Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 22:43:05 (5698)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hef kvatt mér hljóðs á hinu háa Alþingi um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna, enda átti ég sæti í þeirri nefnd sem samdi þau lög sem við höfum búið við frá 1982.
    Ég kvaddi mér hljóðs hinn 5. nóv. 1991 utan dagskrár um málefni lánasjóðsins og flutti síðan ítarlega ræðu við 1. umr. þegar þetta frv. var lagt fram. Ég hef skrifað blaðagreinar um það mál og gert þar allítarlega grein fyrir skoðunum mínum á málinu þannig að ég hyggst ekki endurtaka það sem ég hef lagt áherslu á í þeim greinum í smáatriðum, enda hefur málið tekið allnokkuð nýja stefnu nú þegar það kemur úr fyrstu meðferð í nefnd.
    Um þetta mál, sem er mjög mikilvægt, mætti auðvitað segja margt. En fyrst hljóta menn að hugsa hvað þessari ríkisstjórn sem nú situr illu heilli að völdum í þessu þjóðfélagi gengur til. Menn vaða um samfélagið eins og sinueldur, ráðast að öllu því sem best hefur verið í samfélagi okkar og virðast ekki eira neinu né hyggjast fyrir í nokkru. Ég verð að segja að ríkisstjórnin minnir mig á kvæðið um Sólon Íslandus en þar er ágæt lýsing á förumanni og hljóðar svo:
          Förumaður kom hér einn á húsgangsklæðum,
          með gleraugu hann gekk á skíðum,
          gæfuleysið féll að síðum.
    Það er þessi mynd sem mér finnst núv. ríkisstjórn hafa á sér. Engin leið er að átta sig á með hversu góðum vilja sem menn reyna hvert ríkisstjórnin er að fara. Hvað eftir annað í vetur hefur komið í huga mér sagan um Lísu í Undralandi þegar hún villtist í völundarhúsinu og fann ekki útgönguleið og hún hitti köttinn og spurði: ,,Hjálpaðu mér að komast leiðar minnar, hvaða leið á ég að fara?``
    Þá spurði kötturinn: ,,Hvert ertu að fara?``
  ,,Það veit ég ekki,`` sagði Lísa.
    Þá sagði kötturinn: ,,Þá er líka alveg sama hvaða leið þú ferð.``
    Einhvern veginn þannig finnst mér þessi gæfulausa ríkisstjórn hafa fálmað sig áfram. Ég segi þetta ekki af illgirni eða neins konar mannvonsku. Ég hef átt kost á að vinna með hæstv. menntmrh. árum saman t.d. í Norðurlandaráði við hina ágætustu samvinnu, ég hef alltaf haldið að hæstv. menntmrh. væri heldur skynugur maður sem vildi þjóðinni vel. Síðan sest hann og fleiri ágætismenn í ráðherrastóla og breytast í eitthvað sem ég veit ekki

hverju líkist, ráðast inn í heilbrigðiskerfið, ráðast inn í skólakerfið, vaða inn í Lánasjóð ísl. námsmanna, ráðast að gamalmennum sem nú eiga aðallega, skilst mér, að hafa það sér til dundurs í ellinni að tína saman skuldir sínar við Lánasjóð ísl. námsmanna og það er afþreying út af fyrir sig. Það má kannski spara ,,opið hús`` í tilefni af því að menn geta horft á reikninga sína sem snjóar inn um dyrnar, en ég verð að segja það alveg eins og er, hæstv. forseti, ég skil ekki hvert þessi ríkisstjórn er að fara. Enda sýnist mér að það sé farið að þynnast ansi mikið um bekki og ég sé ekki betur að hér sé nú nokkur lifandi maður úr Jafnaðarmannaflokki Íslands nema hæstv. forseti --- nú, hann er meira að segja farinn. Ég sá ekki betur en svo væri hæstv. félmrh. orðinn hart keyrður að hún situr nú í hjólastól á þessum degi eftir því sem ég sá á forsíðu Dagblaðsins í dag og lái henni hver sem vill.
