Skýrsla Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna í heiminum

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 12:09:12 (5752)


     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég verð --- áður en ég læt þá ósk í ljósi að ég vona að önnur ráðuneyti grípi til sinna ráða fyrst utanrrh. treystir sér ekki til að láta þýða þessa skýrslu á sínum vegum --- að vekja athygli á því að mér er kunnugt um það eins og flestum landsmönnum að utanrrn. hefur verið mjög stórtækt í þýðingum, og væntanlega á nauðsynlegum þýðingum, að undanförnu vegna EES-samninganna og þar hefur áreiðanlega margur pappírinn verið þýddur sem ekki er eins bitastæður og þessi sem ég hér er að vekja athygli á.
    Hins vegar þykist ég mega skilja það á svari hæstv. ráðherra að hér muni þá koma til kasta annarra ráðherra og hafði ég raunar er ég bar þessa fsp. fram hugsað mér að e.t.v. væri vænlegra að beina henni til hæstv. félmrh. Ég sé þá ekki annað en að það blasi næst við að spyrja hæstv. félmrh. hliðstæðrar spurningar og vonast til þess að mæta þar skilningi á þessari merkilegu skýrslu og nauðsyn þess að hún verði þýdd því að ég tek undir með fyrrv. aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að þetta eru nauðsynlegar upplýsingar, ekki einungis til þess að skoða heldur einnig hvetja menn til aðgerða.