Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 23:30:28 (5703)



     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem verið er að ræða er eitt af stærri málum sem við ræðum á þessu þingi. Það sýnir reyndar í hnotskurn stefnu ríkisstjórnarinnar þar sem markaðslögmálið ræður ferðinni. Horft er á útreiknaðar tölur við mat á öllum eða flestum málaflokkum. Ef ekki er hægt að sýna með tölustöfum að málefnið skili með markaðsvöxtum

til baka því sem í það er látið þá borgar það sig ekki. Þannig er nú farið að í málefnum lánasjóðsins. Stefnan er í þá átt. Sjóðurinn á að standa undir sér eins og það er kallað. Það er ekki kafað dýpra í hlutverk sjóðsins en sem svarar tölum á blaði.
    Aðrir sem hafa talað á undan mér hafa komið mjög vel til skila þeim markmiðum sem við, sem erum að mótmæla þessu frv., teljum að sjóðurinn eigi að þjóna, þ.e. jafnrétti til náms óháð búsetu og efnahag. Að allir sem til þess hafa löngun og hæfileika eigi þess kost að stunda það nám sem hugur þeirra stendur til.
    Vissulega hefur þó frv. tekið breytingum til bóta frá því sem það upphaflega var ef tekið er tillit til þeirra brtt. sem meiri hluti hv. menntmn. leggur til. Það er til bóta að endurgreiðslurnar eigi ekki að hefjast fyrr en eftir tvö ár í stað eins en það er samt verið að þrengja það frá núverandi lögum lánasjóðsins þar sem endurgreiðslurnar hefjast eftir þrjú ár.
    Það mætti nefna ýmislegt fleira eins og það að taka tillit til félagslegra ástæðna sem var ekki inni í frv. í 1. umr. og einnig það að setja hámark á árlega endurgreiðslu miðað við tekjur. Þó vildi ég gjarnan fá skýringar á einu atriði þar. Nú eiga árlegar endurgreiðslur fyrstu fimm árin ekki að fara yfir 5% af tekjum samkvæmt frv. en jafnframt er tilskilin ákveðin upphæð sem nefnd er hér 48 þús. kr. í brtt. meiri hlutans. Hvað verður gert ef sú upphæð sem hér er tilgreind er of há miðað við tekjur? Verður þá sá hluti greiddur til baka sem er umfram 5%? Laun geta verið lægri en 960 þús. kr. á ári, a.m.k. miðað við daginn í dag, en það er sú upphæð sem virðist vera miðað við.
    Þá er ákvæði um það að vextir skuli ekki vera hærri en 3% og lántökugjald sem á að vera 1,2%. Því hefur að vísu verið lýst yfir að vextir muni ekki verða hærri en 1%. Þess vegna er mér spurn hvers vegna þá að vera að setja töluna inn um að þeir megi vera allt að 3% ef ekki er hugsað að þeir verði það? Það er sannarlega undarlegt að þurfa þá að vera að setja 3% vexti inn í frv. Vaxtaálagningin og lántökugjaldið munu hafa þau áhrif að færri fara í nám en áður og trúlega er það tilgangurinn. En ég spyr þá: Hvert á það fólk að leita sem ekki getur sótt nám af fjárhagsástæðum? Á það að leita út á vinnumarkaðinn? Er atvinnuaukning í þjóðfélaginu? Er framboð á atvinnutækifærum? Nei, alls ekki. Þvert á móti. Atvinnuleysi er að aukast í flestum landshlutum og ekki fer það unga fólk sem verður að hætta námi í störf sem eru ekki til. Á það að fara á atvinnuleysisbætur? Er það sú leið sem ríkisstjórnin bendir á?
    Þá er að nefna eitt afdrifaríkasta ákvæðið í frv. og það er eftirágreiðslur námslána eins og margoft hefur komið fram í umræðum fyrr í dag. Nú fá fyrsta árs nemar ekki greidd námslán fyrr en etir 4--6 mánuði eða jafnvel eftir að veturinn er liðinn, samanber nema við Háskóla Íslands. Þetta hefur oft verið erfitt hjá fyrsta árs nemum samkvæmt núgildandi kerfi en námsmenn hafa axlað það vegna þess að það er þó aðeins á fyrsta ári. Nú háttar öðruvísi til. Nú gildir það ákvæði fyrir öll námsárin að fólk verður að sýna árangur áður en það fær greitt lánið sem þýðir að menn verða að framfleyta sér og sínum á bankalánum meiri hlutann úr árinu.
    Sá rökstuðningur er hafður fyrir þessum ákvæðum að tugir milljóna hafi verið ofgreiddar í námslánum til námsmanna, sem ekki hafi átt rétt á þeim peningum, og þar með eiga þeir námsmenn sem aldrei hafa fengið þessi ofgreiddu lán að gjalda fyrir hina eða fyrir mistök sjóðstjórnar sem hlýtur að geta komið í veg fyrir slíkt. Áreiðanlega er hægt að finna leiðir til þess í fullri samvinnu við námsmenn því að þeir hafa lýst sig reiðubúna til breytinga á núgildandi kerfi til þess að sníða af því þá agnúa sem á því eru. En með þessum ákvæðum í frv. eru námsmenn framtíðarinnar að gjalda fyrir fortíðarvandann sem þeir hafa ekki skapað.
    Með þessu frv. stefnir í að það verði fyrst og fremst þeir efnameiri sem geti stundað langskólanám í framtíðinni og það verði óframkvæmanlegt fyrir fjölskyldufólk að bæta við menntun sína. Þá er eins og svo oft áður verið að breyta þeim forsendum sem fólk hefur byggt framtíð sína og menntun á. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði áðan að hún vonaði að enginn þyrfti að hrekjast frá námi þó að þetta frv. yrði að lögum. Ég tel að það sé einmitt það sem gerist. Við skulum taka dæmi.