    Þegar við erum að tala um kreppu eða greiðsluvanda Lánasjóðs ísl. námsmanna þá liggur það auðvitað fyrir að þessi sjóður er einn ríkasti sjóður landsins og því gerði hv. 11. þm. Reykv. grein fyrir áðan. Ég gerði það líka í mínum fyrri ræðum og skal ekki endurtaka það. Á sama tíma er Landsbanki Íslands að afskrifa 1,8 milljarða. Ruglið varðandi undirbúning að EES-samningum sem engan vantar og enginn vill. ( ÓÞÞ: Íslandsbanki 2 milljarða.) Íslandsbanki 2 milljarða, segir hv. 2. þm. Vestf. Ruglið í þessari svokölluðu undirbúningsvinnu varðandi EES-samninga hefur þegar kostað 285 millj. kr. Vantar þessa þjóð peninga? Nei. Það eru nógir peningar til á Íslandi. Það er til fullt af þeim þannig að vandi Lánasjóðs ísl. námsmanna eins og menn hafa hvað eftir annað tekið fram hér er auðvitað orðinn til fyrir aðgerðir misviturra ríkisstjórna. Ég vil hins vegar taka það fram að það er alrangt sem hv. 11. þm. Reykv. sagði hér áðan að allar ríkisstjórnir hefðu gert illa við þennan sjóð. Það er ekki satt. Framlag ríkisins til sjóðsins hefur sveiflast milli 50% og 90% eins og hv. þm. réttilega sagði en það er ekki tilviljun hvenær það var 90% og hvenær það var 50% og það skiptir öllu máli. Það er auðvitað alveg ástæðulaust að vera svo auðmjúkur fyrir hönd síns flokks að taka á sig syndir annarra varðandi það. Vitaskuld hafa vinstri ríkisstjórnir ævinlega verið hlynntari sjóðnum en ríkisstjórnir sem Sjálfstfl. hefur komið nálægt og þarf engan að undra.
    Hér er verið að tala um undirstöðuatriði sem varðar alla velferð íslensku þjóðarinnar í framtíðinni. Menn hafa allar götur síðan ég kom á hið háa Alþingi talað með miklum þunga um nauðsyn þess að efla menntun, rannsóknir, byggja upp vel menntað þjóðfélag þar sem valinn maður væri í hverju rúmi, nútímaþjóðfélag sem krefðist síaukinnar þekkingar í æ flóknari heimi. Þetta verður auðvitað ekki gert á sama tíma og menn eru að berja niður skólakerfið. Þetta eru auðvitað sannindi sem er búið að segja hér svo oft að ég skal ekki þreyta menn hér klukkan að verða 11 að kvöldi á svo augljósum staðreyndum. Þó kemst ég ekki hjá því að segja það einu sinni enn að það er auðvitað slíkur grundvallarmisskilningur að námslán séu sambærileg við önnur lán og lántökur í þjóðfélaginu að það er beinlínis móðgun við vitsmuni manna að bera slíkt saman. Framfærslulán á meðan fólk er að mennta sig er auðvitað í þágu samfélagsins alls en ekki þess aðila sem þessa framfærslu þarf á meðan hann leggur á sig að mennta sig fyrir þjóðfélag sitt.
    Ég skal hlífa mönnum við almennum athugasemdum og menn geta lesið ræður mínar, sem eru nú síst verri en ræður hv. 1. þm. Vesturl., ef þeir vilja í þingtíðindum. En ég ætla að snúa mér að nokkrum atriðum sem auðvitað eru óásættanleg enn þá. Það er hárrétt að þau ósköp sem okkur voru sýnd í upphafi hafa aðeins skánað og er það alltaf gleðiefni þegar menn taka sönsum og hlýða á röksemdafærslu annars fólks. Það er víst fyrsta skilyrðið til þess að menn komist að einhverri vitsmunalegri niðurstöðu.
    Þá hlýt ég að koma fyrst að því að námslán beri vexti. Það er auðvitað með öllu ósæmandi og ef einhver heldur að ég eða aðrir hv. þm. stjórnarandstöðunnar taki mark á einhverri yfirlýsingu núv. ríkisstjórnar um að þetta skuli vera 1%, nei, það getum við ekki og sættum okkur engan veginn við það, enda stendur í frv. ,,allt að 3%`` og það er auðvitað það sem gildir. En hvað þýðir það að leggja vexti á námslán? Það stóð aldrei til þegar frv. um sjóðinn var samið að sjóðurinn ætti að hagnast á þessum lántökum. Það var aldrei meiningin. Gert var ráð fyrir því að námsmenn skiluðu því sem þeir fengju lánað.

