Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 23:25:04 (5700)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Ég vil minna hv. 5. þm. Norðurl. e. á þá einföldu staðreynd að tveir fyrrv. menntmrh. Sjálfstfl. skertu námslán um um það bil 20% og breyttu tekjuviðmiðun í þá veru að hún kom hinum tekjuhæstu að mestu gagni. Það varð hlutverk hæstv. menntmrh. Svavars Gestssonar að skila til baka þessum 20% aftur til námsmanna og að færa tekjuviðmiðun til réttlátari vegar. Að vísu hefur það verið tekið til baka í tíð núv. hæstv. ráðherra. Þannig var nefnilega, hæstv. forseti, að það hefur ævinlega komið í hlut ríkisstjórna, sem Alþb. hefur átt hlut að, að leiðrétta það misrétti sem hefur verið framið þegar Sjálfstfl. hefur verið við stjórn. Það er því ævinlega verið að kippa í liðinn því sem búið er að fara illa með. Það er áreiðanlega einhver ástæða þó að ég hafi því miður ekki tölur um framlög til sjóðsins. Ég vil minna á þá einföldu staðreynd að það varð auðvitað að bæta hag námsmanna verulega eftir meðferðina í tíð sjálfstæðismanna.