Sjálfvirkt tilkynningarkerfi fyrir skip

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 12:24:46 (5758)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Á undanförnum mánuðum hafa farið fram viðræður milli Pósts og síma og kerfisverkfræðistofu í samráði við Slysavarnafélag Íslands um tæknilega útfærslu sjálfvirka tilkynningarkerfisins og væntanlega um stofn- og rekstrarkostnað þessa kerfis. Er þá gert ráð fyrir kerfi sem miðast við að ná til fiskiskipaflotans á grunnslóð, þ.e. allt að 60 sjómílur frá ströndinni. Þessar viðræður eru vel á veg komnar og er búist við að sameiginlegar tillögur þessara aðila berist samgrn. nú í vor. Ráðuneytið mun í framhaldi af því taka ákvörðun um hvort sjálfvirka tilkynningarkerfið verði lögbundið í íslensk skip. Sú ákvörðun byggist m.a. á því hver stofn- og rekstrarkostnaður verður og hvaða aðilar standa undir honum. Hagsmunasamtök í sjávarútvegi og siglingum telja kerfið mikilvægt öryggiskerfi en engin niðurstaða hefur fengist um fjármögnun kerfisins.
    Eins og fram hefur komið er kerfinu fyrst og fremst ætlað að þjóna fiskiskipum á grunnslóð. Hins vegar hefur ætíð verið gert ráð fyrir að auka langdrægni þess síðar, t.d. með gagnasendingum um gervihnetti. Nokkrir togarar eru nú þegar búnir fjarskiptatækjum sem henta í þessu skyni og tæknilega er ekkert sem kemur í veg fyrir að kaupskip með Inmarsat-gervihnattabúnaði tengist sjálfvirka tilkynningarkerfinu. Þannig gæti Tilkynningaskyldan fylgst með ferðum íslenskra kaupskipa á öllum heimshöfum.
    Það skal tekið fram að tilraunarekstur sjálfvirks tilkynningarkerfis er í fullum gangi á vegum Tilkynningaskyldunnar og kerfisverkfræðistofu og er gert ráð fyrir að halda þessum tilraunum áfram þar til ákvörðun um framtíð kerfisins hefur verið tekin.