Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 14:45:00 (5677)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Ég ætla að ræða um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
    Á morgun verður ár liðið frá því að sá boðskapur barst úr Viðey að þar hefði verið mynduð ný ríkisstjórn. Ég sé svo sem ekki neina ástæðu til að óska stjórninni til hamingju með afmælið, hvað þá þjóðinni. En þessi stjórn ætlaði sér hvorki meira né minna en að ,,rjúfa kyrrstöðu og auka verðmætasköpun í atvinnulífinu sem skili sér í bættum lífskjörum,`` eins og segir í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar frá 30. apríl 1991. Í þeirri sömu yfirlýsingu segir um aðgerðir stjórnarinnar til að tryggja markmið hennar í menntamálum, með leyfi forseta:
    ,,Að tryggja öllum tækifæri til menntunar við sitt hæfi til þess að búa æsku landsins undir fjölbreytt framtíðarstörf. Dregið verður úr miðstýringu í skólakerfinu og áhersla lögð á starfs- og endurmenntun. Ríkisstjórnin mun efla rannsóknir og vísindastarfsemi og

greinar sem byggjast á hugviti og hátækni.``
    Stefnuyfirlýsingin frá síðasta vori svo og hvítbókin, Velferð á varanlegum grunni, eru vissulega frjálshyggjubókmenntir, fullar fagurgala í þeim anda sem tíðkast í slíkum pappírum. En fátt eitt sem þar leit dagsins ljós gaf til kynna hvað í vændum var af hálfu ríkisstjórnarinnar, jafnvel þótt vandi ríkissjóðs sé hafður í huga.
    Fljótlega kom í ljós að hugmyndir ríkisstjórnarinnar um bætt lífskjör, tækifæri allra til menntunar við sitt hæfi, að ekki sé minnst á að draga úr miðstýringu í skólakerfinu sem annars staðar, voru býsna einkennilegar. Hér er óþarfi að rifja upp torfæruakstur heilbrrh. um lendur velferðarkerfisins síðasta sumar sem haldið hefur áfram eins og hver önnur hrollvekja, mánuð eftir mánuð.
    Ráðherra menntamála vildi líka láta til sín taka og hóf krossferð í anda don Kíkóta með ráðherrasvein sér við hlið sem ekkert gefur eftir þeirri frægu skáldsagnapersónu Sansjó Pansa í yfirlýsingum sínum og athöfnum. Ferðin var farin gegn þeirri miklu eyðslu sem sögð var vera í skólakerfinu. Forsrh. lýsti því yfir á haustdögum að skólakerfið væri of dýrt. Hvorki fékkst hann til að benda á hítina, þrátt fyrir að gengið væri eftir svörum, né til að skilgreina hvað væri of dýrt eða hvers vegna, enda menntmrh. í hinum mesta vanda með niðurskurðinn.
    Munurinn á riddaranum sem barðist við vindmyllur og ráðherra menntamála Íslands er bara sá að vopn riddarans spænska dugðu hvorki til eins né neins meðan ráðherra lýðveldisins ræður yfir stjórntækjum sem valdið geta miklum skaða sé þeim beitt til að knýja fram stefnu í þessu tilviki frjálshyggju í anda Adams Smith, Thatcher og Reagan, sem aldrei hefur verið borin undir íslenska kjósendur og skoðanakannanir sýna að nýtur lítils fylgis.
    Menntmrh. mundaði pennann. Tilskipanir streymdu frá honum undir haust um lokanir skóla, frestun á fyrirhuguðum breytingum, m.a. í Kennaraháskóla Íslands og Menntaskólanum við Hamrahlíð, og boðað var að koma ætti á skólagjöldum, sem tókst þó ekki að koma á nema að hluta til og þá í skólum á háskólastigi.
    Eitt af fyrstu verkum ráðherrans var að setja á laggir nefnd til að endurskoða lög um Lánasjóð ísl. námsmanna undir þeim formerkjum að treysta ætti fjárhagsstöðu sjóðsins til frambúðar og draga úr þeirri byrði sem ríkissjóður hefur af sjóðnum eftir því sem fram kemur í grg. þess frv. sem hér er til umræðu.
    Í nefndinni áttu sæti fulltrúar stjórnarflokkanna, fimm talsins. Á undirbúningsstigi var hvorki leitað samstarfs við stjórnarandstöðuna né námsmenn í þessu mikilvæga hagsmunamáli þjóðarinnar allrar sem auðvitað þarf að ríkja sátt um rétt eins og menntamálin almennt.
