Verslunarálagning

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:24:33 (5728)


     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Svör hæstv. viðskrh. eru skýr. Þau svara því sem spurt er um með skilmerkilegum hætti. Heildsöluverslunin kostar þrisvar sinnum meira en skólakerfið á Íslandi. Smásöluverslunin kostar meira en öll heilbrigðisþjónustan. Það er talið að heilbrigðisþjónustan á Íslandi taki um 7--8% af landsframleiðslunni í sinn hlut. Verslunin tekur 12%. Það er talið að skólarnir á Íslandi kosti 3,5--4% af landsframleiðslu, verslunin kostar 12%. Þetta segir auðvitað það sem segja þarf um þessar stærðir og það er kostulegt að þær skuli ekki oftar vera ræddar í hinu almenna samhengi efnahagsmála á Íslandi því að ég hygg að niðurstaðan verði sú að verslun á Íslandi sé í heild óhæfilega dýr og taki til sín óhæfilega mikið af fólki miðað við það sem gerist annars staðar og á þessu sviði mætti ná fram verulegum sparnaði og hagræðingu í kostnaði í þágu neytenda og þar með kjara almennings í landinu.