Frumvörp um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 14:09:24 (5663)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Nauðsynlegt er að það sé alveg skýrt hvað hér er á ferðinni. En það er tillaga um að skerða biðlaunarétt opinberra starfsmanna hjá þessum þremur fyrirtækjum sömu daga og opinberir starfsmenn eru að greiða atkvæði um miðlunartillögu sáttasemjara í trausti þess að ríkisstjórnin standi við yfirlýsingu sína. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar breyttist að vísu í meðförum. Og af því að hæstv. fjmrh. er hér staddur, þá er óhjákvæmilegt að beina sérstaklega orðum til hans. En í drögum að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 24. apríl sagði svo:
    ,,Ríkisstjórnin telur hins vegar óeðlilegt að starfsmenn njóti biðlauna auk fullra launa

verði formbreyting á rekstri stofnana eða fyrirtækja ríkisins.`` --- Stendur yfir ríkisstjórnarfundur, hæstv. forseti? ( Gripið fram í: Þetta er bænastund, ekki trufla.) Við skulum ekki trufla bænastundina. ( Forseti: Ég óska eftir því að það verði regla á fundinum.) Ég tek undir það með hæstv. forseta.
    Þetta ákvæði var fellt niður. Núna ætlar ríkisstjórnin að koma aftan að opinberum starfsmönnum, ganga á bak orða sinna og breyta lagaákvæðum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ríkisstjórnin er að svíkjast aftan að opinberum starfsmönnum þrátt fyrir þetta plagg sem er auðvitað samningur, eða hvað? Ég spyr. Það var mjög athyglisvert sem hv. 1. þm. Vestf. sagði að ríkisstjórnin hefði ekki gert neinn samning heldur birt yfirlýsingu. Er ekki hægt að treysta þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? (Gripið fram í.) Og auk þess er þetta prentað með sáttatillögunni þannig að þetta er partur af því sem verkalýðshreyfingin í landinu er að greiða atkvæði um í landinu þessa dagana.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. alveg beint: Er hann tilbúinn til þess að beita sér fyrir viðræðum við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja um þau ákvæði þessara þriggja frumvarpa sem lúta að réttindum og skyldum opinberra starfsmanna og að meðferð málanna verði frestað hér í þinginu meðan þær viðræður standa yfir nema ríkisstjórnin vilji láta atkvæðagreiðsluna fara fram í þeirri óvissu sem nú er upp komin vegna vinnubragða meiri hluta iðnn. og sjútvn. Vill ríkisstjórnin halda opinberum starfsmönnum í óvissu eða vill hún núna fara í samningaviðræður við opinbera starfsmenn um þessi mál? Ég held að það sé í raun og veru alveg óhjákvæmilegt að umræður um þessi mál, m.a. í þingnefndum og af hálfu ríkisstjórnarinnar, fari fram áður en atkvæðagreiðslunni lýkur. Mér nægir það ekki að formaður iðnn. lofi því að kalla þetta fólk fyrir eftir 2. umr. þegar atkvæðagreiðslunni hjá opinberum starfsmönnum er e.t.v. lokið. Ég held að það sé algerlega óhjákvæmilegt að menn geri sér grein fyrir því að opinberir starfsmenn eiga rétt á því að ríkisstjórnin svari því hér og nú hvernig hún ætlar að leysa þessi mál. Er það ætlun hennar að svíkja þetta plagg meðan það er til meðferðar í allsherjaratkvæðagreiðslu allra stéttarfélaganna í landinu? Og ég endurtek spurninguna til hæstv. fjmrh.: Er hann tilbúinn til að beita sér fyrir því að fram fari nú þegar viðræður við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja þannig að allri óvissu verði eytt áður en atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sáttasemjara lýkur.