Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 23:42:00 (5704)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Nokkuð er liðið á þessa umræðu og verður kannski erfitt að segja margt sem hefur ekki borið á góma áður í umræðunni. Engu að síður vil nú leggja nokkur orð í belg, mér liggur við að segja þó ekki væri nema af sögulegum ástæðum því að þetta mál á sér nú langan bakgrunn og aðdraganda. Ég á við áform og tilraunir til að breyta gildandi lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna frá 1982. Það er svo að líftími þeirra fellur nokkuð saman við veru mína á Alþingi og ég hef því fylgst nokkuð vel með umræðum um þessi málefni þennan tíma og kynnst þeim í reynd báðum megin frá þar sem ég var námsmaður í Háskóla Íslands á þeim tíma þegar unnið var að lagasetningunni og viðskiptavinur lánasjóðsins fram undir þann tíma að ég tók sæti á Alþingi. Mér er því nokkuð í minni aðdragandi þeirrar lagasetningar og hef ég fylgst sæmilega með að ég tel málefnum lánasjóðsins æ síðan, a.m.k. frá þeirri hliðinni sem að stjórnmálunum hefur lotið. Því miður er sennilega svo, herra forseti, að nú er það loksins að takast sem allmargar atrennur hafa verið gerðar áður að, þ.e. að breyta lögunum um námslán þannig að til hins verra er að mínu mati og verður manni þá auðvitað hugsað til þeirra fjölmörgu tilrauna sem hafa hnigið í þá átt á undanförnum árum. Fleiri en ein og fleiri en tvær ríkisstjórnir hafa verið með á málalistum sínum hugmyndir um breytingar á þessu fyrirkomulagi og þar hafa verið gamlir kunningjar sem eru enn á ferðinni eins og upptaka vaxta á námslán.
    Fyrri atlögum að þessum sjóði og þessum lögum tókst að hrinda, ekki síst með

órofa samstöðu námsmanna og skólamanna um að verja grundvallaratriði lánakerfisins frá 1982 sem ég held að flestum, sem skoða þessi mál frá sjónarhóli námsmanna og skólamanna og menntakerfisins í landinu, beri saman um að hafi reynst vel.
    Nú er því miður sennilega svo komið að varnirnar eru að bresta og sú ríkisstjórn sem nú ræður ferð í landinu virðist ætla að hafa að engu mótmæli skólanna, námsmannahreyfinganna, stjórnarandstöðunnar og fjölmargra fleiri aðila. Þá verður væntanlega í þeim skilningi að reikna það núv. hæstv. menntmrh. til tekna að hann sé að þessu leyti meiri maður en ýmsir forverar hans í stóli menntmrh. eins og fyrrv. hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir og Sverrir Hermannsson sem vissulega höfðu hugmyndir uppi um breytingar á þessum málum en létu við það sitja að krukka í námslánin hvað framkvæmdina snertir en létu lögin í friði.
    Ég hlýt að lýsa vonbrigðum mínum, herra forseti, ef svo fer að þetta stóra grundvallaratriði varðandi upptöku vaxta á námslán gengur í gildi. Ég vil annars vegar benda á þá hlið sem snýr að hinum efnislegu áhrifum vaxtaupptökunnar og þess að greiðslubyrðin af lánunum þyngist og hins vegar bendi ég á grundvallaratriðið gagnvart eðli þessarar fyrirgreiðslu sem ég tengi beint við spurningu við vexti eða ekki vexti. Mér finnst að það hljóti að vera eitt allra stærsta atriðið til þess að lýsa inn í þau viðhorf sem menn hafa til námslánakerfisins hvort menn líta á þau sem hin félagslegu framfærslulán, sem þau eru og eiga að vera að mínu mati, eða eitthvað annað. Spurningin ræðst af því hvort menn eru andvígir eða fylgjandi upptöku vaxta á þessi lán. Það er auðvitað hlutur sem menn verða að horfast í augu við hvort sem þeir eru sammála þessum efnistökum hæstv. ríkisstjórnar eða ekki og verða að ræða í þessu samhengi. Er ekki verið að framkvæma með þessu grundvallarstefnubreytingu á viðhorfum manna til þess hvað menntun er í þjóðfélaginu? Er ekki verið að segja að menntunin eigi ekki að meðhöndlast sem sú samfélagslega fjárfesting og sá þjóðarauður sem tilheyri okkur öllum? Á heldur að líta á menntunina sem einstaklingsbundna fjárfestingu og þar með sé réttlætanlegt að menn greiði fulla vexti af þeirri fjárfestingu sem í því felist að stunda nám um einhvern tiltekinn tíma á ævi sinni?
