Atvinnumál á Suðurnesjum

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 13:34:00 (5768)



     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Framsögumaður fyrir þáltill. sem hér er rædd gerði það réttilega að umtalsefni að umræður um hana fyrir nokkrum vikum fóru allvíða bæði í tíma og svæði. Í sjálfu sér er þetta eðlilegt því að tillagan víkur að átaki í atvinnumálum þó að það sé sérstaklega talað um atvinnuleysi kvenna. Atvinnuástandið er vissulega verðugt umfjöllunarefni og rétt að huga að því hvað hægt er að gera til úrbóta. Ástandið á Suðurnesjum er mjög slæmt. Ég hef sagt það áður að það fer bráðum að eignast hálfs árs afmæli, en hversu mikið er það?
    Fyrir fáeinum vikum ræddu fjölmiðlar landsins ítrekað um atvinnuástand. Þeir gátu þess aftur og aftur að á ákveðnum landshlutum væri atvinnuleysi yfir 4%, hugsið þið ykkur. Engan heyrði ég eða sá nefna að meðal kvenna á Suðurnesjum er atvinnuleysi nú 7,5%, ekki 4% og fyrir rúmum mánuði var það 8,5%. Líka þá þögðu þessir landsfjölmiðlar því að þeir eru fjölmiðlar alls landsins, þeir kalla sig það og fá birtingu og dreifingu í samræmi við það. Lítum nú aðeins á hvernig þeir hafa veitt þessu athygli. Það vil ég gera vegna þess að þeir hafa greinileg áhrif á það hvernig ráðherrar sem því miður eru ekki hér og hvernig þingmenn velja sér viðfangsefni og umræðuefni.
    Þegar atvinnuleysi hjá konum á Suðurnesjum var 8,5% voru samtals 80 manns atvinnulausir í Vestmannaeyjum og um það fjallaði frétt á baksíðu Morgunblaðsins, stærsta fjölmiðils í landinu. Enginn annar fjölmiðill nefndi að það væri atvinnuleysi á Suðurnesjum rétt eins og núna síðast. Það verður að segjast eins og er þegar við lítum á það hvernig fjölmiðlar, og þá á ég bæði við ríkisfjölmiðla og hina frjálsu, fjalla um byggðarlögin í landinu, um ástandið þar í atvinnumálum eða öðrum málum, þá hlýtur maður að ætla, sem rétt er, að á Reykjavíkursvæðinu séu um það bil 150 þús. manns. Magn umræðunnar í fjölmiðlum í dálksentímetrum eða í tíma útsendingar er í samræmi við það. Ef við lítum á magn útsendinga, dálksentímetra eða útsendingartíma hvað varðar Vestmannaeyjar, þá hljóta þar að búa 50 þús. manns. Þetta er fréttamat fjölmiðlanna. Og þetta eru líka áhrif þeirra á þingmenn og ráðherra, það hljótum við að viðurkenna því að stór hluti af umræðu okkar stjórnast af fréttamati, því miður.
    Staðreyndin er nefnilega sú að á þessum sama tíma og ég var að nefna hafði nýlega verið seldur 1.500 tonna þorskígildakvóti frá Vestmannaeyjum norður í land. Um það fjölluðu fjölmiðlarnir í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum, hverri greininni á fætur annarri og opna eftir opnu var undirlögð. Menn voru eltir langt út í heim til að inna þá eftir áliti þeirra á áhrifum, afleiðingum og ástæðum. Nokkrum vikum áður voru seld frá Suðurnesjum 1.000 tonn sem er 2 / 3 af hinu magninu. Þessir sömu fjölmiðlar sögðu frá því á fáeinum sentímetrum. Það þurfi ekki fingur annarrar handar til þess að mæla þá dálksentímetra og það þurfti varla bæði eyrun til þess að fylgjast með útvarpsfréttum og ekki annað augað til þess að