    Í byrjun október skilaði nefndin af sér og þá fyrst var ljóst að ætlunin var að gjörbreyta Lánasjóði ísl. námsmanna og skipa honum á bekk sem hverjum öðrum fjárfestingarlánasjóði þar sem einstaklingarnir fjárfesta í framtíð sinni og borga fyrir mun hraðar en áður með vöxtum og lántökugjöldum. Þessar tillögur boðuðu algjör tímamót í sögu námslána á Íslandi. Þótt ríkisstjórnin hafi verið knúin til að draga verulega í land vegna harðrar andstöðu stjórnarandstöðunnar, og þó einkum íslenskra námsmanna, hér heima sem erlendis, er frv. eins og það lítur út í upphafi 2. umr. algjörlega óásættanlegt fyrir okkur kvennalistakonur, enda leggjum við til ásamt öðrum stjórnarandstæðingum í menntmn. að málinu verði vísað frá. Fáist frávísunartillagan ekki samþykkt leggjum við fram ítarlegar brtt. til að bjarga Lánasjóði ísl. námsmanna úr þeim tröllahöndum sem nú kreista hann og pína. Ástæðurnar fyrir því að við kvennalistakonur leggjumst gegn þeim breytingum sem stjórnarliðar hyggjast gera á sjóðnum eru eftirfarandi:
    1. Við erum ósammála þeirri hugmyndafræði sem býr að baki frv., þeim hugmyndum sem skína þar í gegn um menntun og hvernig staðið skuli að stuðningi samfélagsins við námsmenn.
    2. Við erum andvígar þeirri leið sem farin er í frv. þrátt fyrir að nokkuð hafi verið hvikað frá fyrri áformum.
    3. Við munum greiða atkvæði gegn þessu frv. vegna þeirra afleiðinga sem breytt

lög munu hafa annars vegar fyrir íslenska námsmenn í nútíð og framtíð og þá ekki síst konur og hins vegar áhrifin sem breytingarnar munu hafa á menntakerfi þjóðarinnar.
    Öllum þeim sem spá í framtíðina ber saman um að aukin og bætt menntun sé lykillinn að þróun veraldarinnar í átt til aukins jöfnuðar milli þjóða, betra umhverfis, bættra lífskjara fyrir stóran hluta mannkyns og friðar í heiminum. Við þurfum menntun og hugvit til að bæta þau hrikalegu umhverfisspjöll sem unnin hafa verið á náttúrunni. Við þurfum menntun til að prófa nýja tækni eða til að bæta þá gömlu svo að ríkjandi framleiðsluhættir verði jörðinni vinsamlegri en hingað til. Við þurfum menntun til að hægt verði að útrýma mannskæðum sjúkdómum, draga úr fátækt og misskiptingu í heiminum. Við þurfum menntun til að auka umburðarlyndi og skilning milli manna, menntun til að jafna stöðu kynjanna, menntun til að auðga mannlífið að menningu og visku og til að gera lífið betra. Við Íslendingar þurfum aukna áherslu á menntun og rannsóknir, ekki síst til að skjóta fleiri stoðum undir allt of einhæft atvinnulíf sem nú á í miklum vanda.
    Á undanförnum árum hafa miklar umræður átt sér stað víða um heim um menntastefnu, skólakerfi og það hvers konar menntun framtíðin kalli á. Menn hafa uppgötvað að ólæsi fer vaxandi í iðnríkjunum. Bókin hefur vikið fyrir hvers kyns myndmiðlum og það sem kallað er almenn þekking hefur minnkað. Stjórnvöld, t.d. í Bandaríkjunum, hafa brugðist við með því að beina auknu fé til skólakerfisins þrátt fyrir mikinn halla á ríkissjóði. Í Finnlandi er leitast við að hlífa skólakerfinu þrátt fyrir mikla efnahagsörðugleika. Í ríkjum eins og Kanada, Japan og Sviss eru kennurum greidd mjög góð laun vegna þess að stjórnvöldum er ljóst að gott skólakerfi og góð kennsla er leiðin til framfara og blómlegs atvinnulífs.
    En ólíkt höfumst við að. Hér á landi hafa stjórnvöld brugðið niðurskurðarhnífnum á loft og sneitt alla vaxtarbrodda af íslensku skólakerfi. Minni kennsla og verri aðbúnaður er það sem blasir við og var þó ekki á bætandi.