    Ég held að menn eigi ekki að komast upp með annað en að ræða þessi skilgreiningaratriði, þessi grundvallaratriði þegar högum þeirra sem eru að afla sér menntunar er raskað með þessum hætti. Ég er og hef verið þeirrar skoðunar að lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna og starfræksla námslánakerfisins með þeim hætti sem verið hefur frá 1982 sé ein allra merkilegasta almenna félagsmálalöggjöf og jafnréttislöggjöf í landinu og hún hafi reynst mjög vel hvað það snertir að ná fram megintilgangi laganna. Hver er hann? Hann er að tryggja jafnrétti til náms, að gera öllum námsmönnum sem vilja kleift að stunda nám og gera það með tilskildum árangri þannig að efnahagslegur bakgrunnur þeirra, aðstæður þeirra eða fjölskyldna þeirra hindri ekki þá sem lakar eru settir í þeim efnum. Ég held að enginn haldi því fram að lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna frá 1982 hafi ekki náð tilgangi sínum hvað þetta snertir. Ég fullyrði a.m.k. að það hafi þau gert með kannski betri og afdráttarlausari hætti en velflest önnur félagsmálalöggjöf af sambærilegum toga sem er ætlað eitthvert tiltekið hlutverk af þessu tagi.
    Það er kannski út af fyrir sig ekki skynsamlegt að ætla út í einhvern samanburð, velta því t.d. fyrir sér hvort löggjöf af skyldum toga á öðrum sviðum nái tilgangi sínum jafn vel og lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna. Við gætum t.d. velt fyrir okkur almannatryggingalöggjöfinni og því hlutverki sem henni er ætlað að leika í að jafna aðstæður manna í þjóðfélaginu en ég fullyrði að gildandi lög um Lánasjóð ísl. námsmanna, lög um námslán og námsstyrki, hafi náð mjög vel tilgangi sínum og kannski reynst betur í framkvæmd heldur en flest af skyldum toga. Mér finnst það þess vegna ábyrgðarhlutur og þurfa talsvert mikið til að varpa fyrir róða ákveðnum grundvallarþáttum í þeirri löggjöf eins og hér er verið að gera. Það er auðvitað með öllu ástæðulaust að ræða þessa hluti eins og það skipti ekki máli og sé nánast aukaatriði hvort sjálfur tilgangur og grundvöllur laganna stendur og hefur náðst fram og er í lagi. Ef það er eitthvað annað sem vakir fyrir mönnum með þeim lagabreytingum, sem nú eru á ferðinni, en það sem menn gefa upp þá eiga menn auðvitað að viðurkenna það og vera menn til þess að breyta lögunum á réttum stöðum, t.d. markmiðskafla þeirra ef þeir eru á því að þar þurfi breytinga við. Ef ekki, þá er þetta í lagi og þarf ekkert að standa í þessu, hæstv. menntmrh.
