Frumvörp um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 14:02:00 (5661)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ræða mín verður væntanlega styttri en ræða hæstv. forseta. Ég vil bara vekja athygli á því að í ljósi þeirrar yfirlýsingar sem liggur fyrir frá ríkisstjórninni er komin upp ný staða í þessu máli þar sem yfirlýsing liggur fyrir um það að lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna verði ekki breytt. Þar af leiðandi hefði verið full ástæða til þess, áður en 2. umr. lauk í iðnn. og sjútvn., að allir nefndarmenn hefðu fengið tækifæri til þess að fá fulltrúa frá opinberum starfsmönnum til þess að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum. Á það var ekki fallist. Hins vegar vil ég að það komi einnig fram að það tilboð lá fyrir í sjútvn. í morgun að taka málið fyrir með þessum hætti á milli 2. og 3. umr. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar töldum það ófullnægjandi en verðum að sjálfsögðu að reyna að haga okkur miðað við þær aðstæður sem við búum. En við erum mjög óánægð með þær.