Frumvörp um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 14:40:00 (5674)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Það þarf að þreyta mig lengi til þess að ég fari að tala um þingsköp. En ég á sæti í sjútvn. og við vorum að fjalla um þessi mál sem hér hafa verið til umræðu í morgun. Ég sé ekki hvernig halda á áfram að fjalla um þessi mál og koma þeim til skila með sómasamlegum hætti frá hv. Alþingi ef ekki verður hægt að fá ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana til að hverfa frá afstöðu sinni. Hæstv. fjmrh. var að koma í annað sinn upp í ræðustólinn til þess, eins og hann sagði, að gera það alveg skýrt hvað ríkisstjórnin meinti. Hann sagði að þessi afstaða færi engan veginn gegn þeirri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að halda inni ákvæðunum í þeim frv. sem verið er að tala um. Það er kannski rétt að rifja ákvæðin upp, fara nákvæmlega yfir það hvað stendur á þessum blöðum. Það stendur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar: ,,Ríkisstjórnin staðfestir að á samningstímanum verði ekki gerðar breytingar á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða reglugerðum sem settar eru með stoð í þeim lögum.`` --- Það stendur þarna skýrt og það stendur í frv. til laga um Síldarverksmiðjur ríkisins, ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins á því ekki við um þá starfsmenn, sem þýðir að ákveðnir starfsmenn ríkisins eru teknir undan lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmenna.
    Hvernig í ósköpunum er hægt að tala svona á hv. Alþingi?