Starfsemi skóla

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 10:36:17 (5706)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Fyrri spurningin er: ,,Eru uppi áform um að leggja niður starfsemi einstakra skóla, (grunnskóla, framhaldsskóla, sérskóla) á þessu ári og ef svo er, hvaða skóla er um að ræða og hvers vegna?``
    Svar mitt við þessari spurningu er svohljóðandi: Það eru ekki að svo stöddu uppi áform um að leggja niður starfsemi einstakra skóla á þessu ári. Ég tek fram að sveitarstjórnir reka grunnskóla og ákveða skipulag grunnskólahalds í skólahverfi með samþykki ráðuneytisins.
    Síðari spurningin er svohljóðandi: ,,Telur menntmrh. sig hafa heimild til þess að leggja starfsemi einstakra skóla um lengri eða skemmri tíma og ef svo er, hvar er þá heimild að finna?``
    Svarið er svohljóðandi: Menntmrh. telur sig hafa heimild til þess að leggja niður starfsemi skóla um lengri eða skemmri tíma og þá samkvæmt tillögum sveitarfélaga ef um grunnskóla er að ræða. Skólar sem eru alfarið reknir og kostaðir af ríkinu, t.d. héraðsskólar, eru undir stjórn menntmrn. sem metur þörfina fyrir starfrækslu þeirra með hliðsjón af öðrum skólum á svæði viðkomandi skóla og aðsókn svo dæmi séu nefnd.