Starfsemi skóla

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 10:34:00 (5705)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og mönnum er kunnugt eru það áform þessarar ríkisstjórnar að líta til óhagkvæmra rekstrareininga eins og það er stundum kallað af þeirra hálfu. Meðal annars var með þeim rökum lögð niður starfsemi Héraðsskólans í Reykjanesi. Ég hef því, virðulegi forseti, leyft mér að flytja fsp. til hæstv. menntmrh. um starfsemi skóla þar sem ég spyr í fyrsta lagi:
  ,,1. Eru uppi áform um að leggja niður starfsemi einstakra skóla, (grunnskóla, framhaldsskóla, sérskóla) á þessu ári og ef svo er, hvaða skóla er um að ræða og hvers vegna?``
    Ég vek sérstaka athygli á því sem ég hef áhuga á að fá svar við. Það eru fyrst og fremst hvort uppi eru áform um að leggja niður eitthvað af grunnskólum í fámennum sveitum eða dreifðum byggðum eða sameina þá öðrum.
  ,,2. Telur menntmrh. sig hafa heimild til þess að leggja niður starfsemi einstakra skóla um lengri eða skemmri tíma og ef svo er, hvar er þá heimild að finna?``