En að að ríkið græddi á þeim, það var aldrei nokkur einasti maður sem lét sér detta slíkt í hug.
    Ég vil minna á að Lánasjóður ísl. námsmanna var einn fyrsti sjóður landsins sem var verðtryggður. Menn sættu sig við það og tóku því. En að hann ætti að bera vexti hef ég aldrei heyrt fyrr en með þessu frv. og það er auðvitað með öllu ósæmandi að vera að láta það fólk sem nú stundar nám borga vexti til að bæta upp trassaskap fyrri ríkisstjórna. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt og getur ekki gengið. Engin leið er að samþykkja þetta frv. fyrr en þetta hefur verið leiðrétt.
    Síðan kemur annað atriði sem mér finnst skipta miklu máli líka en það er að stytta tímann að námi loknu áður en menn fara að greiða námslán. Ég held að það verði mörgum afar erfitt. Það vill nú til eins og ástandið er núna að það tekur menn allt að einu ári að fá atvinnu þegar þeir koma heim frá námi. Þá er eftir að reyna að koma sér einhverju þaki yfir höfuðið, hvort sem það er leiguhúsnæði eða menn reyna að ráðast í að kaupa sér húsnæði. Eins og margoft hefur verið bent á er það svo að með þeirri greiðslubyrði sem nú er lögð á fólk þá sé ég ekki betur en námsmenn geti gleymt því að reyna að komast inn í húsbréfakerfið. Það er auðvitað alveg út úr kortinu og þetta getur heldur ekki sparað eitt eða neitt vegna þess að þetta skilar sér í vandræðum annars staðar. Ég held nefnilega að mönnum hætti oft til þegar einum lögum er breytt eða ein lög sett að líta ekki til hvaða áhrif sú lagasetning hefur annars staðar í samfélaginu vegna þess að einhvers staðar verður auðvitað að taka það tjón sem þetta fólk verður fyrir.
    Að námsaðstoð verði greidd eftir á, þetta er auðvitað bæði ómannúðlegt og ósiðlegt. Halda menn að fólk verði, jafnvel aðstandendur, mjög ginnkeypt fyrir endalausum uppáskriftum um bankalán? Eins og ástandið er núna í þjóðfélaginu þar sem menn hafa orðið fyrir stórfelldu tjóni einmitt vegna þess að þeir hafa skrifað upp á alls kyns fjárhagsskuldbindingar fyrir vini og kunningja og ættingja eru menn ekki endilega tilbúnir til þess að ábyrgjast bankalán á nokkurra mánaða fresti. Ég hygg að námsmenn megi alveg hafa sig alla við að fá fólk til að skrifa upp á og ábyrgjast námslánin. Ég vil minna á það að ég mótmælti því þegar upphaflega frv. kom fram að þá áttu meira að segja þessir ábyrgðaraðilar að vera tveir, en þeim hefur þó verið fækkað niður í einn. Hins vegar held ég að við höfum nú ævinlega skilið það þegar við sömdum lögin þannig með þessa ábyrgðarmenn eins og ég hef áður sagt, að ábyrgðarmaðurinn væri nú eiginlega frekar til þess að það væri einhver aðili sem vissi hvar menn væru niður komnir ef þeir stæðu ekki í skilum frekar en þeir ættu að vera raunverulega ábyrgir fyrir þeim skuldbindingum sem þeir hafa skrifað upp á. Mér þætti gaman að sjá framan í þá sem færu að innheimta hjá ættingjum mínum og börnum, systkinum og fleirum, ég held að það sé ansi góð upphæð sem ég sem stend hér er ábyrg fyrir og ég vona að enginn láti sér nokkurn tíma detta í hug að ég geti greitt það og ætla mér heldur ekki að gera það. En ég hef litið á mig sem svona einhvern millilið milli námsmanna og sjóðsins þannig að það væri þá alltaf hægt að ná til manna ef á þyrfti að halda.
