Þúsund ára afmæli kristnitöku á Íslandi

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:41:00 (5735)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Íslendingum er ekki sérlega tamt að hugsa langt fram í tímann. Það gerðist þó á árinu 1986 að Alþingi samþykkti þáltill. um það hvernig unnið skyldi að undirbúningi þúsund ára afmælis kristnitöku á Íslandi. Ég hygg að það sé býsna óvenjulegt að horft sé svo langt fram í tímann og því er ekki óeðlilegt að spurt sé nú, þegar átta ár eru til stefnu, hvað þessum undirbúningi líði og hvaða hugmyndir séu á ferð hjá þeim sem eru að undirbúa þetta afmæli.
    Ég vil ekki draga dul á það að ástæðan fyrir fsp. minni er sú að ég vil fylgjast með því sem þarna er á ferð vegna þess að ýmsar þær hugmyndir sem voru ræddar í þessu samhengi ollu mér miklum áhyggjum. Þá er ég sérstaklega að hugsa um ýmsar byggingaframkvæmdir á Þingvöllum og annað í þeim dúr sem ég tel ekki koma til mála og vona að skýrist á eftir að hafi verið aflagðar. En fyrirspurn mín til hæstv. forsrh. er svohljóðandi:
  ,,1. Hvað líður undirbúningi fyrir þúsund ára afmælishátíð kristnitöku á Íslandi, sbr. þál. frá 17. apríl 1986 og 26. mars 1990?
    2. Hvaða ákvarðanir hafa verið teknar nú þegar um framkvæmdir, útgáfu og hátíðahöld til að minnast kristnitökunnar?``