Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 21:22:20 (5681)


     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru ekki ólíkar athugasemdir sem ég var með í huga og hv. 18. þm. Reykv. kom fram með. En mig langar til að spyrja bara beint að því: Hvers vegna voru ekki tekin inn í 1. gr. orðin ,,jafnrétti til náms``? Þótti meiri hlutanum fallegra orðalag að segja ,,tækifæri`` eða leggur meiri hlutinn sömu merkingu í þessi orð? Ég geri það ekki. Það var búið að tala um það í nefndinni að það yrði tekið inn í 1. gr. ákvæði um jafnrétti til náms en þegar brtt. birtist þá stóð ,,tækifæri til náms``. Fyrir utan það hvað mér finnst þetta ljótt orðalag þá finnst mér það alls ekki þýða það sama.
    Af því hv. þm. virtist nokkuð sannfærður um að enginn þyrfti að hrekjast frá námi þá vil ég spyrja að því hvernig hún sér fyrir sér að laganemi komist í gegnum sitt nám, sem fær aldrei lán í hendur fyrr en að sumri að loknu námi allan veturinn. Getur hann annað en verið á lánum í bankakerfinu allan veturinn og getur hann gert annað en að nota lánið þegar það kemur í júní eða júlí til að greiða bankalánið? Þannig að hann er að greiða vexti allan námstímann sem er í þversögn við það sem haldið er fram af meiri hlutanum í brtt. að lán séu vaxtalaus á námstímanum. Það er reyndar ekki svo.