    Allir, sem hafa tekið þátt í umræðum um þessi mál á undanförnum mánuðum og missirum og hafa talið að fullkomin ástæða væri til þess að fara yfir lögin með tilliti til fjárhagsstöðu lánasjóðsins, velta því fyrir sér hvaða ráðstafanir væri hugsanlega hægt að gera til þess að styrkja fjárhagsstöðu sjóðsins og draga úr þeirri miklu fjárþörf sem hann þarf bæði í bráð og e.t.v. í lengd vegna þess hvernig endurgreiðslureglur og vaxtamunur í sjóðnum kemur inn í efnahag hans. Hæstv. ríkisstjórn getur ekki notað það sem afsökun fyrir þessum breytingum að menn hafi ekki verið tilbúnir til þess að ljá máls á breytingum í núverandi fyrirkomulagi í þessa átt. Það hafa menn verið. Tillögur liggja fyrir frá námsmannahreyfingunni og hugmyndir hafa verið reifaðar hjá stjórnarandstöðunni sem geta gengið verulega langt í þá átt að létta á þörf framlaga frá ríkissjóði á næstu árum og til lengri tíma litið í sjóðinn til þess að tryggja fjárhag hans. En því miður hefur hæstv. ríkisstjórn valið þá leið að gera ekkert með þennan vilja námsmannahreyfinganna, stjórnarandstöðunnar eða annarra aðila og keyra sína eigin braut sem leiðir til grundvallarbreytingar á þessu kerfi sem mikil andstaða er við eins og óþarft ætti að vera að rekja. Af því öllu saman tel ég auðvitað alvarlegast og verst ákvæðið um upptöku vaxta á námslán. Ég óttast því miður að þar verði ekki aftur snúið ef það óheillaákvæði kemst á annað borð inn í lögin.
    Það er auðvitað orðin slitin plata að gagnrýna vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum eins og öðrum. Maður er að verða harla leiður á að standa frammi fyrir því að þessi ríkisstjórn valdboðsins og einræðishyggjunnar veður áfram í hverju málinu á fætur öðru, hunsar algerlega allar eðlilegar kröfur um samráð við aðila. Það er sama hvort námsmenn eiga í hlut í dag, sveitarfélögin í gær eða einhverjir aðrir á morgun. Allur ferill ríkisstjórnarinnar er varðaður af þeim hugsunarhætti að henni komi meira og minna ekkert við hvað þolendurnir úti í þjóðfélaginu halda um gerðir hennar. Það eru svo sem ekki miklar vonir til þess að ríkisstjórnin geri mikið með afstöðu stúdenta eða námsmanna í landinu eða stjórnarandstöðunnar þegar hún veigrar ekki við sér að hunsa gersamlega lögbundið samráð t.d. við sveitarfélögin eins og raun ber vitni í vetur. Samt ætla ég enn að reyna að mótmæla og harma um leið það vinnulag sem hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. menntmrh. hefur valið sér í þessum efnum þar sem er auðvitað verið að þverbrjóta þær ágætu hefðir sem höfðu skapast í samskiptum námsmannahreyfingarinnar, stjórnar og stjórnarandstöðu á fyrri tíð um að að breytingum á þessari viðkvæmu löggjöf væri jafnan reynt að standa í sæmilegu samkomulagi. Þær voru undirbúnar í nefndum sem fulltrúar námsmanna, stjórnar og stjórnarandstöðu áttu sæti í og jafnan var reynt að leita lágmarkssamstöðu um meðferð þessara mála. Nefndaskipun hæstv. menntmrh. er þegar fræg að endemum, ekki bara í þessu máli heldur fleirum og satt best að segja er frammistaðan varðandi endurskoðun laganna um lánasjóðinn eitt það allra kostulegasta í þessum efnum eins og sjá má í fskj. með þessu frv. Nefndir hæstv. menntmrh. hafa báðar verið því marki brenndar að í þeim hafa hvorki verið fulltrúar stjórnarandstöðunnar og annaðhvort engir námsmenn eða þá fulltrúar námsmanna hafa verið valdir með ákaflega sérstökum hætti eins og þegar einu pólitísku félagi í einum skólanna sem viðskipti eiga við lánasjóðinn var úthlutað sérstaklega fulltrúa í nefnd sem vann að málinu.
