Áhrif EES-samnings á innflutning og sölu áfengis

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:16:00 (5725)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég treysti mér vitaskuld ekki til þess að eyða efasemdum hv. þm. hvorki um þetta atriði né önnur að því er varðar samningana um Evrópskt efnahagssvæði, jafnvel þó að ég hefði lengri tíma en fyrirspurnatíminn gefur tilefni til. En ástæðan fyrir því að ég vísaði til svara sem dómsmrn. leitaði eftir frá utanrrn. og fjmrn. er sú að utanrrn. fer með samninga fyrir Íslands hönd um Evrópska efnahagssvæðið og innflutningur á áfengi og áfengiseinkasala ríkisins er hins vegar á ábyrgð fjmrn. Það lá því í augum uppi að þessi tvö ráðuneyti hlutu að gefa það álit sem ég byggði svar mitt á. Innflutningur á áfengi og sala þess heyrir ekki undir dómsmrn. þó að áfengislöggjöf að öðru leyti heyri undir það ráðuneyti.
    Ég hef ekki neina ástæðu til þess að draga í efa þá túlkun sem fram kemur frá utanrrn. og fjmrn. um þetta efni enda er hún í fullu samræmi við þá niðurstöðu sem stjórnvöld annarra EFTA-ríkja á Norðurlöndum hafa komist að. Fyrir þá sök tel ég ekki að ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af þessu af hálfu þeirra sem eru mjög sannfærðir um að þetta fyrirkomulag sé nauðsynlegt.
    Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að það er ekki tilefni til þess að hefja umræður um það með hvaða hætti eigi að standa að innflutningi og sölu á áfengi en vegna fyrirspurnar hv. 9. þm. Reykn. tel ég að það sé augljóst að frelsi í innflutningi á áfengi mundi ekki breyta neinu að því er varðar áfengisdrykkju eða venjur um meðferð á áfengi. Ég tel ekki að það séu miklar líkur á því að breytingum í smásölu mundu fylgja verulegar breytingar í því efni. En hér er einfaldlega um að ræða persónulegt mat af minni hálfu sem ekki byggist á neins konar könnun eða athugun. Ég hef ekki verið að gerast hér tillögumaður að breytingum en aðeins lýst þeirri skoðun minni að það sé fullkomið álitaefni hvort núverandi fyrirkomulag er eðlilegt.