækin hlutafélög og bjóða hlutabréfin í þeim til sölu samkvæmt almennum reglum þá hefur sérhver ríkisborgari Evrópubandalagsríkjanna og sérhvert fyrirtæki í Evrópubandalagsríkjunum rétt á því að kaupa þessi hlutabréf. Ég held að ég fari rétt með það að hæstv. utanrrh. hefur aldrei hér í þingsalnum treyst sér í að ræða hvað gerist ef ríkisstjórnin framkvæmir stefnumál sitt að breyta orkufyrirtækjunum í hlutafélög og selja hlutabréfin. Hann hefur alltaf stoppað í máli sínu þar sem hann segir: Jú, auðvitað er hægt að breyta því í hlutafélög en það skiptir ekki höfuðmáli. Hann gefur þar með til kynna að það eigi t.d. bara að vera Landsvirkjun hf. en áfram eigi ríkið og Reykjavíkurborg ásamt Akureyrarbæ öll hlutabréfin. Það er ekki þetta sem verið er að spyrja um. Það er þessi hræðsla hæstv. utanrrh. við að ræða málið allt sem vekur tortryggni því eins og samningurinn liggur fyrir nú þá geta erlendir aðilar eignast öll lykilfyrirtæki á Íslandi nema í útgerð ef ákveðið verður að breyta þeim í hlutafélög og setja á almennan markað. Ég vil segja við hæstv. utanrrh. að ég tel mikið tjón að umræðan um ríkisrekstur eða einkarekstur á Íslandi skuli nú vera komin í þann farveg með þessum samningi að um leið og menn segja einkarekstur þá segja menn einnig: Útlendingar geta eignast fyrirtækin að meiri hluta. Það er því búið að breyta umræðunni um kosti einkarekstrar og kosti ríkisrekstrar yfir í spurninguna um það hvort Íslendingar ráða þessum lykilfyrirtækjum eða ekki. Þannig er t.d. búið að setja ýmsa okkar, sem gjarnan vildum afnema ríkisrekstur á ýmsum sviðum, í þá stöðu að við förum að halda í hann til þess að forða því að erlendir aðilar, stórfyrirtæki eða einstaklingar með aðsetur og hagsmuni í Evrópubandalagsríkjunum, eignist þessi lykilfyrirtæki. Það er satt best að segja furðulegt að hæstv. utanrrh. skuli ávallt skjóta sér undan því að ræða þennan þátt málsins.
    Ég vil í þessu sambandi nefna vatnið. Ég hef gert það nokkrum sinnum en ég hef tekið eftir því að hæstv. utanrrh. hefur aldrei treyst sér í þá umræðu. Margir telja að vatnslindir okkar Íslendinga, ekki til þess að framleiða orku heldur eingöngu til þess að setja vatn á flösku eða dósir og selja sem neysluvöru í útlöndum, sé hin stóra auðlind 21. aldarinnar hvað okkar þjóð snertir. Með þessum samningi er búið að koma í veg fyrir að við getum nýtt þessa auðlind einir líkt og í sjávarútveginum. Samningurinn opnar á það að fyrirtæki eins og Evian eða Perrier yfirtækju algerlega alla þá vinnslu á Íslandi og flyttu arðinn af þessari miklu auðlind að mestu leyti út úr þjóðfélagi okkar. Þess vegna ber auðvitað að harma að hæstv. utanrrh. hafði jafnlítinn áhuga og raun ber vitni að fylgja eftir óskum um það að hinn endanlegi samningur liti þannig út að fjórfrelsið væri að vísu tryggt á sviði viðskipta, þjónustu, fjármagnsflutninga en forræðið yfir auðlindunum öllum og þeim fyrirtækjum sem nýta lykilauðlindir okkar Íslendinga væru í höndum Íslendinga einna.