    Breytingarnar á Lánasjóði ísl. námsmanna eru grein af meiði niðurskurðarins í velferðarkerfinu þótt þær skili sér ekki fyrr en eftir mörg ár í auknum tekjum sjóðsins og minna framlagi ríkissjóðs. Námsmenn og skólar munu hins vegar finna fyrir breytingunum og afleiðingunum strax. Hugsunin sem að baki býr er sú að létta beri af ríkissjóði fyrirsjáanlegum framlögum til lánasjóðsins sem þyrftu að fara vaxandi á næstu árum vegna fjölgunar námsmanna og þeirra lána og vaxta sem sjóðurinn þarf að standa skil á næstu áratugi. Hugsunin er einnig sú að hér séu á ferð lán til einstaklinga sem líta beri á eins og hver önnur fjárfestingarlán, ekki að um sé að ræða hluta af félagslegu kerfi, ekki fjárfestingu sem kemur þjóðfélaginu öllu til góða og sem beri að taka á með öðrum hætti en almennar lánveitingar banka og lánastofnana. Þetta undirstrikaði hæstv. menntmrh. í orðum sínum er hann talaði um námslán sem hagstæðustu lánin á markaðnum og þarna greinir mjög á milli sjónarmiða stjórnar og stjórnarandstöðu. Þarna stingur markaðshugsunin upp kolli. Hver og einn sem hyggst leggja stund á framhaldsnám á þess kost að taka lán á vöxtum. Námsvalið verður auðvitað að taka mið af því að starf að námi loknu gefi af sér nægar tekjur til að standa undir lánunum, framfærslu einstaklinga og fjölskyldu og öflun eigin húsnæðis eða leigu. Af þessu leiðir að verið er að beina þeim sem þurfa að taka námslán í svokallað arðbært nám, nám sem gefur af sér vel borgaða vinnu. Annað nám verður þá að mæta afgangi í samræmi við framboð og eftirspurn á vinnumarkaði nema námsmenn eigi annarra kosta völ svo sem aðstoð foreldra. Um námsstyrki verður ekki að ræða að sinni.
    Enn ein leið sem námsmenn geta farið í viðbrögðum sínum við breytingunum á lánasjóðnum er sú sem tíðkaðist fyrir 1970, áður en barátta námsmanna fyrir bættu lánakerfi hófst fyrir alvöru. Hún fólst í því ýmist að vinna með námi sem varð til þess að lengja námstímann verulega eða þá að ná sér í fyrirvinnu. Hver vill hverfa aftur til þeirra tíma og á hverjum skyldu þessar breytingar bitna? Fyrst og fremst þeim sem lægst hafa launin og það eru sem kunnugt er konur í miklum meiri hluta. Og hvað þýðir þetta fyrir framtíðina? Eigum við eftir að horfa upp á enn meiri skort á starfsfólki í heilbrigðisgreinum nema kannski læknisfræði? Á að þurrka kennarastéttina út? Hvað um listnám?

Fleiri greinar mætti nefna. Hverjar verða afleiðingarnar? Ég mun fjalla betur um það síðar í ræðu minni.
    Ég held að menn geri sér ekki almennt ljóst hvað Lánasjóður ísl. námsmanna hefur gefið mörgum, sem hefðu ekki átt þess kost, tækifæri til að mennta sig og hve gífurlega þýðingu hann hefur haft á menntunarstig þjóðarinnar og alla okkar menningu. Í krafti sjóðsins hefur ungt fólk sótt sér menntun til nánast allra heimsálfa og borið heim með sér nýja menningarstrauma og þekkingu sem því miður hefur verið illa nýtt og illa metin af samfélaginu en það er annað mál. Ég vil vera svo stórorð að halda því fram að Lánasjóður ísl. námsmanna sé eitthvert merkilegasta jöfnunartæki íslenska velferðarkerfisins og að hann hafi hreinlega þýtt byltingu og þá sérstaklega fyrir íslenskar konur.
    Eftir 1970 fór konum fyrst að fjölga fyrir alvöru í háskólanámi hér á landi og erlendis. Sú sókn hefur haldið áfram fram á þennan dag, samfélaginu til góðs. Þökk sé vitundarvakningu íslenskra kvenna og Lánasjóði ísl. námsmanna sem einn opinberra stofnana, þar sem framfærsla fólks er til meðferðar, hefur viðurkennt að það kostar peninga að eiga börn og að ala upp börn. Sjóðurinn hefur gefið börnum þeirrar kynslóðar sem m.a. vegna fátæktar naut takmarkaðrar menntunar en dreymdi um menntun, tækifæri sem aldrei verður ofmetið. Það er því ekki að ástæðulausu að við kvennalistakonur, sem sumar hverjar eru komnar vel á veg með að borga okkar námslán og höfum notið góðs af þessu kerfi, rísum upp til varnar. Við viljum að öðrum gefist kostur á menntun. Við viljum að straumar alþjóðlegrar menningar og mennta haldi áfram að leika um Ísland eins og þeir hafa gert frá því á dögum Ísleifs Gissurarsonar biskups í Skálholti á 11. öld. Við viljum sjá sókn í menntamálum í stað þeirra hraksmánarlegu varnarstöðu sem verið er að hrekja allt skólakerfið í.
    Herra forseti. Það er mjög í tísku um þessar mundir að fagna auknu frelsi, samkeppni og hampa ótvíræðum kostum markaðshagkerfisins í kjölfar þeirra miklu breytinga sem orðið hafa í Evrópu og þess hugmyndalega uppgjörs sem fylgt hefur. Allt er þetta sagt gott í sjálfu sér. En frelsi til hvers? Samkeppni til hvers? Hvað á að leiða af hinu frjálsa markaðskerfi? Hvert liggur leiðin? Því er ekki svarað.
