Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 23:22:47 (5699)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins gera stutta athugasemd við málflutning hv. 14. þm. Reykv. Það kom fram í máli hennar að vinstri stjórnir hafi alltaf verið hagstæðari Lánasjóði ísl. námsmanna en hægri stjórnir. Auk þess gat hún þess skilmerkilega í ræðu sinni að það væru nógir peningar til í þessu þjóðfélagi. Ég vil því spyrja þingmanninn að því hvernig það má vera að á þessu tiltölulega stutta tímabili þegar Alþb. fór með málefni fjmrn. og menntmrn. lækkuðu framlög ríkissjóðs til lánasjóðsins og voru langlægst í fjárlögum fyrir árið 1991 en námsaðstoð úr sjóðnum hækkaði sífellt. Fyrst peningar voru til í þjóðfélaginu af hverju fann Alþb. ekki þessa peninga í stað þess að vísa sjóðnum í auknum mæli á erlendar lánastofnanir? Hvernig stendur á því að hv. þm. fullyrðir að vinstri stjórnir séu alltaf hagstæðari lánasjóðnum en hægri stjórnir þegar þetta einfalda dæmi frá ríkisstjórnarárum ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar sýnir glöggt fram á það að þar með var búin til mikil fjárþörf sem var hægt að brúa með skammtímalánum og sjóðurinn hefur verið að kikna undan þeirri fjárþörf sem stofnað var til með því fyrirhyggjuleysi sem ríkti í málefnum sjóðsins 1988--1991?