fylgjast með sjónvarpinu. Á sama tíma var þó atvinnuleysi á Suðurnesjum langmest.
    Við skulum aðeins víkja að því hvað gæti hafa valdið þessu. Um aldir voru Suðurnesin ein af matarkistum Íslendinga og þangað komu menn af öllum landsfjórðungum reglulega til vetrarvertíðar og þeim var alltaf tekið vel. Það sýna allar sagnir og annálar að Íslendingum hvaðanæva að var vel tekið á Suðurnesjum. Þar höfðu þeir vinnu og þótti sjálfsagt að þeir fengju vinnu eins og heimamenn. Á þessari öld fengu Suðurnesin hefndargjöf stjórnmálamanna í Reykjavík, varnarlið. Ekki ákváðu Suðurnesjamenn að það yrði þar staðsett. Ekki ákváðu Suðurnesjamenn þær reglur sem þar gilda um verktöku fyrir varnarliðið eða um umhverfi starfsmanna þess. Þetta var allt ákveðið í Reykjavík og það voru Reykvíkingar sem nutu verktökunnar. Það hljótum við að viðurkenna. Aldrei var kallað til Suðurnesjamanna þegar málin voru rædd. Þeirra hagsmunir voru ekki hafðir í fyrirrúmi.
    Nokkrum áratugum seinna var lögð Reykjanesbraut og þá segir sig sjálft að möguleiki íbúa á Suðurnesjum batnaði verulega en líka tækifæri annarra landsmanna til að komast þangað og raunar til annarra landa því að þar er eina samgöngutæki landsins sem hefur reglulegar samgöngur við aðrar þjóðir, Keflavíkurflugvöllur, eini millilandaflugvöllurinn. Nokkru seinna fór að gæta erfiðleika í sjávarútvegi, ekki aðeins á Suðurnesjum heldur um landið allt.
    Á þeim tíma var gripið til þess að stofna ríkisstofnun sem ætti að fara með fjármuni okkar, sameiginlega fjármuni og veita lán. Hún heitir Byggðastofnun, sjóðurinn heitir Byggðasjóður. Um langan tíma gilti sú regla að á suðvesturhorni landsins, sérstaklega á Suðurnesjum, fengju menn ekki þau lán. Ástæðan var einföld og hún gall aftur og aftur í eyrum okkar: Þið hafið völlinn. Þið hafið völlinn. Þetta voru rökin og svörin við öllum málaleitunum. Meðan svona stóð, og nú segi ég ykkur fréttir sem hafa komið áður og eru staðfestar, og það var um árabil, áttu Suðurnesjamenn enga möguleika miðað við aðra landsmenn til að endurnýja og endurbæta fiskvinnsluflota og fiskvinnslustöðvar. Þegar þeim loks tókst að sýna fram á að meðalaldur veiðiskipa á Suðurnesjum var tvöfaldur fiskiskipa á landinu öllu þá loks var bætt úr. Ástandið var sem sagt hálfu verra. Fiskiskip á Suðurnesjum höfðu helmingi fleiri daga frá veiðum vegna bilana en annars staðar á landinu. Fiskvinnsluhúsin tóku engum þeim framförum sem annars staðar urðu á landinu í fiskvinnslu. Suðurnesin voru hornreka í atvinnuþróun á landinu og það segi ég nú vegna þess að á sama tíma var það nánast skammaryrði á Íslandi að tala um einhverja atvinnuþróun í öðru en sjávarútvegi. Það þótti virkilega ljótt að tala um þróun í iðnaði. Við áttum öll að stunda sjávarútveg, fiskveiðar eða fiskvinnslu. Það var talið afskaplega slæmt ef Íslendingur hugðist leggja fyrir sig annað ævistarf.
    Hver voru viðbrögðin þegar Suðurnesjamenn bentu á þessar staðreyndir? Þau komu fram í fjölmiðlum, landsfjölmiðlum. Þau komu fram hér á þingi á þeim tíma. Þau hétu grátkór.
    Virðulegi forseti. Ég skal stytta mál mitt. Örfá orð í viðbót. Ég tel miklu skipta að úr verði bætt, að við sýnum víðsýni til þess að meta landshluta að jöfnu, meta fólk að jöfnu burt séð frá því hvar það býr, burt séð frá því hvaða atvinnutæki aðrir hafa boðið þeim upp á. En athugum það að varnarliðið er að draga saman seglin. Þar hefur starfsmönnum fækkað svo hundruðum skiptir á 24 mánuðum. Við verktöku hefur fækkað starfsmönnum svo tugum skiptir og ef ekki rætist núna úr samningaviðræðum sem standa þá mun þeim fækka svo að hundruðum skiptir. Þá verður atvinnuleysi á Suðurnesjum ekki fáein hundruð heldur þúsund. Hvað segja Reykvíkingar og svokallaðir landsfjölmiðlar þá? Hvað gerum við þá?