    Það er auðvitað óhjákvæmilegt að á næstu árum munu þær breytingar, sem er verið að innleiða, verða mjög til umræðu og skoðunar varðandi aðstöðu þessara aldurshópa og árganga í þjóðfélaginu sem á komandi árum verða greiðendur þessara lána. Ég spái því að ekki séu öll kurl komin til grafar í þeim efnum þegar þetta fólk kemur úr námi og á að fara að hefja afborganir af námslánum strax tveimur árum eftir að námi lýkur. Þegar þetta fólk fer að reyna að afla sér íbúðarhúsnæðis og með ýmsum öðrum hætti að reyna að koma undir sig fótunum í þjóðfélagi verðtryggingar og hárra vaxta þá mun svo sannarlega á það reyna að uppi eru breyttir tímar. Ég óttast mjög að innan skamms muni næsta holskefla greiðsluerfiðleika húsbyggjenda og kaupenda íbúðarhúsnæðis í landinu halda innreið sína. Í raun og veru þarf ekki flókna útreikninga til að sjá að stefna mun í geysilega

greiðsluerfiðleika hjá þeim sem hafa tekið lán í húsbréfakerfinu á undanförnum missirum eða gera það á næstu árum miðað við óbreyttar rauntekjur alls almennings í landinu. Þegar við bætist þung greiðslubyrði af verðtryggðum námslánum með allt að 3% vöxtum þá held ég að engum geti blandast hugur um að það muni auðvitað verulega íþyngja þeim aldurshópum sem koma til með að verða þolendur þeirra hluta. En menn hafa kannski tilhneigingu til að segja ,,den tid, den sorg``, menn eigi ekki að hafa áhyggjur af því fyrr en þar að kemur og það sé þá best að mæta því með útgáfu á nýjum greiðsluerfiðleikalánum eða lengingu eða öðru slíku. Það hefur því miður ærið oft orðið niðurstaðan hjá okkur við kerfisbreytingar af þessu tagi að menn sulla þeim í gegn, setja kíkinn upp að blinda auganu varðandi augljósar afleiðingar þegar fram í sækir af slíkum breytingum og standa svo uppi í bullandi vandræðum þegar afleiðingarnar koma fram. Þannig hefur þetta farið aftur og aftur hjá okkur í sambandi við húsnæðismálin eins og frægt er orðið. Það hafa orðið örlög þessarar þjóðar að kollsteypa fyrirkomulaginu í þeim efnum með reglubundnu millibili á 3--5 ára fresti og samkvæmt því eru 2--3 ár eftir af húsbréfakerfinu. Skyldi þetta ekki fara þannig í sambandi við þessar breytingar, að menn eigi eftir að reka sig harkalega á þegar afleiðingarnar af þessum breytingum fara að koma í ljós. Það óttast ég, hæstv. menntmrh., en það verða þá e.t.v. einhver önnur grá höfuð sem þurfa að glíma við þann hausverk þegar þar að kemur. Þannig er því miður hugsunarhátturinn í allt of ríkum mæli í þessum efnum, menn horfa bara rétt fram fyrir tærnar á sér og ef þetta bjargast eða flýtur á meðan þeirra nýtur við, þá er þetta í lagi. En það finnst mér ekki alveg nógu myndarleg frammistaða í þessum efnum þó að það sé auðvitað ljóst að glíma þurfti við þann vanda sem er í rekstri lánasjóðsins nú og hefur auðvitað orðið mönnum æ betur ljós á undanförnum árum. Fúslega skal viðurkennt að menn hafa ýtt vandanum að nokkru leyti á undan sér og veigrað sér við að taka á honum. Það á ekki bara við um þá sem glímt hafa við þetta allra síðustu árin heldur má segja að það hafi meira og minna verið mönnum ljóst alveg frá því að menn fóru að bogna undan því að leggja nægjanleg ríkisframlög með sjóðnum á uppbyggingartíma hans. Á það hefur auðvitað margoft verið bent að væri það gert meðan uppbygging eigin fjár sjóðsins stendur gæti þetta kerfi séð um sig sjálft, þess vegna óbreytt eða með litlum breytingum án tiltölulega umtalsverðra ríkisframlaga þegar fram í sækir, þegar fjöldi námsmanna er kominn í jafnvægi, þegar þeirri miklu og snöggu fjölgun viðskiptavina sjóðsins sem staðið hefur undanfarin ár lýkur o.s.frv.
