Þúsund ára afmæli kristnitöku á Íslandi

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:43:13 (5736)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 18. þm. Reykv. hefur borið fram svohljóðandi fsp. í tvennu lagi:
  ,,1. Hvað líður undirbúningi fyrir þúsund ára afmælishátíð kristnitöku á Íslandi, sbr. þál. frá 17. apríl 1986 og 26. mars 1990?``
    Í samræmi við þessar ályktanir Alþingis skipuðu forsetar þess í samráði við biskup Ísland ritnefnd til að standa að riti um sögu kristni á Íslandi og um áhrif hennar á þjóðlíf og menningu í þúsund ár. Dr. Hjalti Hugason var ráðinn ritstjóri verksins en ákveðin tímabil eru rituð af sérstaklega ráðnum höfundum. Þetta verk er nú hafið og er áætlað að kristnisaga Íslands komi út vel fyrir árið 1999.
    Síðari spurning hv. þm. hljóðar svo: ,,Hvaða ákvarðanir hafa verið teknar nú þegar um framkvæmdir, útgáfu og hátíðahöld til að minnast kristnitökunnar?``

    Í framhaldi af óformlegum fundi forseta Íslands, forsrh. og forseta sameinaðs þings með biskupi Íslands haustið 1989 samþykkti þáv. ríkisstjórn að þessir aðilar, auk forseta Hæstaréttar, mynduðu nefnd um undirbúning Kristnihátíðar árið 2000. Auk þess, eins og fyrr segir, hefur nefnd þessi ákveðið að hið opinbera í samvinnu við Hið íslenska Biblíufélag standi að þýðingu Gamla Testamentisins úr hebresku og útgáfu nýrrar Biblíu af því tilefni. Til verksins hefur verið veitt af fjárlögum sem nemur launum tveggja háskólakennara og miðar því vel áfram. Aðalþýðandi er dr. Sigurður Steingrímsson en formaður þýðingarnefndarinnar er dr. Þórir Kr. Þórðarson. Vonir standa til að þýðingu verði lokið árið 1999 og að Biblían geti komið út á sjálfu afmælisárinu, árið 2000.
    Þessir tveir þættir eru, eins og fram hefur komið, langtímaverkefni en mikið hefur verið rætt um hvernig að þessum undirbúningi skyldi staðið. M.a. kom fram hugmynd um að reisa fjölnota minningarbyggingu á Þingvöllum. Skyldi það vera kirkja auk fundarsala. Nefndin taldi ekki eðlilegt að ráðist yrði í slíkar framkvæmdir og vildi heldur styðja þau verk sem þegar er getið.
    Enn aðrir þættir eru til umfjöllunar í nefndinni en engar ákarðanir hafa verið teknar. Fyrir liggja tillögur um að efna til samkeppni um ljóð og tónverk eða leikritun. Um þetta hyggst nefndin fjalla á næstunni. Framkvæmd þessa yrði þá þannig háttað, svo sem verið hefur um hin tvö fyrrgreindu verkefni, að skipaðar verði undirnefndir, framkvæmdanefndir, en kristnihátíðarnefndin hafi yfirumsjón með þessum verkum.
    Um sjálft afmælisárið hefur lítið verið rætt en það er á dagskrá nefndarinnar síðar á þessu ári.