    Um eftirágreiðsluna: Ég held að ég orði það ekki betur en Pétur Þorsteinn Óskarsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands gerði í Dagblaðinu mánudaginn 13. apríl sl., en þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Annað sérkennilegt ákvæði er að finna í frv. þessu og kveður á um að námslánin verði alltaf greidd eftir að önninni lýkur. Þetta þýðir það að í stað þess að fá mánaðarlega greiðslu frá sjóðnum fær fólk nú lán sín greidd tvisvar á ári í lok hverrar annar. Þetta þýðir það að fólk þarf að taka framfærslulán í bönkum og greiða þau síðan upp tvisvar á ári. Þetta hefur í för með sér allt að 9% lækkun á mánaðargreiðslum og 3--5% beina skerðingu námslána. Hitt er ljóst að með þessu er ríkisstjórnin að færa 900 millj. kr. fjárlagahalla frá þessu ári yfir á hið næsta. Það skyldi þó aldrei vera að þarna sé ríkisstjórnin að bjarga sínu fyrsta fjárlagaári með ómerkilegri bókhaldsbrellu sem bitnar á þúsundum námsmanna hérlendis sem erlendis.``
    Ég held nefnilega að það sé alveg hárrétt sem formaður Stúdentaráðs segir þarna. Auðvitað endar þetta með því að lánasjóðurinn verður að koma til móts við þennan vaxtakostnað á nákvæmlega sama hátt og við horfum upp á að námsmenn sem eru um þessar mundir að innrita sig til næsta skólaárs eru krafðir um 22 þús. kr. við Háskóla Íslands. Háskólinn hefur gripið til þess ráðs að bjóða námsmönnum greiðslufrest til 1. júlí því að auðvitað á ekki nokkur maður fyrir þessu. Síðan horfum við nú upp á sumar þar sem ekki eru miklar líkur á að menn hafi mikil uppgrip eins og áðan var talað um. Auðvitað endar þetta með því að lánasjóðurinn verður neyddur til þess að lána fyrir þessari upphæð og þannig eru þetta auðvitað ekkert nema vítahringir sem verið er að búa til sem hefna sín fyrr eða síðar.
    Varðandi þessa eftirágreiðslu væri kannski ráð að tala einu sinni eins og í fimm mínútur um námsmenn eins og manneskjur. Halda menn virkilega að það sé hollt námsmönnum að búa við þá pressu að öll þeirra fyrirgreiðsla sé í raun og veru fyrir bí ef menn skila ekki prófi? Ég hef alltaf verið á móti þessum ströngu ákvæðum að menn skuli skila nær öllum prófum annars falli greiðslur niður. Það vill nú svo til að háskólanám er ekkert sem menn hrista fram úr erminni eins og ekkert sé. Auðvitað verður að gefa mönnum eitthvert svigrúm til þess að geta stundað sitt nám án þess að vera í aukaspennu og pressu vegna þess að öll afkoma þeirra hrynur í rúst ef menn verða fyrir einhverju óhappi í prófi. Annað eins hefur nú hent hjá bestu mönnum. Við getum hugsað okkur ungt fólk með fjölskyldu sem á allt líf sitt undir því að ekkert komi fyrir kannski í mörgum prófum sem menn eru að taka á sama tíma. Þetta er auðvitað fullkomlega ómannúðlegt og við höfum fréttir af því frá því mikla framfaralandi Japan að þar fremja menn sjálfsmorð í tugum og hundruðum vegna þess að þeir bugast undir þeirri pressu sem þeir eru settir í og ætlum við að fara að reka þjóðfélag eftir þessum nótum? Fyrir nú utan eins og hér hefur verið bent á þá eru ekki próf tvisvar á ári alls staðar þannig að það er alveg gersamlega úti í blámanum hvernig á að fara með það. Sjálfsagt sitja gæfulausir menn nú og reyna að kokka einhverjar reglur um hvernig með slík tilvik muni fara.
