Stöðvun á notkun ósoneyðandi efna

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 12:48:53 (5766)


     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég skal aðeins ítreka það sem ég sagði hér áðan að það er í gangi vinna við reglugerð um bann við innflutningi, sölu og notkun klórflúorkolefna og halona þar sem sett verða ákveðin tímamörk og gert ráð fyrir að notkun á öllum klórflúorkolefnum og halonum, sem eru á bannlista, verði hætt fyrir 1. jan. 1995 eins og í Noregi og Svíþjóð en með ákveðnum fyrirvörum eins og ég nefndi hér áðan sem verða væntanlega svipaðs eðlis og ekki rýmri varðandi nein marktæk atriði en þar. Ég nefni hér eina ákveðna notkun sem er í farþegaflugvélum, í slökkvikerfum þeirra, þar sem þessi tæki og þessi efni hafa verið notuð til að slökkva elda án þess að skaða fólk í lokuðu rými. Það hefur ekki enn að mér er best kunnugt fundist efni sem kemur fyllilega þarna í staðinn en áreiðanlega verður þess ekki langt að bíða.
    Ég nefni það líka að það er sérstakt átak í gangi hér á norðurhveli jarðar í ósonrannsóknum. Við höfum stundað þær lengur en flestar aðrar þjóðir allar götur síðan 1957. Nú stendur til að auka þær rannsóknir með nokkrum hætti, þ.e. að beita nýjum tækjum sem þykja mæla betur um vetur og enn fremur að taka upp mælingar á útfjólublárri geislun. Allt tengist þetta saman og allt held ég að þetta sé gagnlegt og nauðsynlegt en er auðvitað háð því að nokkru leyti að það takist að útvega eitthvað svolítið aukið fjármagn til þessara verka.
    Hér er auðvitað um mikilvægt mál að ræða en ég fullvissa hv. þm. um það að við ætlum okkur ekki að verða eftirbátar annarra í þessum efnum en hitt er svo það varðandi það sem hann nefndi um ártöl og yfirlýsingar annarra þjóða að hlutirnir breytast mjög ört um þessar mundir í þessum efnum. Þjóðirnar setja sér stífari og strangari reglur hver af annarri. Ég á von á að þessi reglugerð geti komið út fyrir áramót, það er enn nokkur vinna eftir, síðan þarf að kynna hana með formlegum hætti og þar eru ákveðnir tímafrestir. Ef

öll vinnan gengur eftir áætlun vonast ég til að unnt sé að birta þessa reglugerð eftir fimm til sex mánuði og ég mun fylgja því eftir að þeirri tímaáætlun verði haldið ef ekkert óvænt kemur upp.