Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 22:15:34 (5684)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það eru nokkur atriði í ræðu hv. þm. sem ég þyrfti að gera athugasemdir við og ég læt það að vísu bíða þar til síðar í umræðunni. Eitt atriði vil ég ekki bíða með en það var tilvitnun í ræðu hv. formanns Framsfl., Steingríms Hermannssonar. Ég hef aðra tilvitnun úr sömu ræðu þar sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson talar um vexti af námslánum í Bandaríkjunum og telur þá nokkuð háa og segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þetta eru líka háir vextir borið saman við ýmis Evrópulönd, það eru helst Norðurlöndin sem eru eitthvað á þessu róli. Að vísu er verðbólgan nú lág og vonandi helst hún lág en það er engin trygging fyrir því. Við gætum skoðað einhverja örlitla vexti þarna á en við teljum 3% vexti allt of mikið og muni íþyngja námsmönnum óeðlilega mikið á greiðslutímanum.``
    Ég get ekkert lesið út úr þessum orðum hv. formanns Framsfl. annað en það að hann sé reiðubúinn að athuga ,,einhverja örlitla vexti`` eins og hann orðar það. En þetta var að vísu sagt í miðri ræðu. Tilvitnunin sem hv. þm. Finnur Ingólfsson vitnaði til er í lok ræðunnar og þá hefur hann sjálfsagt verið búinn að skipta um skoðun. Það hefur gerst á skemmri tíma stundum hjá þeim ágæta manni.