    Á 19. öldinni réði frjálst markaðskerfi ríkjum í Englandi. Þar fékk hver að uppskera svo sem til var sáð. Þeir fengu menntun sem efni höfðu á henni eða unnu til styrkja. Þeir bjuggu við góð lífskjör sem voru svo heppnir að fæðast með silfurskeið í munni eða komu sér áfram á einhvern hátt. Allur almenningur bjó við hörmuleg lífskjör, fátækt og menntunarskort. Þar kom að stjórnvöldum varð ljóst að þjóðfélagið var að þróast í átt til algerrar villimennsku þar sem frumskógalögmálin réðu ríkjum í yfirfullum borgum. Arfur kynslóðanna barst ekki frá foreldrum til barna. Stórum hluta uppvaxandi kynslóðar var þrælað út langt fyrir aldur fram meðan hinir eldri voru atvinnulausir. Þar kom að gripið var í taumana með því fyrst og fremst að koma börnum í skóla og koma lögum yfir vinnumarkaðinn. Skuggahliðar hins frjálsa markaðskerfis kölluðu á mikla mannréttindabaráttu, einkum verkafólks og kvenna, sem loks fæddi af sér það velferðarkerfi sem við nú búum við en margir vilja greinilega feigt. Það er ljóst að þeir eru allmargir sem horfa mjög til hugmynda frjálshyggjunnar eins og þær voru fram settar undir lok 18. aldar og þróuðust á 19. öld þegar aðstæður voru allt aðrar en nú og skuggahliðarnar virðast löngu gleymdar. Þær hugmyndir sem liggja að baki þeim breytingum sem verið er að gera á Lánasjóði ísl. námsmanna eru ættaðar frá frjálshyggjunni hvort sem höfundinum er það ljóst eður ei. Það á að gera þennan merka jöfnunarsjóð að hluta markaðskerfisins. Vextir á lánunum eiga að draga úr eftirspurn og þótt þeir séu lágir nú eða verði lágir, þ.e. ef lögin verða samþykkt, er opnað fyrir þann möguleika að hækka þá síðar til að draga enn frekar úr eftirspurninni. Vaxtamúrinn, sem námsmenn hafa varið árum saman, verður rofinn og nýtt stýritæki tekur völdin. Komi fram veruleg eftirspurn á vinnumarkaðnum eftir menntun af einhverju tagi með glæsilegum launatilboðum ýtir það væntanlega undir lántöku og hvernig bregðast markaðsöflin við því? Með hærri vöxtum eða hvað?
    Ungt fólk sem ætlar í nám hlýtur að hugsa sig um tvisvar og þrisvar áður en nám er valið og lán tekið. Ungt fólk með börn á framfæri hlýtur að útiloka þann möguleika að

hefja nám nema það sjái fram á því betur borgað starf. Launabarátta háskólamanna og annarra sem taka lán til náms hlýtur að taka mið af vaxandi námsskuldum og þyngri greiðslubyrði svo og því hvernig í ósköpunum fólk eigi að koma sér upp þaki yfir höfuðið.
    Það er auðvitað margt sem getur haft áhrif á þróun menntakerfisins á næstu árum en sú stefna sem mörkuð er með þessu frv. dregur úr jafnrétti til náms þótt öðru sé haldið fram af flm. Það getur ekki leitt til annars en að það dragi úr jafnrétti til náms. Þessi stefna mun gera konum mun erfiðara fyrir en áður að afla sér menntunar og hún getur átt eftir að valda ófyrirséðri röskun á íslenskum vinnumarkaði.
    En þar með er ekki sagt, herra forseti, að engra breytinga sé þörf. Sjóður sem veltir jafnmiklum fjármunum og Lánasjóður ísl. námsmanna gerir þarf að sjálfsögðu alltaf að vera til skoðunar. Það þarf reglulega að skilgreina markmið hans upp á nýtt og kanna hvort sjóðurinn gegnir hlutverki sínu. Það á að spyrja: Hvernig nýtast peningarnar? Er ástæða til að ýta á einhvern hátt undir fjölgun nemenda í ákveðnum námsgreinum, t.d. fiskifræði og veðurfræði svo dæmi séu tekin, og reyna jafnvel að draga úr aðsókn að öðrum? Á ekki þjóðfélagið að skilgreina þörf sína fyrir menntun? Þar með er ég ekki að leggja til boð eða bönn hvað varðar námsval.
    Aðrar leiðir eru til, svo sem námsstyrkir. Það þarf að skoða úthlutunarreglurnar að nýju og taka tillögur námsmanna um þær til rækilegrar skoðunar. Það er vissulega rétt að Lánasjóður ísl. námsmanna á við vissan vanda að stríða eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 1991. Þar kemur fram að vaxtamunurinn, sem sjóðurinn stendur frammi fyrir og þar er reiknað með að hann sé um 6%, muni leiða til þess að um 40 milljarðar verði bundnir í þessu kerfi innan 10 ára og 60 milljarðar innan 20 ára. Auðvitað eru það miklir peningar en það eru til aðrar leiðir til að leysa þennan vanda.