    Þrítugur fjölskyldufaðir hefur í nokkur ár stundað fagvinnu sem hann hefur ekki tilskilda menntun til. Hann hefur mikinn hug á að afla sér þessarar tilskildu menntunar sem hann langar til að hafa til að styrkja sjálfan sig og til að hafa þau réttindi sem gefa honum leyfi til að stunda þau störf sem hugur hans stendur til. Hann leggur til hliðar eins og mögulegt er, e.t.v. í 2--3 ár, fer síðan í námið. Hann velur að stunda það utan heimalandsins, e.t.v. á Norðurlöndum. Hér gæti verið um fimm manna fjölskyldu að ræða og það eru gerðar áætlanir um tekjur og gjöld til eins árs. Hann veit að fyrsta árið er erfiðast af því að þá verður hann að bíða fram yfir miðjan vetur með að fá það námslán sem hann hefur kynnt sér að hann muni fá samkvæmt reglum lánasjóðsins. En eftir fyrsta árið stendur hann frammi fyrir því að búið er að breyta öllum þeim grundvallarreglum sem fjölskyldan byggði framfærslu sína á. Það er ekki bara á fyrsta ári sem verður erfitt að brúa bilið þar til lánið fæst greitt. Nei. Það eru öll þrjú eða fjögur eða fimm árin. Hvað á hann þá að gera? Hætta námi eða lifa á bankalánum meðan á námi stendur? Það getur orðið mörgum of þungur baggi og hætt við að margir námsmenn verði að hverfa frá námi af fjárhagsástæðum. Hér er því alls ekki um jafnrétti til náms að ræða samkvæmt þessu nýja lánasjóðsfrv. Þar erum við komin að kjarna þessa máls. Þar er verið að hverfa frá þeirri hugsjón að jafnrétti til náms skuli ríkja í landinu óháð búsetu og efnahag. Fyrir það höfum við hrósað okkur á undanförnum árum. Það verða í framtíðinni helst ungmenni sem eiga efnaða foreldra og búa á höfuðborgarsvæðinu sem geta stundað háskólanám eða sérskólanám. Þeir sem búa fjær og þurfa að sjá sér fyrir húsnæði og fæði fjarri heimili sínu hafa miklu minni möguleika til þess en hinir að stunda slíkt nám. Jafnframt hafa þeir enga möguleika til þess heima fyrir þar sem slíkir skólar sem þeir vilja sækja eru þar alls ekki. Hér er því enn verið að auka það misrétti sem þegnar landsins mega búa við eftir búsetu. En það er reyndar dæmigert fyrir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar sem hefur takmarkaðan áhuga á að jafna búsetuskilyrði í landinu eða sýna það með verkum sínum.
    Eins og ég sagði í upphafi hefur þetta frv. tekið ákveðnum breytingum til batnaðar. En mér finnst þó gæta mikilla öfugmæla í því víðast hvar. T.d. er sagt í nefndaráliti frá meiri hluta menntmn. í 1. lið að lagt sé til að 1. gr. verði breytt þannig að hún kveði á um tækifæri til náms án tillits til efnahags. Ég hef einmitt verið að rekja það að það er langt frá því að svo sé. Ég vænti þess að þetta frv. verði tekið til nánari skoðunar eftir umræðuna og að tekið verði þá tillit til þeirra ábendinga sem hafa ítrekað komið fram í máli manna.