Verslunarálagning

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:22:00 (5727)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég byggi svar mitt við fyrirspurnum hv. 9. þm. Reykv. á atvinnuvegaskýrslum Þjóðhagsstofnunar fyrir árin 1987--1990 þar sem endanlegar tölur fyrir árið 1991 liggja ekki fyrir og áætlanir fyrir yfirstandandi ár eru því byggðar á þessu eldra efni.
    Í skilgreiningum Þjóðhagsstofnunar og Hagstofu á því hvaða atvinnustarfsemi teljist til verslunar eru taldar eftirtaldar starfsgreinar: Heildverslun, olíuverslun, bifreiðaverslun og byggingavöruverslun auk almennrar heildverslunar og að sjálfsögðu smásöludreifing. Álagningin er í þessum reikningum skilgreind sem sú hlutfallslega hækkun sem verður milli vörusölu og vörunotknar eins og þessir liðir koma fram í ársreikningum fyrirtækjanna. Eins og ég hef þegar sagt liggja ekki fyrir endanlegar tölur fyrir árið í fyrra og nokkur óvissa er um áætlanir fyrir yfirstandandi ár en með þeim áætlunaraðferðum sem Þjóðhagsstofnun beitir þá benda tölurnar til þess að álagning í heildsölu verði 25 milljarðar á þessu ári og álagning í smásölu um 20 milljarðar kr. á þessu ári. Þá er miðað við svipað álagningarhlutfall og var á árinu 1990.
    Þá var spurt hvert sé hlutfall álagningar í heildverslun og smásöluverslun samtals af landsframleiðslunni á þessu ári. Miðað við áætlaða landsframleiðslu og þessar tölur, sem ég hef þegar nefnt, yrði hlutfallið um eða innan við 12% eða líkt og áætlun fyrir árið 1991. Annar mælikvarði á umsvif verslunar í þjóðarbúskapnum er að líta á vergar þáttatekjur í verslun og vergar þáttatekjur í heild og þá er hlutfall verslunar af landsframleiðslu skilgreind á þennan hátt um eða innan við 10%. Að sjálfsögðu er hér fyrst og fremst um það að ræða að mæla hvers virði er vinnuframlag þess fólks og þess fjármagns sem bundið er í þessari mikilvægu atvinnugrein.
    Virðulegi forseti. Með þessu vona ég að ég hafi svarað fyrirspurnum hv. 9. þm. Reykv.