    Sá vandi sem lánasjóðurinn stendur frammi fyrir felst m.a. í því að stjórnvöld hafa tekið þá ákvörðun að beina nánast öllu ungu fólki í langskólanám með ofuráherslu sinni á bóklegt nám en af þeirri stefnu hefur leitt að námsmönnum hefur fjölgað verulega í háskólanámi þótt fleira komi þar einnig til. Með tilkomu nýrra framhaldsskóla og þar með fjölgun nemenda hefði auðvitað átt að vera ljóst að lánþegum sjóðsins hlyti að fjölga um leið og þar með að sjóðurinn kallaði á meira fé. En það er eins og það komi stjórnvöldum alltaf jafnmikið á óvart þegar ákvarðanir þeirra á einum stað hafa einhverjar afleiðingar á öðrum. Þó er það fyrst og fremst sú stefna ríkisvaldsins að beina Lánasjóði ísl. námsmanna út á almennan lánamarkað sem veldur því að sjóðurinn stefnir í nokkurn vanda. Ríkissjóður hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar en það leiðir til þess að æ stærri hluti af fé sjóðsins fer í afborganir af lánum og vöxtum. Sjóðurinn þarf því meira fé á næstu árum. Það er öllum ljóst. Það er hins vegar rangt að um einhvern sérstakan fortíðarvanda sé að ræða eða að lögin hafi gengið sér til húðar vegna mikillar fjölgunar námsmanna eins og fram kom í máli ráðherra sl. mánudag. Þótt allar tillögur meiri hlutans verði samþyktar verður sjóðurinn ekki kominn í plús fyrr en eftir marga áratugi. En það á auðvitað ekki að vera hlutverk Lánasjóðs ísl. námsmanna að græða á námsmönnum. Vandinn liggur í framtíðinni og með þeim tillögum sem hér liggja fyrir verður námsmönnum framtíðarinnar gert að leysa hann. Við viljum hins vegar að ríkisvaldið leysi þennan vanda, m.a. með yfirtöku hluta skuldanna.
    Það þýðir ekkert fyrir hæstv. menntmrh. að skýla sér á bak við tregðu fjárveitingavaldsins, þ.e. Alþingis. Það eru ríkisstjórnir fyrir ára og sú sem nú situr sem bera alla ábyrgð á því hvernig komið er. Því miður sitja og standa þingmenn núv. meiri hluta á Alþingi eins og þeim er sagt, það hefur svo sem gerst áður, og þeir samþykkja fjárveitingar sem allir vita að engan veginn duga til lögbundinna verkefna. Þingmönnum ber að standa vörð um löggjafarhlutverkið, vanda sig í lagasetningum og sjá til þess að lögum sé framfylgt. Þess í stað er það látið viðgangast að hver sjóðurinn á fætur öðrum sé eyðilagður með því að beina þeim út á almennan lánamarkað og nægir þar að benda á húsnæðissjóðina. Allt snýst þetta mál um það hvernig við verjum sameiginlegum sjóðum okkar. Við kvennalistakonur viljum verja þeim fyrst og fremst til bættrar menntunar og betri heilsugæslu. Við kvennalistakonur höfum margoft bent á leiðir til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð í umræðum á Alþingi og ekki hef ég á móti því þótt hluti þeirra peninga rynni til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Því vísa ég röksemdum hæstv. menntmrh. á bug varðandi framtíð Lánasjóðs ísl. námsmanna.
    Virðulegi forseti. Ég hef fjallað í ítarlegu máli um þær hugmyndir sem búa að baki frv. og nokkuð um þær afleiðingar sem ég tel að frv. muni hafa verði það að lögum. Ég ætla nú að snúa mér að einstökum þáttum frv. og þeim brtt. sem meiri hluti menntmn. hefur lagt fram en þær lýsa að sjálfsögðu einnig þeim hugmyndaheimi sem hér er á ferð.
    Frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna var sent fjölmörgum aðilum til umsagnar og verður ekki annað sagt en að viðbrögðin sýni hve annt fólki er um sjóðinn. Í álitinu kom fram mikil gagnrýni á stefnu frv. svo og mjög gagnlegar ábendingar sem leiddu ásamt öðru til þess að verulegar breytingar eru lagðar til á frv. frá því sem var í upphafi þótt þær breytingar dugi hvergi nærri til til þess að við kvennalistakonur treystum okkur til þess að styðja frv.
    Í 1. gr. frv. er gerð sú breyting að lán ber að veita námsmönnum án tillits til efnahags. Þar með telur meiri hlutinn sig vera að tryggja jafnrétti til náms. Það má segja að jafnrétti til að taka lán sé tryggt en hinn ójafni eftirleikur, eftir því hvaða nám er valið, mun leiða í ljós það sem ég hef áður sagt að það er verið að hverfa frá jafnrétti til náms og stefna til einhæfara námsvals.