    Síðan koma atriðin varðandi endurgreiðslurnar sem auðvitað er búið að fara svo mörgum orðum um hér að ég skal ekki endurtaka það. En það er eitt sem ég skil ekki alveg. Ég man ekki betur en við sem höfum ábyrgst lán sem tekin eru samkvæmt eldri lögum höfum skrifað undir ákvæði um hvernig þær skuldir skuli borgaðar. Nú tala menn um að þær skuldir verði geymdar á meðan menn eru að greiða skuldirnar samkvæmt nýju lögunum. Og ég spyr: Hvað á að gera við gömlu skuldabréfin? Eru þau þá ógild? Er hægt breyta þeim með einhverjum tilfinningasveiflum í ríkisstjórninni? Ég man ekki eftir öðru en helstu rök fyrir því að erfitt væri að afnema lánskjaravísitölu í landinu væru einmitt skuldbindingar á þegar gerðum skuldabréfum sem erfitt væri og ekki væri hægt að breyta. En ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh.: Ef menn eiga að greiða einhvern tíma í ellinni síðustu afborganir af skuldum samkvæmt hinum nýju lögum þá sé ég nú ekki annað en þeir verði löngu dánir áður en kemur að hinu. En ef þeir yrðu nú á lífi, eiga þeir þá að byrja að borga þau eða hvernig á þetta að vera? Ég skil þetta ekki. ( Menntmrh.: Af hverju skilur þú þetta ekki?) Ég óska eftir að hæstv. ráðherra útskýri þetta fyrir mér. En ég skil ekki hvernig ætti að breyta ákvæðum útgefinna skuldabréfa bara rétt si svona með einhverjum tilskipunum. Ég hef aldrei vitað til þess að þeir viðskiptahættir væru viðhafðir í þessu landi og það væri gaman að heyra um hvernig það er hugsað. ( Menntmrh.: Er þingmaðurinn á móti því að hafa þetta svona?) Alveg hiklaust. Þingmaðurinn vill helst standa við gerðar skuldbindingar ( Menntmrh.: Reyna áfram ... að samþykkja.) Eins og menn hafa gert hingað til ef það væru sanngjarnar afborganir. Menn hafa greitt af námslánum sínum í þeirri röð, sem þau skuldféllu, þannig að ég hef ekki séð neina útreikninga. Ég vil taka það fram, hæstv. ráðherra og hæstv. forseti, að enn þá á ég eftir að sjá einhverja útreikninga um hvernig þetta er hugsað. Ég verð bara að segja að ég skil þetta ekki, ég skil ekki hvernig þetta er hægt.
    Auðvitað ber að harma það að námsstyrkir skuli felldir niður og kostulegar yfirlýsingar um hlutverkið sem Vísindasjóður á að leika þar. Ég er ekki alveg viss um að allir hv. þm., eða öllu heldur þeir fáu sem hér eru --- þó eru þeir nú kannski líklegastir til þess að vita það --- geri sér ljóst hvað Vísindasjóður er. Vísindasjóður er lögfestur í lögum um Seðlabanka Íslands og í nýju frv. til laga um Seðlabanka Íslands eru ákvæðin lítið sem ekkert breytt. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í 44. gr.:
    ,,Árlega skal meðalhagnaður næstliðinna þriggja ára að frádregnu framlagi í arðsjóð skv. 3. mgr. greiddur í ríkissjóð. Skal við þann útreikning endurmeta afkomu fyrri áranna tveggja til verðlags hins þriðja. Greiðsla fer fram eigi síðar en 1. júní ár hvert.`` Síðan segir: ,,Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal greiðsla Seðlabankans í ríkissjóð nema fjórðungi af meðalhagnaði næstliðinna þriggja ára að frádregnu framlagi í arðsjóð skv. 3. mgr. ef eigið fé bankans í lok reikningsárs er lægra en 6% af vergri landsframleiðslu ársins á undan. Endurmeta skal verga landsframleiðslu til verðlags í lok reikningsársins.
