Ráðning skólastjóra Leiklistarskólans

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 10:45:10 (5711)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. spurði hvort ég hefði valið umsækjanda sem hefði fengið öll atkvæði umsagnaraðila. Það er erfitt að svara svona spurningum beint en ég held að það sé alveg ljóst að það væri erfitt fyrir ráðherra að ganga fram hjá svo einróma niðurstöðu umsagnaraðila þegar hann þarf að taka sína ákvörðun en ég legg áherslu á að það er ráðherrann sem ber ábyrgð á því hver gegnir starfi sem hann á annað borð skipar í þannig að það er í lokin hans að taka ákvörðunina. Ég svara þessu sem sagt þannig að það yrði eflaust nokkuð önnur staða fyrir ráðherrann en var í þessu tilviki ef umsagnaraðili væri á einu máli um hver skyldi hljóta stöðu.
    Varðandi þær hugleiðingar að taka þetta vald af ráðherra, þá er það út af fyrir sig alveg til athugunar. Það þýðir auðvitað það um leið að ráðherra ber enga ábyrgð á því hver hlýtur stöðu ef það vald er alfarið sett í hendur einhvers annars. Svo er ekki í þessu tilviki og meðan svona er að það er ráðherra sem ber hina pólitísku ábyrgð þá verður hann að taka ákvörðun um það sjálfur og hefur eftir atvikum hliðsjón af því sem umsagnaraðili eða umsagnaraðilar hafa fram að færa.