    Þá kom fram veruleg gagnrýni í þeim umsögnum sem nefndinni bárust á það atriði að miða ætti lánin við 20 ára aldur þegar um er að ræða lán til sérnáms. Það hefði komið afar illa niður á ákveðnum hópum námsmanna t.d. iðnnemum. Horfið var frá þessu og ber að fagna því.
    Þá er lagt til að við útreikning lána verði tekið tillit til fjölskylduaðstæðna, eins og gert er í núgildandi lögum, og ég fagna því einnig að þessi breyting skyldi fást í gegn. Hins vegar hróflar meiri hluti menntmn. ekkert við skipan stjórnar lánasjóðsins né því mikla valdi sem stjórninni er falið en ég tel að réttara hefði verið að kveða skýrar á í lögunum um hlutverk stjórnarinnar í málefnum sjóðsins í stað þess að vísa til reglugerða og gefa stjórninni jafnmikið úrskurðarvald og raun ber vitni. Þessi atriði skipta að sjálfsögðu miklu máli en þau meginatriði frv. sem ég vil sérstaklega gagnrýna eru eftirfarandi sjö atriði:
    Í fyrsta lagi eru það vextirnir. Eins og frv. lítur nú út með þeim brtt., sem lagðar hafa verið fram, er ætlunin að koma á vöxtum allt að 3%. Ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið að miða við 1% vexti. En með þessu ákvæði er búið að breyta ákveðnu grundvallaratriði í lánastarfsemi sjóðsins og við hljótum að spyrja, hversu lengi stendur þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar? Það er búið að opna fyrir þann möguleika að hækka vextina upp í allt að 3% og spurningin er: Hvenær kemur fram lagabreyting þess efnis að vextirnir verði í samræmi við vexti á almennum lánamarkaði? Það er alveg augljóst að þetta atriði skilar sjóðnum langsamlega mestu til baka jafnframt því að draga úr umsóknum um lán í sjóðnum og það er auðvitað megintilgangurinn að draga úr ásókn í námslán.
    Annað atriði sem ég vil gera að umtalsefni er það sem kallað hefur verið eftirágreiðslur, þ.e. að námsmenn fá ekki greidd lán fyrr en þeir eru búnir að skila vottorðum um námsárangur og þetta gildir um alla námsmenn á öllum námstímanum en nær nú aðeins til fyrsta árs nema. Þetta þýðir að allur þorri námsmanna verður að framfleyta sér í það minnsta fram yfir áramót, sumir allan veturinn, á sumarhýrunni eða bankalánum nema um aðstoð frá foreldrum sé að ræða. Margir nemendur, einkum þeir, sem stunda nám í Bandaríkjunum og Bretlandi, þurfa að standa skil á skólagjöldum og í mörgum tilfellum mjög háum skólagjöldum og það er vandséð hvernig fólk á að gera það með þessum reglum. Við höfum mótmælt þessu atriði harðlega og teljum að með þessu sé verið að gera námsmönnum afar erfitt fyrir. Rök meiri hlutans eru þau að sjóðurinn hafi veitt allt að 50 millj. kr. í svokölluð ofgreidd lán. Er réttlætanlegt að refsa öllum námsmönnum vegna þess að einhver tiltekinn hópur hættir í námi eða skilar ekki þeim árangri sem til er ætlast? Það er ekki verið að mótmæla því að það séu gerðar strangar kröfur til námsmanna um námsárangur en eins og þetta er nú í frv. þá er það mjög óréttlátt og mun verða til þess að gera

fjölda námsmanna mjög erfitt fyrir.
    Þriðja atriðið er það að nú er byrjað að borga af námslánunum tveimur árum eftir að námi lýkur en áður voru það þrjú ár. Þetta veldur því að fólk sem er að koma heim úr námi eða lýkur námi sínu hér á landi hefur aðeins tveggja ára svigrúm til að afla sér húsnæðis en svo sem kunnugt er þá lenda flestir í því að verða að koma sér upp húsnæði á einhvern hátt. Samkvæmt því áliti sem kom frá Húsnæðisstofnun ríkisins telja þeir að þetta frv. feli í sér 10--30% skerðingu á möguleikum námsmanna til þess að afla sér eigin húsnæðis. Þetta muni verða til þess að auka ásókn eftir félagslegu húsnæði, auka ásókn í íbúðir Búseta og kaupleiguíbúðir.
    Í fjórða lagi vil ég nefna lántökugjöldin sem enn undirstrika markaðshugsunina sem felst í þessu frv. en þeim er auðvitað ætlað að standa undir kostnaði við lánin en verða jafnframt til þess að rýra þau lán sem námsmenn fá í hendur.
