Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 23:28:17 (5702)



     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hagstæðar Lánasjóði ísl. námsmanna, sagði hv. 5. þm. Norðurl. e. Lánasjóður ísl. námsmanna er náttúrlega fyrir námsmenn og vitaskuld kom það í hlut alþýðubandalagsráðherra eins og ævinlega að tryggja hag námsmanna. Vitaskuld kostaði það mikla peninga og vitaskuld voru tekin lán, það er alveg rétt. En ábyrgðin var auðvitað að gera námsmönnunum sjálfum líft meðan á námi stendur. Við lítum því ekki á hækkun lánasjóðsins sem hagsmuni peningastofnunar heldur námsmanna sjálfra. Fyrir þá er sjóðurinn. En auðvitað er það slæmt og sama hver í hlut hefur átt að ekki skuli hafa tekist að láta sjóðnum í té það fé sem hann þurfti þangað til hann fer að geta byggt sig upp af endurgreiðslum. Þetta er staðreynd sem er margsinnis búið að tala um og við öll vitum. Það breytir auðvitað ekki því og ég nenni ekki að fara út í þrætubók um það hverjum hvað var að kenna. Þó að ég fullyrði að vinstri öflin á hinu háa Alþingi hafi ævinlega verið vinveittari þessum sjóði þá er það auðvitað ekkert atriði í dag hvaða syndir eru hverjum að kenna. Það sem við erum að gera nú er að við erum að setja sjóðnum ný lög og það er ábyrgð okkar að þau lög verði þá betur framkvæmanleg en þau sem við bjuggum við þó ég telji mjög til efs að það hafi verið nokkur þörf á nýjum lögum heldur hefðu menn þurft að reyna að tryggja sjóðnum það fé sem hann þarf. En það er auðvitað alveg út í hött að snúa umræðunni á þennan veg eins og hv. 5. þm. Norðurl. e. er að gera.