Lóranstöðin á Gufuskálum

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 12:11:12 (5753)

     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 696 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. um Lóranstöðina á Gufuskálum. Lóranstöðin á Gufuskálum hefur gegnt mjög mikilvægu hlutverki á sviði öryggisþjónustu, bæði við skip og flugvélar. Þess vegna hafa mjög margir áhyggjur af því hvaða framtíð hún eigi fyrir sér en umræður hafa verið um að stöðin verði lögð niður. Á Gufuskálum er fjöldi atvinnutækifæra sem ekki mundu verða til staðar ef stöðin yrði lögð niður. En það allra mikilvægasta eru e.t.v. þær áhyggjur sem sjómenn hafa af því að lórankerfið verði aflagt. Þær áhyggjur byggjast m.a. á því að þeir óttast að hið svokallaða GPS-kerfi sem bent er á, nýtist sjómönnum ekki eins vel og það sé ekki eins öruggt, ekki síst vegna þess að það er algjörlega undir stjórn og á vegum Bandaríkjamanna sem geta ráðið því hvenær það er starfrækt og hvenær ekki.
    Einnig taldi ég ástæðu til þess að spyrjast fyrir um það ef stöðin yrði lögð niður, hvernig mannvirki yrðu nýtt þarna, en þarna er fjöldi íbúðarhúsa og annarra mannvirkja sem eru auðvitað mikils virði.

    Þess vegna leyfi ég mér, virðulegi forseti, að spyrja:
  ,,1. Er afráðið að leggja niður starfsemi Lóranstöðvarinnar á Gufuskálum og hætta þjónustu við skip og báta?
    2. Hefur verið tryggt að annað sambærilegt staðsetningarkerfi komi í stað lórankerfisins?
    3. Hvernig verða mannvirki og byggingar Lóranstöðvarinnar nýttar ef starfsemi stöðvarinnar verður hætt?``