    Í fimmta lagi vil ég nefna þyngri greiðslubyrði. Í frv. felst að byrjað er að borga tveimur árum eftir að námi lýkur, eins og ég gat um áðan, og þá er farið að borga lán á vöxtum og horfið var til þess forms sem áður gilti að annars vegar væri um að ræða fasta afborgun, hins vegar tekjutengda afborgun. Fasta afborgunin er samkvæmt núverandi vísitölu 48 þús. kr. en síðari afborgunin miðast við 5% af útsvarsstofni fyrstu fimm árin og 7% eftir það. Og það má ljóst vera að þetta veldur mun þyngri greiðslubyrði en er í núverandi kerfi og hefur þó ýmsum reynst erfitt að standa undir þeim greiðslum.
    Spurning, sem skilin er eftir í frv. án þess að henni sé svarað, er sú hvað gerist eftir að lánþegar verða 67 ára. Það er alveg ljóst samkvæmt þeim útreikningum sem liggja fyrir að nokkur hluti lánþega mun verða í þeirri stöðu við 67 ára aldur að eiga eftir að borga nokkurn hluta námslánanna. Það er lagt í hendur stjórnarinnar að leysa þetta mál en við í minni hluta menntmn. leggjum til að lánin verði einfaldlega felld niður við 67 ára aldur.
    Það má geta þess að í frv. er gert ráð fyrir því að fólk, sem lendir í báðum lánakerfunum, þ.e. núgildandi kerfi og því sem fram undan er, byrji á því að greiða nýju lánin og taki síðan til við að borga upp þau gömlu og það er ekki ljóst hvað þetta þýðir fyrir lánþega. Fólk verður fram eftir öllum aldri að greiða þessi lán en þetta gæti líka þýtt að afföllin í núverandi kerfi muni aukast, að fólk komist einfaldlega aldrei í það að borga gömlu lánin. En þetta er atriði sem þyrfti að skoða betur.
    Í sjöunda og síðasta lagi er vísað til þess í greinargerð að í frv. eins og það lítur út núna er ekki gert ráð fyrir neins konar námsstyrkjum en það er sendur óútfylltur tékki til Vísindasjóðs sem á harla lítið fé og samkvæmt umsögn hans er algerlega óvíst hvort Vísindasjóði takist á nokkurn hátt að styrkja námsmenn. Ég tel það afleit vinnubrögð að lofa því út í loftið að Vísindasjóður verði efldur en þrátt fyrir það sem ég vitnaði til hér í upphafi um vilja ríkisstjórnarinnar til að efla vísindarannsóknir, þá bera fjárlögin þess merki að sá vilji er harla lítill.
    Þetta eru þau meginatriði í þessu frv. sem valda því að við kvennalistakonur getum ekki stutt það en þar vega auðvitað langsamlega þyngst ákvæðin um vexti á námslán, eftirágreiðslurnar og þyngri greiðslubyrði því að við hljótum að horfa til framtíðar þegar við erum að meta það hvernig aðstoð samfélagsins til námsmanna eigi að vera.
    Sl. mánudag gerði talsmaður minni hluta menntmn., hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, grein fyrir þeim brtt. sem minni hlutinn leggur til. Ég ætla ekki að sinni að víkja frekar að þeim, ég mun gera það síðar í umræðunni ef þörf krefur, en mig langar að lokum að víkja nokkuð að því sem fram kom í máli menntmrh. sl. mánudag. Hann gat þess að lögin væru gengin sér til húðar sem kæmi best fram í því hver staða sjóðsins væri en ég vil meina að orsökin fyrir stöðu sjóðsins sé eins og ég gat um áðan fyrst og fremst sú að ríkið hefur ekki staðið við sínar skuldbindingar. Það hlýtur að vera krafa okkar þegar lög eru samþykkt að ríkið standi við sínar skuldbindingar. Ekkert er mikilvægara en það.
    Menntmrh. gat þess líka að ef frv. yrði fellt yrði að skerða námslánin þegar í stað. Sú yfirlýsing hans sýnir hvað best hvaða áhrif þessi lög ef samþykkt verða munu hafa á Lánasjóð ísl. námsmanna þegar á þessu ári. Þar er ekki aðeins um það að ræða að það

muni draga verulega úr umsóknum um lán, heldur gerist það einnig vegna eftirágreiðslnanna að 800--1000 millj. verður velt yfir á næsta ár. Menntmrh. sagði að minni hluta menntmn. yrði auðvitað að svara því hvernig ætti að fjármagna sjóðinn fyrst við gætum ekki stutt frv. með þessum hætti og ég vísa til þess sem ég sagði hér áðan. Það er ekki bara um það að ræða að skera niður fé í ríkiskerfinu. Það er líka hægt að afla fjár og við höfum margoft bent á leiðir til þess að afla fjár. Ég vil þar nefna hærra skattþrep, skatta á fjármagnstekjur, bætta innheimtu, að taka á svarta markaðnum og fleira mætti þar telja.
