Verðlagning á veiðireynslu

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 10:50:03 (5714)

     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Undanfarið hefur nokkuð verið um það að fyrirtæki í sjávarútvegi hafi verið sameinuð. Við þessa sameiningu eða yfirtöku eins fyrirtækis á öðru hefur það tíðkast að fiskkvóti fyrirtækjanna hefur verið metinn til eigna. Í sumum tilvikum, ég veit þó ekki hve mörgum, hefur svokölluð veiðireynsla á utankvótafiski einnig verið reiknuð til verðmæta og þetta útreiknaða, áætlaða verðmæti, bókfært inn í sameiningu viðkomandi fyrirtækja sem eignarhluti, jafnvel ráðið miklu um stærð eignarhluta í nýju fyrirtæki. Gleggsta dæmi þessa er sameining Hraðfrystihúss Stokkseyrar og Glettings hf. í Þorlákshöfn þar sem þetta mat á veiðireynslu skiptir verulegu máli þegar eignarhlutur var ákveðinn í hinu nýja fyrirtæki, Árnesi hf. Sameining fyrirtækja í sjávarútvegi getur orðið til góðs og verður það vonandi í þessu tilviki en það er ekki sameining þeirra sem ég spyr hér um, heldur þær aðferðir sem viðhafðar eru við sameiningu fyrirtækja sem ríkið á aðild að.
    Vissulega er hægt að rökstyðja að úthlutaður aflakvóti sé metinn til verðmæta, sérstaklega vegna þess að þessi réttur til að nýta sameiginlega auðlind okkar allra, sem stjórnvöld úthluta, er seljanlegur. Það er hins vegar erfitt að skilja hvernig hægt er að meta veiðireynslu á fisktegundum utan kvóta til verðmæta. Hún er ekki seljanleg og vandséð hvernig hægt er að eignfæra hana í bókhaldi.
    Við sameiningu þeirra fyrirtækja sem ég nefndi áðan var annað fyrirtækið, Hraðfrystihús Stokkseyrar, að meiri hluta eign Hlutafjársjóðs sem heyrir undir stjórn Byggðastofnunar. Fulltrúi þeirrar stofnunar í stjórn fyrirtækisins sá um samninga fyrir hönd hraðfrystihússins. Samningarnir og þær aðferðir sem beitt var, þ.e. að meta veiðireynslu til eignar, hljóta að hafa verið borin undir stjórn þeirrar ríkisstofnunar sem þessi aðili er fulltrúi fyrir, þ.e. stjórn Byggðastofnunar. Því hlýt ég að álykta að þegar svo stór ákvörðun er tekin, ákvörðun sem er fordæmisgefandi, að verðleggja sem eignarhlut veiðireynslu á fisktegundum utan kvóta, hafi sú ákvörðun verið borin undir ríkisstjórn. Ef til vill hefði verið eðlilegra, virðulegi forseti, að beina þeim spurningum sem ég set fram á þskj. 472 til hæstv. forsrh. þar sem Byggðastofnun heyrir undir forsrn. en með fullri virðingu fyrir hæstv. forsrh. þá hef ég þá trú að hæstv. sjútvrh. viti meira um málið og því spyr ég hann:
  ,,1. Hefur ráðherra kynnt sér hvaða brögð eru að því að veiðireynsla á fisktegundum utan kvóta sé verðlögð við sölu og samruna fyrirtækja í sjávarútvegi þar sem opinberir sjóðir eiga hlut að máli?
    2. Hafa stjórnvöld mótað afstöðu til slíkra viðskipta?``