Frumvörp um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 14:24:47 (5667)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Yfirlýsing hæstv. fjmrh. áðan var auðvitað mjög alvarleg þegar hann túlkaði kjarasamninga opinberra starfsmanna einhliða með býsna sérkennilegum hætti satt best að segja. Kjarasamningar eru orð á blaði og þeir eru undirskriftir. Þeir eru líka trúnaður og þeir eru líka traust. Ég tel að þær yfirlýsingar, sem hér komu fram frá hæstv. fjmrh., veiki mjög verulega allan grundvöll þeirra samningsdraga sem liggja fyrir milli opinberra starfsmanna og ríkisins. Og ég tel að það sé óhjákvæmilegt að ítreka þá spurningu mína sem ég beindi til hæstv. fjmrh. en hann svaraði ekki: Er hann tilbúinn til að beita sér sjálfur fyrir viðræðum við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja um hin umdeildu ákvæði frumvarpanna þriggja núna áður en atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sáttasemjara lýkur? Það er óhjákvæmilegt að hann svari þessari spurningu. Og í öðru lagi vil ég segja: Ég skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því og hlutast til um að haldnir verði fundir í iðnn. og í sjútvn. í dag eða í fyrramálið til að taka á þeim málum sem hér hafa verið rædd. Ég vil einnig þakka hæstv. forseta fyrir að hafa skapað möguleika til þess að þessi umræða gat farið fram vegna þess að hún er mikilvæg forsenda þess að þingstörfin geti haldið áfram með eðlilegum hætti.
    Ég hef hér beint spurningu til hæstv. fjmrh sem ég vona að hann svari og einnig áskorun til hæstv. forseta um að taka málin í sínar hendur og tryggja að það verði haldnir fundir í iðnn. og í sjútvn.