    Menntmrh. nefndi atriðið varðandi Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Það er rétt sem fram kom í máli hans að þegar það atriði var sett inn í lögin á sínum tíma þá tengdist það húsnæðiskerfinu sem komið var á 1986, en þetta atriði skiptir máli enn þá fyrir þá sem eru fyrirhyggjusamir og hugsa til framtíðar því að inneign í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda veldur því auðvitað að fólk á kost á láni úr þeim sjóði fyrr en ella.
    Menntmrh. minntist einnig á þá tillögu okkar að við vildum fjölga í stjórninni og taldi slíka tillögu óþarfa. Hann nefndi að fulltrúi Bandalags ísl. sérskólanema gæti tekið upp mál iðnnema. Nú vill svo til að iðnnemar, sem eru býsna stór hluti námsmanna, eru ekki aðilar að Bandalagi ísl. sérskólanema og því ekki óeðlilegt að þessi stóri nemendahópur fái aðild að stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna. Við lögðum til að þar á móti kæmi annar fulltrúi ríkisins og yrði hann sóttur til samstarfsnefndar skólanna á háskólastigi. Hugsunin á bak við það var sú að það gæti verið mjög til gagns að fá sjónarhorn skólakerfisins, þeirra sem stjórna skólunum inn í stjórnina. Það gæti einungis orðið til bóta.
    Að lokum, herra forseti, vil ég draga saman það sem ég tel að muni verða afleiðingar þessa frv. verði það að lögum. Afleiðingarnar munu í fyrsta lagi verða þær að námsmönnum í háskólanámi og framhaldsnámi mun fækka og eins og ég hef getið þá er það tilgangur þessa frv. að hluta til. Það er fróðlegt að velta fyrir sér þeirri spurningu hvaða áhrif þessar breytingar munu hafa á barneignir námsmanna. Íslenskir námsmenn hafa haft þá sérstöðu að eignast börn á sínum námstíma. Þetta er ekki mjög ólíkt því sem gerist í öðrum löndum og ég kannast ekki við annað en þessu hafi verið tekið býsna vel hér á landi og menn hafi frekar viljað ýta undir fjölgun þjóðarinnar en hitt en það verður fróðlegt að sjá hvað gerist í þeim efnum.
    Það er verið að gera þeim, sem stunda nám í námsgreinum þar sem menn vita að laun eru ekki allt of há, þar má nefna t.d. kennaramenntun, hjúkrunarfræði og fleiri slíkar greinar, greinar þar sem konur eru í meiri hluta, mjög erfitt fyrir. Fólk hlýtur að hugsa sig um tvisvar og þrisvar áður en það fer út í slíkt nám vegna þess að það er afar erfitt að sjá hvernig fólk á að geta staðið undir þessum lánum og jafnvel að sjá fram á að vera fram á elliár að greiða upp lánin. Ég tel að þetta frv. dragi úr jafnrétti til náms. Það gerir konum erfiðara fyrir og ég tel líka að hér sé markaðshugsunin að taka völdin í félagslegu kerfi og því er ég andvíg.
    Við kvennalistakonur viljum standa vörð um Lánasjóð ísl. námsmanna sem jöfnunartæki. Við viljum tryggja jafnrétti til náms og við viljum tryggja að konum gefist kostur á námi til jafns við karla eins og ríkt hefur hér um nokkurt skeið. Við viljum líka tryggja aukna fjölbreytni í menntun, menntun sem kemur úr öllum áttum. Við viljum fyrst og fremst að ríkið standi við skuldbindingar sínar og treysti fjárhag sjóðsins. Við erum að tala um fjárfestingu í þágu allrar þjóðarinnar. Hún er dýr og hún verður alltaf dýr, en hún er þess virði.
    Við höldum hér uppi skólakerfi, vegakerfi, heilbrigðiskerfi með okkar sameiginlegu sjóðum og að okkar dómi á það sama að gilda um Lánasjóð ísl. námsmanna. Hann er hluti af velferðarkerfinu þótt ýmsu megi breyta í rekstri hans eins og reyndar í öllu ríkiskerfinu til þess að tryggja að það þjóni þeim tilgangi að standa vörð um almannahag.
    Herra forseti. Í upphafi máls míns rifjaði ég upp nokkur markmið núv. ríkisstjórnar um það að rjúfa kyrrstöðu í atvinnulífinu og að tryggja möguleika allra til menntunar. Með því frv. sem hér er til umræðu gengur ríkisstjórnin þvert gegn markmiðum sínum. Þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á Lánasjóði ísl. námsmanna munu draga úr nýsköpun í atvinnulífi og auka misrétti í menntun. Ríkisstjórn, sem svo er komið fyrir rétt í þann mund

sem hún á eins árs afmæli að vinna á flestum sviðum gegn yfirlýstu markmiði sínu, á að segja af sér.