Stöðvun á notkun ósoneyðandi efna

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 12:45:14 (5765)


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir svör hans. Ef ég hef skilið ráðherrann rétt þá er hann að gefa skuldbindandi yfirlýsingu um að Ísland muni setja reglur um að allri notkun ósoneyðandi efna, sem eru á bannlista, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, verði hætt hér á landi fyrir 1. jan. 1995. Ég vænti að þarna sé bæði um að ræða klórflúorkolefni og halonefni sem eru ósoneyðandi. Samkvæmt þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra er hann hér fyrir hönd íslenskra stjórnvalda að gefa yfirlýsingu um að ganga mun hraðar fram í þessu efni en fram kom í svari ráðherrans 13. febr. sl.
    Ég tel að þetta séu jákvæð og góð viðbrögð og markverð tíðindi að þessi yfirlýsing hefur komið hér fram af hálfu hæstv. ráðherra vegna þess að það hefur mikla þýðingu fyrir Ísland og baráttu Íslands á ýmsum sviðum umhverfismála að við sláumst í hóp þeirra sem lengst vilja ganga í þessum efnum og nokkuð vilja á sig leggja til að það verði unnt. Það sýnist mér að hér sé á ferðinni. Ég veit auðvitað ekki hvers eðlis þeir fyrirvarar eru sem hæstv. ráðherra gat um að settir mundu verða varðandi málið, en ég vænti að þeir séu ekki opnari, þeir gangi ekki lengra en gerist hjá þeim þjóðum sem hæstv. ráðherra var að bera sig saman við og hafa gefið hliðstæða yfirlýsingu miðað við umrædd tímamörk.
    Satt að segja kom mér á óvart þegar hæstv. ráðherra gat um það að Danmörk væri ekki í hópi þeirra sem ætluðu að hætta notkun ósoneyðandi efna fyrr árið 1999 ef ég hef tekið rétt eftir. Ég hélt að þeir væru samstiga Noregi og Svíþjóð að þessu leyti. En um ýmis önnur Evrópuríki gildir það þar á meðal Þýskaland að þeir eru í hópi þessara ríkja. Þessi samfylking mun væntanlega hafa áhrif á niðurstöður endurskoðunarfundarins varðandi Montreal-bókunina síðar á árinu og líkurnar á að það megi styrkja hana og setja þau tímamörk sem hér um ræðir náist fram sem formleg breyting á þessari alþjóðasamþykkt. Á fundi Norðurlandaráðs, þegar ég spurðist fyrir um þetta atriði í Norrænu ráðherranefndinni, þá komu því miður ekki skuldbindandi svör því að einhverjir voru þeir sem skemmra vildu ganga en hinir. En nú er Ísland sem sagt búið að stilla sér rétt inn í raðirnar miðað við það sem hér kom fram hjá hæstv. ráðherra og ég vænti að sé rétt eftir tekið að það séu bæði klórflúorkolefni og halonefni sem eigi að banna hér í síðasta lagi frá 1. jan. 1995. Vonandi ganga menn greiðar fram eftir því sem kostur er þangað til.