Verslunarálagning

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:19:11 (5726)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Í þessum sal tölum við oft um það hvað hlutirnir kosta. Við vitum t.d. hvað Lánasjóður ísl. námsmanna kostar. Þar eru menn að tala um 2 milljarða í beinum ríkisútgjöldum, 2 milljarða í lántökum. Við vitum hvað skólakerfið kostar. Það kostar 12--14 milljarða kr. Við vitum hvað heilbrigðiskerfið kostar. Við vitum hvað það kostar að reka Ríkisspítalana, það kostar 6 milljarða kr. Við vitum hver er hallinn á ríkissjóði.
    Núv. ríkisstjórn hefur sett sér það að lækka hallann á ríkissjóði. Hún talar þar um að hallinn hafi verið mikill og hún sé að taka hann niður í 4 milljarða kr. hvort sem það tekst eða ekki. Við vitum hvað er tekið í tekjuskatt af fólki. Við vitum hvað er tekið í aðstöðugjöld af fyrirtækjum, virðisaukaskatt o.s.frv. En í þessum sal er aldrei rætt um einn meginþátt hagkerfisins sem er verslunarálagning í landinu. Það eru þeir peningar sem við borgum í skatta fyrir að halda uppi verslun í landinu, verslunarskattar, í hvert einasta skipti sem við förum út í búð hvort sem við kaupum stóra hluti eða smáa. Hér er um gíðarlega fjármuni að ræða. Það hefur m.a. komið fram, t.d. árið 1978 í könnun sem þáv. viðskrh. Ólafur Jóhannesson lét gera, að heildsöluverslun á Íslandi er einhver sú dýrasta í heiminum. Hún er 10--20% dýrari en hún þyrfti að vera að mati Verðlagsstofnunar á þeim tíma. Svarið var þá að það þyrfti að auka frelsi í þessum efnum, það mundi þýða minni kostnað. Niðurstaðan úr því liggur út af fyrir sig ekki fyrir og bendir nú fátt til þess að kostnaður við verslun í heild hafi lækkað við þetta svokallaða aukna frelsi á þessu sviði.
    Til þess að Alþingi, a.m.k. Alþingistíðindi, fái að vita hvað verslunin kostar á Íslandi hef ég borið fram þessar fsp. til hæstv. viðskrh.:
  ,,1. Hverju nemur samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum heildarálagning heildsöluverslunar, í krónum talin, á þessu ári, 1992?
    2. Hver er á sama hátt heildarálagning smásöluverslunar á þessu ári?
    3. Hvert er hlutfall verslunarálagningar samtals sem hluti af vergri landsframleiðslu?``