    Herra forseti. Af því að aðrir hafa svo rækilega farið yfir og gert grein fyrir einstökum efnisatriðum málsins og ég þarf ekki annað að gera í þeim efnum en vísa til þess sem þar hefur verið sagt af hálfu stjórnarandstöðunnar og lýsa yfir stuðningi við þær brtt. sem fluttar eru á þskj. 790 ætla ég nú að stytta mál mitt með því að vísa fyrst og fremst í þann texta. Ég ætla að ljúka máli mínu með því að nefna nokkur pólitísk álitamál sem ég tel tengjast afgreiðslu frv. umfram það sem ég hef þó þegar nefnt og með tilliti til þess að nú stendur til að ljúka fundi hér um lágnættið, þá ætla ég ekki að hafa mál mitt miklu lengra.
    Ég tel kannski að það alvarlegasta við við þessa breytingu sé sú skammsýni og sá litli metnaður sem almennt séð felst í þessum breytingum gagnvart menntunarstigi og sókn í menntun í þjóðfélaginu. Því miður er það svo að hæstv. ríkisstjórn er ekki á nokkrum einustu vígstöðvum að boða okkur sókn í slíkum tilvikum. Það er ekki verið að bæta skólakerfið, þvert á móti. Það er ekki verið að auka fé til rannsókna, þróunar og vísindastarfsemi og ekki verið að hvetja til aukinnar menntunar í þjóðfélaginu. Þvert á móti er verið að breyta frv. um lánasjóðinn þannig að það hlýtur augljóslega að verka letjandi á fólk að binda sér þungar skuldabyrðar vegna námsöflunar miðað við það endurgreiðslukerfi sem verið er að innleiða. Allt ber þetta að sama brunni þrátt fyrir umræður um að fátt ef nokkuð sé jafnmikilvægt í okkar nútíma tæknivæddu þjóðfélögum en að menntunarstig þjóðanna sé hátt og menn sæki fram í þeim efnum, það verði þekkingin sem e.t.v. verði mikilvægasta auðlind 21. aldarinnar. Ríkisstjórnin, ársgömul, er á því herrans ári 1992 að boða okkur afturför í þessum efnum. Þetta er mjög dapurlegt og kannski það alvarlegasta fyrir þjóðfélagið allt ef maður horfir fram hjá því sem beinist að einstökum þolendum breytinganna, einstökum námsmönnum nútíðar og framtíðar á Íslandi. Fyrir þjóðarbúið sjálft, fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf eru þetta ótíðindi í þeim skilningi að hér er auðvitað verið að halda í þveröfuga átt við það sem nánast allir lærðir menn og leikir sem um þetta fjalla eru sammála um að Íslendingar þyrftu að leggja áherslu á ef þeir ætla að halda sér í hópi velmegandi og háþróaðra þjóða. Þetta er kannski einna dapurlegast þegar almennt er um þetta talað af því sem birtist okkur í þessari málafylgju. Hitt er svo sem meira og minna gamalkunnugt, vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar og hvernig hún stendur að málum í þessu tilviki eins og fleirum.
    Af því að hér er enginn krati --- ég ætla ekki að harma það, ég er oft og tíðum tiltölulega ánægður með að það fer lítið fyrir þeim, herra forseti --- þá ætla ég að geyma mér nokkur orð sem ég hafði hugsað mér, ef vel stæði á, að beina til Alþfl. eða einhverra fulltrúa hans sem hefðu e.t.v. þann áhuga á málefnum námsmanna að vera hér viðstaddir í kvöld, t.d. þingflokksformaðurinn sem hefur áður látið sig þau mál varða á ýmsum stöðum í þessu húsi, ekki alltaf á þessari hæð að vísu þegar hann hefur haldið ræður um þau mál. Ég áskil mér þá rétt til þess, herra forseti, þegar nýr dagur verður upp runninn og áfram verður haldið umræðum um þetta mál að eiga orðaskipti við þingmenn í síðari ræðu minni við þessa umræðu.