Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 22:28:38 (5687)



     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. hefur ruglast dálítið í ríminu í umræðum ef hann telur að stjórnarandstaðan sé ánægð með frv. Það er hann sem er ánægður með frv. Það er hann sem gerir sig ánægðan með þær breytingar sem gerðar hafa verið og hann er ánægður með frv. þrátt fyrir það atvinnuástand sem hann réttilega nefndi að skólanemendur séu gerðir að fyrsta árs nemum á hverju ári. Hvernig geta menn verið ánægðir með slíkt frv.? Ég tel mig knúinn til að veita andsvar vegna þess að stjórnarandstæðan er náttúrlega mjög óánægð með þá afgreiðslu sem frv. fær og skilur reyndar ekki í því, t.d. varðandi þetta ákvæði sem ég nefndi, að menn skuli vera að bjarga fjárlögum um næstu áramót með slíkum æfingum, að gera nemendur að fyrsta árs nemum á hverju ári. Það er aðeins til þess að laga útkomuna í fjárlögunum þegar þau verða næst sett upp. Það skyldu menn gera sér ljóst. Ég get ekki verið ánægður með frv. Það er langt í frá.