    Árlega skal leggja í arðsjóð a.m.k. jafngildi 130 millj. kr. miðað við verðlag í árslok 1991`` og þetta segir í frv. eins og það er núna. ,,Arðsjóður skal ávaxtaður á bestu fáanlegum vaxta- og verðtryggingarkjörum. Árlega skal helmingur tekna arðsjóðs renna í Vísindasjóð sbr. lög um Vísindasjóð.``
    Sannleikurinn er sá að það er hlutverk bankaráðs Seðlabankans skv. 38. gr., m.a. í o-lið --- og þar hefur bankaráðið mörg hlutverk --- að taka ávörðun um ráðstöfun á tekjuafgangi að því marki sem annað er ekki ákveðið`` o.s.frv. Sannleikurinn er sá að það hefur margsinnis verið gagnrýnt að vera að rugla saman málefnum Seðlabankans og Vísindasjóði og ætti auðvitað fyrir lifandi löngu að vera búið að aðskilja þetta tvennt. En þar sem farið er að tala um Seðlabankann, því að allt hangir þetta nú einu sinni saman, má spyrja hvernig er farið með arðinn af Seðlabankanum. Hundruð milljóna sem lánasjóðurinn gæti vel þegið í erfiðleikum sínum eru notuð til þess að kaupa málverk og til þess að reka eitt dýrasta og fínasta bókasafn í landinu sem enginn maður fær að koma inn í nema hann sé í góðu vinfengi við húsbændur þar á bæ. Minni ég á umræðu sem fór hér fram fyrir mörgum árum þegar ég reyndi sjálf sem alþingismaður lýðveldisins að komast inn í þetta hús og fékk það með eftirgangsmunum. Ég tók þetta mál upp á Alþingi vegna þess að á því ári munaði sáralitlu á bókainnkaupum Seðlabanka Íslands og háskólabókasafns. Þannig er sukkað og sóað með fé sem gagnast engum eða örfáum. Ég tek það fram að ég hef ekkert á móti því að Seðlabankinn eigi eitthvert bókasafn um þau málefni sem snerta bankann en því fer svo víðs fjarri að við það sé miðað. Sú var tíðin að bókavörður Seðlabankabókasafnsins fór í lystiferðir til Sviss til að bjóða hæst í einhverjar fornar bækur af því að honum fannst þær fallegar og skemmtilegar og gaman að eiga þær. Það mætti því víða finna fé til að jafna erfiðleika lánasjóðsins þessi fáu ár sem hann þarf þess með til að verða sjálfum sér nógur því að það var auðvitað alltaf markmiðið og það er enginn vandi að sjá svo til að hann verði sjálfum sér nógur.
    Svo vill nefnilega til að námsmenn eru skilamenn og gjaldfallnar skuldir sjóðsins eru 91% í skilum. Ég hygg að sjaldgæft sé að stofnanir sem lánað hafa fé geti státað af því. Ástæðan fyrir því er auðvitað sú að menn hafa verið sáttir við þessar endurgreiðslur. Þær hafa verið sanngjarnar. Menn hafa ráðið við þær og menn hafa ekki séð neina ástæðu til þess að standa ekki í skilum. Menn hafa verið þakklátir fyrir þá fyrirgreiðslu sem þeir fengu í þessum sjóði. Það er nú einu sinni svo og ætti að vera yfirskrift yfir hverju þjóðþingi að aldrei er hægt að búa til góð lög nema fólk sé sátt við þau. Ekki er nóg að einhver meiri hluti á hinu háa AlÞingi þvingi í krafti valds síns í gegnum þjóðþingið lög sem þjóðin sættir sig ekki við. Áreiðanlega er mikill hluti þess sem aflaga fer í þessu samfélagi einmitt afrakstur löggjafar sem þjóðin sættir sig ekki við, fyrst og fremst ekki siðferðilega og hefur hana þess vegna að engu eins og allir vita. Þetta er auðvitað það sem við hefðum átt að gera, þ.e. að finna þá peninga sem lánasjóðinn vantar til þess að fleyta honum yfir þá erfiðleika sem honum hafa óneitanlega verið skapaðir, ekki eingöngu vegna slælegrar frammistöðu ríkisstjórna við að fjármagna sjóðinn. Það hefur óneitanlega gerst sem menn gátu kannski ekki alveg séð fyrir að fjöldi námsmanna hefur aukist mjög mikið og miklu meira en nefndin sem lögin samdi gerði ráð fyrir auk þess sem nýjum hópum hefur verið veittur aðgangur að sjóðnum sem ekki var gert ráð fyrir þá og ekki skal ég amast við því. Það er auðvitað alls ekki ósanngjarnt.
