Frumvörp um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 14:27:03 (5668)


     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Hér er komin upp allsérkennileg staða í annars mjög viðkvæmu máli og ég vil harma hvernig þessi mál hafa þróast. Þegar hæstv. sjútvrh. talaði fyrir nokkru síðan fyrir þremur frv. um sjávarútvegsmál í einu og kom þeim þannig til nefndar eftir samkomulag við fulltrúa stjórnarandstöðunnar, þá vakti ég athygli á því og óskaði eftir því við hæstv. ráðherra að hann beitti sér fyrir því að ríkisstjórnin tæki upp ákveðna og eina stefnu í þessu máli sem ætti við þau þrjú frv. sem þá voru komin fram. Það voru Síldarverksmiðjur ríkisins, Ríkismat sjávarafurða og Sementsverksmiðjur ríkisins.
    Ég trúði því þá af viðbrögðum hæstv. sjútvrh. að þetta yrði gert. Því miður er nú

komið á daginn og við höfum rekið okkur á það í morgum í störfum í þingnefndum að ríkisstjórnin bar ekki gæfu til þess að gera þessa hluti.
    Nú eru menn hins vegar að tala um að kalla nefndirnar saman að nýju og fá fulltrúa frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasambandsins til fundar við sjútvn. og iðnn. Þetta var sú ósk sem borin var fram a.m.k. í sjútvn. í morgun og ef ég hef hlustað grannt var þetta einnig borið fram í iðnn. Við þessu varð ekki orðið og ég held að það hafi verið mistök að gera það ekki en um það þýðir ekki að fást. Meiri hlutinn réði auðvitað ferðinni þó að formaður iðnn. hafi áttað sig á því þegar hann gekk út í sumarið að það hefði verið skynsamlegra að sitja aðeins lengur í nefndinni og hugleiða málið, en sömu viðbrögð voru þar eins og í sjútvn. að taka málið út. Ég óskaði eftir því hins vegar, eins og kom hér fram hjá formanni sjútvn., að nál. yrði þá a.m.k. ekki gefið út strax þannig að minni hlutanum gæfist svigrúm a.m.k. til þess að ræða við fulltrúa BSRB og Kennarasambandsins svo menn gætu glöggvað sig á stöðunni áður en þeir væru látnir ganga frá nefndarálitum og leggja þau fram. Það féllst formaður sjútvn. á og eins og hann sagði áðan verða nefndarálit ekki lögð fram fyrr en á mánudag.
    Nú er það líklega þinglegt að taka málin aftur upp í nefndum þingsins þó svo að meiri hlutinn hafi ákveðið það í báðum tilfellum að ljúka þessum málum og taka þau út á þennan hátt frá nefndunum. Ég skal ekki dæma um það en ég held að hér hafi slysalega tekist til af ríkisstjórninni og henni hefði verið nær að gefa sér betri tíma til þess í upphafi að reyna að marka ákveðnari og skýrari stefnu því vissulega er verið að tala um kjaramál. Auðvitað hafa þeir sem samið hafa um þessi réttindi fórnað einhverju öðru í staðinn í sínum kjaramálum. Auðvitað er það deginum ljósara og þýðir ekkert fyrir fjmrh. að koma upp og segja eitthvað allt annað. Hann veit það að það hefur verið gert.