Hagnaður banka og sparisjóða 1991

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:30:30 (5731)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Reykv. spyr hverju nemi samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum heildarhagnaður banka, Seðlabanka, viðskiptabanka og sparisjóða, áður en reiknaðir eru af því fé skattar fyrir árið 1991. Því er til að svara að nú liggja fyrir reikningar viðskiptabankanna þriggja og fimm stærstu sparisjóðanna fyrir árið 1991 en þessar átta innlánsstofnanir sem ég hef nefnt ná til um 95% af viðskiptabönkum og sparisjóðum í heild þegar miðað er við heildareignir þessara stofnana. Þá liggja að sjálfsögðu fyrir gögn um afkomu Seðlabankans á liðnu ári.
    Ég ætla að svara í tvennu lagi, annars vegar um afkomu viðskiptabanka og sparisjóða á liðnu ári og bera það saman við afkomu undanfarinna ára og hins vegar skýra frá afkomutölum Seðlabankans. Því er til að svara með afkomu viðskiptabanka og sparisjóða að hjá átta innlánsstofnunum sem ég nefndi var hagnaður fyrir tekju- og eignarskatta 723 millj. kr. samtals á árinu 1991 samanborið við 1167 millj. kr. árið 1990. Hagnaður eftir tekju- og eignarskatt nam 380 millj. kr. á árinu 1991 í samanburði við 903 millj. kr. árið áður. Arðsemi eigin fjár nam 2,4% á árinu 1991 samanborið við 6,5% árið áður.
    Ég þykist viss um að talsmenn bankanna mundu ekki kannast við þá gullöld og gleðitíð sem hv. fyrirspyrjandi taldi að ríkt hefði í þeirra búskap á liðnu ári. Sannleikurinn er sá að hagnaður banka og sparisjóða var lítill í fyrra og arðsemi mun minni en verið hefur á undanförnum árum. Skýringarnar eru fyrst og fremst þær að vaxtabilið hefur minnkað á liðnu ári og reyndar hefur orðið um nokkra hækkun á útlánaafskriftum að ræða en þó ekki í fyrra. Úr þeim dró heldur á liðnu ári þannig að skýringar þær og lýsingar sem hv. fyrirspyrjandi gaf áðan eru ekki í samræmi við veruleikann. Sannleikurinn er sá að á síðustu þremur árum hefur hagnaður banka og sparisjóða minnkað og sérstaklega þegar litið er á hann í hlutfalli við eigið fé bankanna. Skýringarnar eru að mínu áliti ekki síst aukin samkeppni og minnkandi vaxtabil og sú staðreynd að aðlögun í kostnaði hefur ekki alveg fylgt þessu eftir.
    Um Seðlabankann er það að segja að hagnaður hans fyrir skatta nam á árinu 1991

1.164 millj. kr. samanborið við 118 millj. kr. tap á árinu 1990. Hagnaður eftir skatta nam 478 millj. kr. samanborið við 888 millj. kr. tap á árinu 1990. En eins og kunnugt er greiðir Seðlabankinn skatta sem nema um helmingi af hagnaði miðað við meðaltal hagnaðar á þremur árum eins og þetta er núna reiknað, þ.e. hann greiðir skatt þótt um tap sé að ræða á líðandi ári hafi hagnaður fyrri ára nægt til að vega það upp. Skýringin á þessari hagnaðarfærslu hjá Seðlabankanum er fyrst og fremst gengisendurmat vegna breytinga á gengi erlendra gjaldmiðla í gjaldeyrisvaraforða landsins sem varðveittur er hjá Seðlabankanum. Eins og vel er kunnugt valda breytingar á gengi miklum sveiflum í afkomu bankans sem hafa ekkert með það að gera hvernig afkoma hans í venjulegum viðskiptalegum skilningi er á hverjum tíma.
    Ég vona að með þessu, virðulegi forseti, hafi ég svarað spurningum hv. 9. þm. Reykv. og vona að hann sé nú nokkru nær um afkomu bankanna.