    Lántökugjald er auðvitað sama óréttlætið. Hér er ekki um að ræða fjárfestignarlán

til einstaklinga heldur framfærslulán sem kemur allri þjóðinni að gagni. Þess vegna mælist ég til þess, hæstv. forseti, að lántökugjaldið veri líka afnumið. Ég held að það sé afar nauðsynlegt til að koma þessu máli þannig í gegnum þingið að menn setjist niður á ný og líti á það sem stjórnarandstaðan hefur verið að gagnrýna. Þegar lesnar eru umsagnir um þetta mál í gegn þá kemur í ljós að ekki hefur verið litið til fjölmarga atriða sem menn hafa bent á. Hér er t.d. gert ráð fyrir í brtt. meiri hluta menntmn. við 8. gr. að viðbótargreiðsla miðist við ákveðinn hundraðshluta af útsvarsstofni ársins á undan endurgreiðsluári. Alþýðusamband Íslands bendir réttilega á að útsvarsstofn hefur verið aflagður í skattareglum og þeir segja að nauðsynlegt sé að miða við einhverja einhlíta tekjustærð í sambandi við endurgreiðslu. Svona agnúa þarf auðvitað að sníða af og ýmislegt fleira sem betur mætti fara. Það er sjálfsögð ábending. Ég get ekki séð að ekki enn þá sé hægt að fara ofan í þetta mál aftur með tilliti til þeirra athugasemda sem fram hafa komið. Ekkert okkar vill efna til ófriðar um þetta mál úr því að það er fram komið og það er auðvitað skylda okkar að reyna að sníða verstu skafankana af því sem voru mjög margir þegar málið kom fyrst fram. Ég vil sérstaklega benda á mjög ítarlega greinargerð sem Þorsteinn Vilhjálmssson, kennari við Háskóla Íslands, skilaði. Því nefni ég hann að hann vann með nefndinni sem samdi lögin sem við búum nú við og er allra manna fróðastur um Lánasjóð ísl. námsmanna og ég tel að full ástæða sé til þess að líta vel á þau atriði sem hann bendir þarna á.
    En aðalatriðið er auðvitað að svo verði búið um hnútana að við séum ekki á árinu 1992 að skerða þau mikilvægu réttindi sem kostaði áratugi að fá í gegn að allir Íslendingar hefðu jafnan rétt til náms. Ég segi það enn og hef sagt það áður að ég tel að stofnun Lánasjóðs ísl. námsmanna sé einhver mesta kjarabót sem nokkru sinni hefur verið gerð fjölskyldunum í landinu til handa. Mörg okkar geta verið til vitnis um þá kynslóð, þó að við séum nú ekki orðin eldri en raun ber vitni, sem gat ekki farið í háskóla vegna þess að ekki voru efni til þess. Ég vil taka undir það með hv. 18. þm. Reykv., að auðvitað bitnar öll svona skerðing ævinlega á konum. Það er auðvitað alveg rétt einfaldlega vegna þess að konur hafa almennt miklu lægri laun. Vitaskuld gerðist það á árum áður að strákarnir fóru til sjós eða í erfiðisvinnu sem engin kona hefði fengið að taka þátt í þó hún hefði viljað og gátu þannig stundað uppgripin sem hv. 1. þm. Vesturl. minntist á. Þessa möguleika höfðu konur ekki og hvað gerðist þá? Konur voru um langt skeið hinn eiginlegi lánasjóður ísl. námsmanna því að þær fóru út á vinnumarkaðinn og unnu fyrir gáfuðu mönnunum sínum. Sjálfar áttu þær ekki nokkurn minnsta möguleika á að stunda háskólanám og viljum við virkilega að annað eins og þetta gerist aftur? Ég held ekki. Ég held ekki að einn einasti hv. alþm. vilji það. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir hvað fjárhagur íslensku fjölskyldnanna er í raun og veru veikur.
    Við sjáum þá hörmung sem hefur átt sér stað í sambandi við kjarasamninga þar sem kemur í ljós að launþegar geta ekki, hversu hart sem þeir eru keyrðir, staðið á bak við forustumenn sína í einhverjum aðgerðum gegn atvinnurekendum. Af hverju skyldi það vera? Það er af því að fjárhagur heimilanna er svo óstöðugur og hann stendur á slíkum brauðfótum að fólk getur ekki snúið sér við. Fyrir um 30--40 árum var fólk ekki svona skuldugt. Ef fólk gat drifið upp einhverjar tekjur, þá gat það farið í skóla, jafnvel fengið ofurlitla aðstoð að heiman vegna þess að fjölskyldurnar skulduðu ekki kaupið sitt marga mánuði fram í tímann eins og nú er. Við það ástand sem við búum í húsnæðismálum er tómt mál að tala um að námsmenn geti sótt mikla aðstoð til foreldra sinna. Auðvitað er til efnað fólk sem getur stutt börnin sín að fullu og er ekkert við því að segja, enda kemur í ljós að þær fullyrðingar sem fólk hefur verið að halda fram að námsmenn taki bara námslán vegna þess að þau séu á svo góðum kjörum standast ekki því það vill svo til að það eru aðeins 60% stúdenta við Háskóla Íslands eða námsmanna við Háskóla Íslands sem taka námslán. Ég held að námsmenn sækist ekkert eftir námslánum nema þeir þurfi á þeim að halda. Þetta hefur svo sem verið rakið hér áður og maður er auðvitað alltaf að segja það sama, en það er alveg nauðsynlegt þangað til hv. menntmn. og hæstv. ráðherra sýnir hv. þm. þá kurteisi að taka alvarlega þær athugasemdir sem við gerum.

