Ráðning skólastjóra Leiklistarskólans

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 10:40:54 (5709)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Svör mín við þessum þremur spurningum eru svohljóðandi: Skólanefnd, ekki skólastjórn Leiklistarskóla Íslands, fékk allar umsóknir til umsagnar eins og segir til um í 2. gr. reglugerðar um Leiklistarskólann. Í reglugerðinni segir: ,,Leita skal umsagnar skólanefndar áður en skólastjóri er ráðinn.``
    Skólanefndin greiddi fyrst um það atkvæði hverjir af umsækjendunum sex teldust hæfir til að gegna starfi skólastjóra. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að allir umsækjendur uppfylltu skilyrði til að gegna stöðunni en úrskurðaði fjóra þeirra hæfa til að takast á við hana núna. Sá umsækjandi, sem var ráðinn, var í hópi þeirra fjögurra sem skólanefndin taldi hæfa til að takast á við starfið.
    Greidd voru atkvæði um þá fjóra umsækjendur sem skólanefndin taldi hæfa til að takast á við starfið og hlaut einn umsækjandi fjögur atkvæði og annar þrjú. Í nefndinni eiga sæti níu manns en aðeins sjö þeirra voru mættir á þessum fundi þegar um málið var fjallað. Enginn umsækjandi hlaut því hreinan meiri hluta skólanefndarinnar sem er umsagnaraðili.
    Þegar athuguð var reynsla og ferill umsækjenda á sviði leiklistar og stjórnunar var það niðurstaða mín að sá umsækjandi sem valinn var væri hæfasti maðurinn til að gegna starfi skólastjóra að öðrum umsækjendum ólöstuðum. Hann hefur að baki áratugareynslu sem leikari, hefur kennt leiklist og verið formaður Félags ísl. leikara. Einnig hefur hann mikla reynslu af stjórnunarstörfum á sviði leiklistar og gegndi m.a. embætti þjóðleikhússtjóra um átta ára skeið. Það varð því niðurstaða mín að hann væri vel að starfinu kominn og raunar að ekki væri hægt að ganga fram hjá manni með svo víðtæka reynslu og langan feril á sviði leiklistarmála.
    Það er kveðið á um það í lögum að skólanefnd Leiklistarskóla Íslands er umsagnaraðili þegar ráðinn er skólastjóri við skólann. Það er því í verkahring skólanefndar að veita umsagnir um umsóknir áður en skólastjóri er ráðinn eins og gert var í þessu tilviki.