    Það vekur auðvitað töluverða furðu þegar maður lítur yfir samninginn í dag hve margir fyrirvarar eru frá öðrum aðildarríkjum þessa samnings. Það vekur líka nokkra undrun að í EES-samningnum sjálfum er Álandseyjum veittur réttur til þess að tryggja að eignarhald og forræði yfir fyrirtækjum og landi sé í höndum Álandseyjabúa einna. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh., ef Finnum tókst að tryggja þessa undanþágu, þennan varanlega fyrirvara gagnvart landinu, búsetunni og fyrirtækjunum fyrir íbúa Álandseyja, hvernig stóð þá á því að hinum mikla samningamanni Íslands, hæstv. utanrrh., tókst ekki að tryggja sams konar ávinning fyrir Íslendinga? Við erum eyþjóð eins og Álandseyjabúar. Við erum smáþjóð eins og Álandseyjabúar. Við þurfum að vernda okkur með svipuðum hætti og þeir. Svo kemur bara í lokagerð samningsins að Evrópubandalagið hefur samþykkt slíkan varanlegan fyrirvara inn í samninginn sjálfan fyrir íbúa Álandseyja. Er skýringin sú að utanrrh. Íslands hafði engan áhuga á svipuðum fyrirvara fyrir Íslendinga og er í samningnum fyrir íbúa Álandseyja? Eða er skýringin sú að Finnar voru slyngnari samningamenn og náðu þess vegna fram þessari kröfu? Það væri mjög fróðlegt ef hæstv. utanrrh. vildi víkja að því nokkrum orðum vegna þess að það hefur lítt borið á góma í umræðunni á Íslandi hvaða réttindi eru veitt Álandseyjabúum í samningnum.
    Auðvitað er einnig mikill galli á þessari niðurstöðu þó að það hafi lítið verið rætt í dag að samningurinn í sjávarútvegi, a.m.k. samkvæmt því minnisblaði sem talað er um --- það kann kannski að breytast í endanlegri gerð samningsins --- er í reynd bara til tveggja ára vegna þess að í drögunum er að finna ákvæði á þann veg að á tveggja ára fresti þurfi að semja um málið á nýjan leik og þá geti Evrópubandalagið hvenær sem er komið með viðbótarkröfu. Ég vil í því sambandi spyrja hæstv. utanrrh. af því að hann hefur hvað eftir annað sagt að Norðmenn hafi greitt ákveðinn fórnarkostnað fyrir okkur Íslendinga í þessum samningaviðræðum á sviði sjávarútvegsmála. Ef Norðmenn ganga í Evrópubandalagið og eru þar með komnir inn í þann hring þessa svæðis er auðvitað ljóst að Evrópubandalagið heldur ekki lengur fyrir sig í tvíhliða samskiptum EFTA og EB þessum ávinningi sem Norðmenn greiddu vegna þess að þá væru Norðmenn komnir inn í EB og þá orðnir hluti af því að njóta ávinningsins líka. Ef röksemdir hæstv. utanrrh. hafa verið réttar á undanförnum mánuðum er spurning mín sú hvort Evrópubandalagið hljóti ekki þegar Norðmenn ganga í EB að koma með kröfu um það að Íslendingar fari sjálfir að borga þann fórnarkostnað sem Norðmenn munu hafa greitt að sögn hæstv. utanrrh. fyrr í sjávarútvegsviðræðunum. Með öðrum orðum, ef samningur verður gerður njótum við ekki nema í fáein ár þessarar góðvildar Norðmanna. Þannig er auðvitað fjölmargt í þessu máli sem er óljóst og einnig á annan veg en hæstv. utanrrh. hefur greint frá hér

í umræðunum.
    Ég vil að lokum segja það við hann og fulltrúa ríkisstjórnarinnar að við í stjórnarandstöðunni erum eindregið þeirrar skoðunar að hér eigi að vera vönduð umræða og vinna í málinu. Ég verð að segja að ég varð furðu lostinn að heyra hv. þm. Össur Skarphéðinsson segja í sjónvarpinu í gær: Jú, ef stjórnarandstaðan vill samþykkja það að þessu verði öllu húrrað í gegn á fjórum vikum þá erum við svo sem tilbúin í ýmislegt. Ég vil nefna t.d. að frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna er búið að vera til meðferðar í marga mánuði og hv. þm. Össur Skarphéðsson hefur talið nauðsynlegt að hafa það til meðferðar í marga mánuði. En hann ætlast til þess að samningi um Evrópskt efnahagssvæði sé húrrað í gegn á fjórum vikum með öllum þeim aragrúa af fylgifrumvörpum og hliðarskjölum sem þar verða á borðum þingmanna og verða hærri en þeir hæstu staflar sem hér liggja í dag. Allt þetta vekur auðvitað mikla tortryggni um það að raunverulega sé Alþfl. þeirrar skoðunar að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði þoli ekki vandaða málsmeðferð, hvorki á þingi eða hjá þjóðinni, þoli ekki ítarlega umfjöllun meðal þjóðarinnar, þoli ekki að óháðir aðilar meti það hvort hann stenst stjórnarskrána og þoli alls ekki að vera lagður fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.