    Okkur barst í hendur umbeðið plagg sem heitir ,,Endurgreiðsluhlutfall námslána í breyttu og gildandi námslánakerfi`` þar sem beðið var um upplýsingar um afföll í breyttu og gildandi lánasjóðskerfi. Þetta símrit, sem hér liggur fyrir, tel ég með öllu ófullnægjandi og ég held að við þurfum miklu skýrari og nákvæmari útreikninga til að sjá hvort við erum raunverulega að vinna sjóðnum gagn með þessum aðgerðum. Í þeim umræddu kjarasamningum sem nú er verið að reyna að koma í gegn eftir miklar umræður og mikið þóf var gefinn út loforðalisti ríkisstjórnarnnar og skal ég ekki fara orðum um það sorglega plagg. En eitt vekur þó athygli okkar sem sitjum í fjárln. hv. Alþingis að þar segir hæstv. forsrh. að þær aðgerðir, sem þeir bjóða svo höfðinglega, því að nú má ekki koma nálægt atvinnurekendum heldur skal ríkissjóður borga --- það er háttur íhaldsins að taka aldrei neitt á sig heldur leita til hins gamla, góða pilsfaldakapítalisma og biðja mömmu að hjálpa --- en ævintýrið á þó kosta næstum því milljarð. Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um það í hv. fjárln. hvar þann milljarð á að taka og ég bíð með eftirvæntingu eftir að sjá hvaðan hann skal tekinn. Ef hægt er að drífa hann upp á tiltölulega skömmum tíma þá sýnir það náttúrlega enn einu sinni að víða er matarholu að finna. Allt sýnist mér þetta vera á svo veikum grunni enn sem komið er að töluverð vinna virðist vera eftir í hv. menntmn. til þess að þingmenn geti sætt sig við og sannfærst um að það sé verulega verið að gera tvennt, fyrst og fremst það sem er markmið Lánasjóðs ísl. námsmanna að tryggja öllum íslenskum námsmönnum jafnrétti til náms og að þeir geti búið við a.m.k. mannsæmandi kjör meðan á námi stendur. Ég er ekki sannfærð um að þær breytingar sem nú þegar hafa verið gerðar nægi til þess og það sem verra er, ég stórefast um að verið sé að bæta hag sjóðsins sjálfs vegna þess að það verður auðvitað alveg óhjákvæmilegt að koma til móts við þær álögur sem verið er að leggja á námsmenn annaðhvort úr sjóðnum sjálfum eða einhvers staðar annars staðar frá og eru skólagjöldin nærtækt dæmi um slíkt.
    Hæstv. forseti. Hér er orðið framorðið og ég skal ekki taka mikinn tíma lengur. Ég gæti svo sem minnst á fjölmörg önnur atriði sem mér finnst skipta miklu máli við afgreiðslu þessa máls en ég skal hlífa hv. þm. Ég held að ég sé búin að minnast á það helsta. Að lokum vil ég aðeins segja að mér finnst enn þá að stjórn sjóðsins sé veitt allt of mikið vald til að meta einstök tilvik. Ég held að því skýrari reglur sem sjóðnum eru settar, því betra og ég held að það atriði þyrfti líka að athugast. Ég vil því í mikilli vinsemd fara þess á leit við menntmrh., hæstv. forseti, að hann hlutist til um að málið hljóti ítarlegri meðferð og skoðun í hv. nefnd áður en það kemur aftur til þingins og þá verði búið að skera af þá agnúa sem okkur finnst enn þá vera á frv. Þá kann vel svo að fara að sættir náist um málið. En það er af og frá að þær geti tekist eins og málið liggur fyrir nú.