Áhrif EES-samnings á innflutning og sölu áfengis

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:10:10 (5722)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Norðurlöndin innan EFTA hafa öll áfengiseinkasölur. Þau hafa ekki litið svo á að í samningunum um Evrópska efnahagssvæðið felist skuldbindingar um að fella þessar einkasölur niður. Framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hefur ekki andmælt þeim túlkunum samkvæmt þeim upplýsingum sem dómsmrn. hefur fengið frá viðskiptaskrifstofu utanrrn. að því gefnu að einstökum vörutegundum sé ekki mismunað eftir því frá hvaða landi þær koma.
    Samkvæmt upplýsingum sem dómsmrn. hefur frá fjmrn., þá lítur það ekki svo á að samningarnir um Evrópska efnahagssvæðið feli í sér neinar kvaðir um það að breyta því einkasölufyrirkomulagi sem nú er við lýði. Samkvæmt þeim upplýsingum bendir ekkert til þess að þessir samningar feli í sér neinar skuldbindingar af því tagi gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Við erum frjálsir að því að halda núverandi kerfi áfram að því tilskildu að

ekki verði um að ræða mismunun milli vörutegunda.
    Hitt er svo annað mál að mín skoðun er sú að þetta einkasölufyrirkomulag orki um margt tvímælis, ekki síst að því er varðar innflutninginn. En samningarnir um Evrópska efnahagssvæðið knýja ekki á um breytingar á því. Það yrði þá algerlega sjálfstæð ákvörðun Alþingis og stjórnvalda ef til þess kæmi.