Staðfesting á samkomulagi um sölu á nautgripakjöti

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 12:34:09 (5761)


     Pálmi Jónsson :

    Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Þau voru afdráttarlaus. Hann hyggst ekki staðfesta það samkomulag sem um er spurt. Það kom fram í svari hæstv. ráðherra að samkomulagið er reist á mjög hæpnum grunni og til þess að það megi staðfesta skortir lagalegar forsendur.
    Samkomulagið byggir m.a. á því að fram verði komið tvenns konar skattlagningu á sláturleyfishafa til að styðja þá sem safna kjötbirgðum og ná eigi að selja alla þá framleiðslu sem þeir taka við. En það verði gert á kostnað hinna sem selja sína vöru jafnóðum og slátrað er. Um þetta efni mætti margt segja sem ekki er tilefni eða tími til hér. Það má vekja athygli á því að framleiðsla á nautgripakjöti hefur verið nokkuð sveiflukennd. Og nú um þessar mundir berast nokkuð ósamhljóða fregnir af því hversu miklar birgðir séu af þessari vöru og fjölda gripa sem bændur bíða eftir að slátrað verði. En ég hygg að best sé að stjórna framleiðslu á þessari vöru með þeim hætti að slátrað sé eigi umfram það sem selst hverju sinni og mun þá markaðurinn fljótt hafa áhrif á ásetning bænda og um leið framboð sláturgripa og þannig verði jafnvægi best náð.